Kveðist á við Odd

Við Oddur B. Grímsson höfum um allangt skeið, frá jólunum 1998, kveðist á í jólakortum sem við sendum hvort öðru önnur hver jól. Hér er afraksturinn, en þess skal getið að Herdís er eiginkona Odds. Vísurnar skal lesa neðan frá og upp.

Ingó 2014
Flestum reynist lífið ljúft
lagar okkur það að þreyja.
En leiðin hún er kröpp og kúpt,
því við komum til að lifa og deyja.

Oddur 2013
Ellin á mig sækir senn
sífellt mínar vonir dofna.
Mun þá vaka vænting enn
er varanlega útaf sofna?

Ingó 2012
Elsku vinur einn þú átt
ástúð mín’ og hugsun hlýja.
Til mín hugsa helst þú mátt
ef hússins freyju finnur nýja.

Oddur 2011
Ljóðastífla leidd‘ af sér
langvinnt hugarvíl
svo aldrei mun ég endast þér
á við heilan fíl.

(Oddur fékk mikla ritstíflu fyrir jólin 2011 og sendi mér uppköst af tveimur vísum, sem ég set hér með, því þær segja til um hvernig kappanum leið.)

Það er mér held ég hugarvíl
að hafa tapað getu
að yrkja ljóð og leika fíl
….

Er mér þungbært þrautarvíl
að þekkj‘ei hvað því veldur
að get‘ei látist leika fíl
né ljóða til þín heldur)

Ingó 2010
Vertu ei með hugarvíl
hvort vin ég muni finna.
Kannski mun ég finna fíl
sem sæst mér til að sinna

Oddur 2009
Hvernig er það heillin mín
hver fær við þig samið.
Er það vesæl vonlaus sýn
að verði skassið tamið?

Ingó 2008
Hátíð fer að höndum ein
nú Herdís mun þér sinna.
Ég mun meyjan vera hrein
þú maður drauma minna.

Oddur 2007
Glingur allt og gull er mér
gagnslaust því ég lofa.
Og afsala því ætla þér
en ekki því að sofa.

Ingó 2006
Á kortið jóla krotað hef
kveðju þér til handa.
Silfur, hring og sylgjur gef
og sef hjá þér í anda.

Oddur 2005
Mér er þrautin þungbær sú
á þig að verð´að  ljóða nú.
Þú sem varst mín von og trú
verður sem ósnortinn ljóminn.
Fæ ég að eilífu aðeins að heyra óminn?

Ingó 2004
Standa máttu strákur minn
á ströndu einn og sér.
Því löngum hefur ljóminn þinn
lýst dagana hjá mér.

Oddur 2003
Mig skilning vantar, skýrt og beint
hvort skal ég verk mín vinna?
Ó, seg mér heillin alveg hreint
á hverju má þá standa

Ingó 2002
Leggjast mun ég ekki lágt
að ljóða þér til handa.
Lifðu lengi og lifðu hátt
en látt’ ekki á þér standa.

Oddur 2001
Víst er dyggð að lúta lágt
og láta vel að konum.
Fá þá myndi ég frekar bágt
ef fatast myndi honum.

Ingó 2000
Halda máttu að þú hafir
hitt af mér.
Ekki líst mér ef hann lafir
lengi á þér!

Oddur 1999
Þann myndi Herdís meta koss
mætan, frá minni vinu.
En ógn það yrði heldur en hnoss
ef héldir þú að mér hinu.

Ingó 1998
Reka þér skal ég rembingskoss
næst er ég rekst þig á.
Aldrei fyrr hrepptir þú þvílíkt hnoss
en hvað segir Herdís þá?

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu