Skemmtisaga

Það er misjafnt hvað mennirnir hafast að. Eitt sinn þegar Breiðabliksstelpurnar voru á ferð í Danaveldi (eða var það landsliðið?) þá var einn aukadagur í lok ferðar þar sem liðið fékk tækifæri til að kíkja á ströndina og láta sólina baða sig. Þessu tóku íslenskrar stúlkur fagnandi og lögðust í sólbað. Einhverjar fengu nú leið á þessu og fóru all nokkrar á hjólabátaleigu og leigðu sér bát til afþreyingar. Þar sem hópurinn var að hjóla fyrir utan ströndina sjá þær alveg svakalega mikla töffara á spíttbát fyrir utan línu sem markaði af umferð hjólabáta og spíttbáta. Strákarnir á spíttbátnum fóru að gefa stelpunum auga og buðu þeim á bátinn með sér, svo fór að ein úr hópnum tók að sér að hnýta bátana aftan í og flytja þá í land en stelpurnar sáu fram á daglangt ævintýri með þessum nýju vinum sínum.

Eftir nokkra veru á bátnum kom að því að leiðir skildu og skiluðu strákarnir stelpunum af sér við miðlínu, öryggislínuna, og þá var bara að taka til við að synda í land. Ásta B. Gunnlaugsdóttir var ein þessara stelpna sem fengu far á bátnum sem og Margrét Sigurðardóttir og munum við nú beina sjónum okkar að þeim tveimur. Sagan var sem sagt komin að því að þær þurftu að synda í land. Ásta var með rándýrar linsur í augunum og því treysti hún sér ekki til þess að setja höfuðið ofan í sjóinn, af ótta við að linsurnar eyðilegðust. Ásta er ekki sérlega þekkt sundkona og eftir nokkur sundtök, eða fleiri, fór hún að mæðast. Kallaði hún til Möggu og sagði henni að mæðan sækti að henni og að hún efaðist um að hún hefði það af til lands. Magga er þekkt baráttukona á öllum sviðum, afskaplega hörð í horn að taka, og hún hvatti vinkonu sína áfram, „svona Ásta, þú ferð ekki að gefast upp núna, haltu áfram að synda!“ Ásta tók því örfá sundtök í viðbót en varð þá fyrir því óláni að súpa dálítið af sjó og nú var hún viss um að hún myndi drukkna þarna í Danaveldi og komast aldrei heim aftur. Í ótta sínum hrópar hún aftur á Möggu: „Magga þú verður að bjarga mér, ég er að drukkna!“ – „Nei, Ásta, þú ert ekkert að drukkna, haltu bara áfram að synda, þú getur þetta alveg!“ – „Magga, ég er að drukkna, ég er farin að súpa sjó og ég get ekki haldið áfram, þú verður að bjarga mér,“ sagði Ásta og var farin að óttast verulega um sinn hag.

Hér verða þáttaskil í sögunni því Magga sneri við, synti til Ástu, þar sem hún var að niðurlotum komin og hugðist bjarga vinkonu sinni frá bráðum bana. Hún rifjaði upp gömlu góðu björgunarsundsaðferðina sem hún lærði í litlu/gömlu sundlauginni í Kópavoginum. Sneru þær sér báðar á bakið og tók Magga föstum tökum undir hökuna á Ástu. Nema hvað. Í þá mund sem Margrét fær Ástu í fangið, þá rekur hún rassinn í botninn á sjónum. Á þessum slóðum var svona agalega aðgrunnt og var viðvörunarlínan ekki síst til þess fallin að forða spíttbátum að rekast í botninn. Það eina sem þær stöllur þurftu að gera til að bjarga sér frá drukknum var því að standa upp og ganga í land.

Af þessu tilefni var ort vísa – sem er reyndar leirburður – og fór vinkona okkar „Dollý dulræna“ með vísuna á spáfundi nokkrum sem haldinn var á kvennakvöldi Breiðabliks fyrir margt löngu.  Vísan er svona:

Sundævintýri

Út að synda fóru tvær
slíkt er ekki á allra færi
svo nálægt drukknun voru þær
með vatn uppá mið læri.

Annars eru sögurnar af Möggu Sig óþrjótandi og óteljandi. Eitt sinn fóru Blikastelpur í keppnisferð til Ísafjarðar. Þetta var á þeim árum þar sem venjulega var keyrt í alla leiki en að þessu sinni var tekið flug og liðið ákvað að gera sér glaðan dag á Ísafirði og dvelja þar yfir heila helgi. Á þessum tíma var líka mikið gert af því að auglýsa svokölluð „þriggja staða flug“ en það var nýjung sem Flugfélag Íslands eða Flugleiðir stóðu fyrir. Nema hvað Magga Sig og Sigríður Jóhannsdóttir (Sigga Jó) höfðu heyrt af svakalega fínu balli á Akureyri. Þær ákveða því að breyta miðanum sínum í þriggja staða flugsmiða og fara út á flugvöll. Þar á bæ könnuðust menn ekki við að hægt væri að fljúga frá Ísafirði til Akureyrar, en okkar konur voru algjörlega vissar í sinni sök, þær höfðu heyrt auglýst í útvarpinu að boðið væri uppá þriggja staða flug og það vildu þær fá. Sennilega hefur afgreiðslumaður flugfélagsins á Ísafirði verið orðinn leiður á þeim stöllum því einhvernvegin komust þær til Akureyrar og á ballið. Dollý var ekki í vandræðum með að bulla um þetta ævintýri.

Þær áttu að fljúga heim í dag
hvað er það sem ég heyri
að þær miðunum sínum kipptu í lag
og enduðu á Akureyri!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu