Dollý spáir fyrir árinu 2007
Ég kíkti í heimsókn til Dollý vinkonu minnar dulrænu í gærkvöldi. Hún sat í hálfgerðu myrkri í stofunni en aðeins var kveikt á litlu sprittkerti á borðinu hjá henni. Í útvarpinu hljómuðu lög unga fólksins, eða hvað þau heita núna en Dollý var samt ekki að hlusta. Hún var að skoða í kristalskúluna sína.
Þar sem ég þekki vinkonu mína þá ákvað ég að trufla ekki, hvíslaði hæ, laumaðist fram í ísskáp og sótti bjórdós fyrir mig og Dollý. Dollý vinkona mín er eins og ég, hún þolir illa bjór sem er sterkari en 5% og við fáum okkur alltaf Thor Pilsner, sem er bara 4,6. Hann er bruggaður í Randers í Danmörku en þangað fór ég einu sinni með U21 árs kvennalandsliðinu.
Dollý leit á mig hálftómum augum þegar ég setti baukinn fyrir framan hana en sagði svo. „Þetta verður skrítið ár. Það verða mikla breytingar á mörgum sviðum. Menn eldast en vitkast ekki endilega að sama skapi. Nema börnin, þau verða gáfaðri eftir því sem þau eldast, svona framundir unglingsárin. Þá stoppar þetta allt!“
Ég skildi ekki alveg hvað Dollý var að segja en það gerði ekkert til ég fann það á mér að hún myndi eiga góða spretti þá um kvöldið. „Fólk mun strengja áramótaheit á miðnætti, lofa því að hætta að borða um leið og það dýfir snakkinu í Voga ídýfuna, hætta að reykja um leið og það kveikir í „síðustu“ rettunni og hætta að drekka um leið og það hrópar „okkar skál“. Já ekki er öll vitleysan eins,“ segir Dollý og dæsir stundarhátt.
Græðgin stýrir mörgum Þegar Bó Halldór fór að syngja um Gullvagninn sagði mín: „Hann ætti kannski frekar að syngja um álvagninn!“ Það var ekki laust við að ég sæi glott á andliti hennar og hún hélt áfram. „Það er undarlegt með Björgvin, svona vel gefinn eins og hann er, að hann skuli hafa selt sálu sína til álversins. Heldur þú að maðurinn hafi ekki alveg getað ruddað upp sinfónínunni án þess að hafa Alkan með í för? Þetta er græðgi, ekkert nema græðgi. En hann er svo sem ekki einn um það blessaður, svo honum er kannski vorkunn. Ég held að Björgvin gefi ekki út plötu á árinu 2007 og hann hættir að vera rödd Stöðvar 2. Honum býðst að flytja til Ítalíu, gerast upptökustjóri og hann mun láta verða af því.
Popparar okkar og tónlistarfólk mun ekki hljóta skjótan frama í útlöndum á árinu. Margir telja sig tilkallaða en enginn verður útvalinn. Björk og Mezzoforte eru búin að blóðmjólka markaðinn!“
Vinkona mín saup á bjórnum, strauk sér um kviðinn og ropaði. „Kaldi á eftir að slá í gegn, það er andskoti góður bjór. Hann er betri en Thor en ég tími ekki að að kaupa mér dýrari bjór. Þessi er alveg nógu góður. Laun spákonu á Íslandi í dag eru engin nema vanþakklæti og um hver áramót má maður þola það að menn skoði spá síðasta árs og draga fram allt það sem ekki gekk eftir. Gerið betur, já gerið betur, ég segi ekki annað!
Áhyggjur af Davíð
Ég hef áhyggjur af Davíð, hann er eitthvað svo þreytulegur. Ég held hann sé ekki búinn að ná sér af veikindunum og þetta starf í bankanum hentar honum ekki. Hann er ekki nógu mikið aðal, hann þarf að vera aðal, hann Davíð, bara svo honum líði vel. Honum líður ekki vel. Kannski hættir hann og fer að skrifa. Ég held hann verði ekki í bankanum nema fram að hausti. Hann á hins vegar eftir að slá í gegn næstu jól með bók sem heitir „Sagan öll“ eða eitthvað svoleiðis. Það verður krassandi bók, mjög krassandi og menn keppast við að kaupa hana og formæla. Já menn verða ekki á eitt sáttir.
Svo held ég að Vilhjálmur kvænist á árinu. Hann er kominn með svo fína konu og sennilega verður Davíð veislustjóri hjá honum. Það er ómögulegt fyrir Villa minn að vera ókvæntur og Guðrún á eftir að segja já takk! Já, já, ég held það nú.
Forsetinn í blárri áru
Það er svo skrítin áran í kringum forsetann, hún er eitthvað svo blá. Kannski eru þetta peningar, kannski er þetta kulnuð ást, ég veit það ekki alveg. En forsetinn mun samt standa sig þokkalega, hann verður mikið erlendis, mun meira en áður og verður harðlega gagnrýndur fyrir það. Kannski er þetta vegna bruðls á forsetaskrifstofunni eða í bústaðnum. Það er eitthvað blátt, já sennilega eru þetta peningar. Hann á eftir að krossa menn og annan, mun fleiri karla en konur og femínistar munu standa á öndinni alveg hreint út af því. Svei mér ef það byrjar ekki bara núna strax eftir áramótin.
Samfylkingin fer í ríkisstjórn
Ríkisstjórnin fellur í kosningunum, það er næsta víst. Öllum að óvörum ná framsóknarmenn tveimur mönnum í Norðvestur, en Siv fellur af þingi í Kraganum. Hún þarf þó ekki að örvænta því hennar munu bíða tækifæri þar sem hæfileikar hennar munu njóta sín til fulls. Ég held það verði í Bandaríkjunum, já já, ég held það nú.
