Framboðsfundarvísur
Veturinn 1990-1991 var ég leiðbeinandi við Grunnskólann í Stykkishólmi. Sjálfsagt hef ég komið þokkalega fyrir því innfæddir voru fljótir að draga mig í ýmsa félagslega starfsemi í bænum. Eitt af þeim verkefnum sem ég tók að mér var að vera annar tveggja fundarstjóra á framboðsfundi fyrir alþingiskosningarnar 1991. Þarna voru mættir frambjóðendur allra flokka og fundargestir komu víðsvegar að af Snæfellsnesi. Veðurútlit var ekki gott þetta kvöld og þegar leið á fundinn sá ég að lögregluþjónarnir Sveinn Ingi og Óli stormur voru farnir að ókyrrast nokkuð. Svo fór að Óli kom til mín og sagði að nú yrði að slíta fundi þar sem færð væri farin að spillast og hætt við að fundargestir myndu verða veður tepptir í Hólminum. Ég og Eyþór Benediktsson, íslenskukennari í skólanum, ræddum um hvernig best væri að koma þessum skilaboðum áleiðis en Ómar Ragnarsson sjónvarpsfréttamaður, sem þá starfaði á Stöð 2, var á staðnum með myndatökulið og var að taka upp ræður frambjóðenda. Það varð úr að við Eyþór ákváðum að slíta fundi með eftirfarandi vísum, sem ég fór með úr ræðustól:
Frambjóðendur flestir hafa
í fjármál miklu púðri eytt.
En úti er farið að snjóa og skafa
og mikið skelfing er ég orðin þreytt.
Því mér þætti vel við hæfi
þá flestir yndu vel við sitt.
Að allir hérna stjórnmál svæfi
skundi heim og geri hitt.
Þessar vísur notaði Ómar síðan óspart á kosninganóttina sjálfa meðan beðið var eftir úrslitum, en sem betur fer hafði ég þá ekki aðgang að Stöð 2 og varð því ekki vitni að því, enda var framburður minn á vísunum engan vegin til fyrirmyndar.
Skemmtileg saga engu að síður og mér finnst eins og vísurnar hafi lagast heilmikið eftir því sem lengra líður frá þessum tíma.