Virðingar er þörf
Það eru því miður alltof fáir íbúar sem sýna skipulagi bæjarins, vexti hans og þróun áhuga. Það eru alltof fáir íbúar sem hefja upp rödd sína hafi þeir eitthvað að athuga við framkvæmdir meirihlutans. Vera má að það sé af ótta við yfirvöld því dæmin sýna að ef íbúar hafa athugasemdir við framkvæmdir meirihlutans, skipulag eða skort á þjónustu þá er þeim oftar en ekki svarað með útúrsnúningum og ókurteisi, ef þeim er þá svarað á annað borð. Þegar íbúar bæjarins sýna vexti hans og framþróun áhuga þá er það lágmarkskurteisi af hálfu meirihlutans að þeim sé svarað og það af virðingu.
Virðingar er þörf og það er löngu tímabært að skipta um meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs. Það þarf að breyta áherslum og stefnumiðum bæjarins. Minnismerki núverandi meirihluta eru orðin æði mörg og við þurfum ekki á fleiri slíkum að halda. Tími íbúanna er runninn upp. Það er gott að búa í Kópavogi. Í Kópavogi eru öll lífsins gæði. Í Kópavogi er allt innan seilingar, þar má jafnvel finna lykil að lífsgæðum. En fyrst þarf að skipta um meirihluta.
Höfundur býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2006