Íhaldið reynir hvað það getur að fá gömlu kommana til liðs við sig og það verður mjótt á mununum þar. Þó ég vildi segja að Samfylkingin muni leiða næstu ríkisstjórn þá er eitthvað í kúlunni minni sem segir mér að svo verði ekki. Gömlu grænu kommarnir munu hlaupa undir bagga með íhaldinu. Það mun þó ekki duga lengi og þá er tími Jóhönnu og Samfylkingarinnar loksins kominn.“
Þegar hér var komið sögu þá stóð Dollý upp og fór á klósettið, bjórinn var farinn að segja til sín og sennilega hefur hún þurrkað táradropa af hvarmi sínum þegar hún leit í spegilinn. Hún er gamall Krati og þolir illa að sitt fólk er ekki í ríkisstjórn. Hún lét hins vegar ekki á neinu bera þegar hún kom fram aftur og ef ekki hefði verið lítil ferðataska á gólfinu þá hefði hún ekki dottið svona illa á stofuborðið. Mér fannst hún hafa vankast eitthvað en mín var sko ekki búin að gefast upp á kúlunni, staulaðist í sætið sitt aftur og tautaði: „Fallið hef ég flöt sem áll fallið beint á gólfið. Ferlega var þetta vont Sæktu mér annan bjór“
Ég hvarf þegar í eldhúsið og sótti bjórinn, einn fyrir hana og einn fyrir mig.
Rysjótt tíð og blaut
„Það verður mikið að gerast í veðrinu á næsta ári. Það verður rysjótt tíð eins og alltaf en rigningar munu okkur lifandi ætla að drepa. Sérstaklega fyrir austan. Þar mun rigna eldi og brennisteini megnið af sumrinu og yfirföllin á Kárahnjúkum mun strax komast í gagnið. Veðrið hér á Suðvestur horninu verður þokkalegt. Sumarið gott , vorið og haustið milt.
Veðrið er að breytast svo mikið. Hafstraumar eru að finna sér annan farveg og það verður okkur ekki endilega til ills. Snjó mun ekki festa að neinu ráði og Andrésar Andar leikunum verður frestað í fyrsta sinn. Íslandsmótið í alpagreinum mun fara fram í Norður Noregi og menn verða ekki á eitt sáttir með sigurvegarann þar. Það verður eitthvað umdeild, mjög umdeilt.
Fleiri skautahallir munu rísa, a.m.k. þrjár og rætt verður af fullri alvöru um að byggja innanhúss skíðabrekkur. Röksemdir fyrir slíku eru ærnar en þegar snjóar á Íslandi hefur oftar en ekki verið ómögulegt fyrir venjulegt fólk að vera úti.
Ökuleyfisaldur verður hækkaður
Jeppamenn munu verða til vandræða í vor. Menn fara alltof snemma af stað og einhverjar skemmdir verða á landinu okkar af þeirra völdum. Þegar veturnir eru svona mildir verða menn að bíða eftir því að jarðvegur þorni almennilega áður en farið er á stórum jeppum á hálendið. Það verður þó jákvæð þróun í umferðarslysum. Þeim mun fækka en ríkisstjórnin mun líka setja lög sem hækka bílprófsaldurinn í 18 ár og setja skilyrði við vélarstærð bíla sem fólk yngra en 20 ára má aka. Þetta eru góð lög, mjög góð lög, og verða til bóta. Krakka andskotarnir munu þó örugglega láta í sér heyra, það gerir ekkert til! Leyfum þeim bara að blása.
Náttúran mun ekki láta mikið á sér bæra á árinu en það styttist þó í það, og þá er ég ekki bara að tala um sjálfa mig. Katla gamla mun eitthvað hrista sig, en það er bara aðvörun. Hún mun samt örugglega hreinsa sig fyrir árið 2010. Ef menn horfa á hætturnar með bæði augun opin mun verða komið í veg fyrir stórtjón en það má enginn líta undan, enginn, þá er voðinn vís.
Handboltamenn ná í verðlaun
Á íþróttasviðinu verður mikið líf og fjör. Handboltastrákarnir okkar ná loksins á pall á heimsmeistaramóti, ég held að þeir nái bronsverðlaunum en ef allt gengur upp þá verða þeir í 2. sæti. Íslendingar munu fjölmenna á mótið og bankarnir munu senda heilu farþegavélarnar á síðustu tvo leikina. Allt eru þetta ómissandi karlar sem hefðu alveg efni á því að borga undir sig sjálfir en einhverra hluta vegna ákveða bankarnir að hækka frekar vextina og borga undir þá þannig.
Það verða krýndir nýir Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla og kvenna. Nýir litir munu sjást á himninum, kannski mæta liðin í öðrum búningum en venjulega en félögin sem fara með sigur af hólmi hafa bæði unnið oft áður, meira að segja mjög oft.
Einn banki mun líða undir lok á árinu, eða verða sameinaður öðrum. Barkleys bankinn mun að öllum líkindum koma hingað og opna útibú. Það verður nóg til þess að einn íslenski bankinn mun leggja upp laupana. Stjórnendur Barkleys munu segjast vera að gjalda Íslendingum fyrir uppkaupin í Bretlandi og fljótlega mun Den Danske bank fylgja í kjölfarið. Það verður líf og fjör á bankamarkaðnum og byggingariðnaðurinn sem sá fram á sultartíð mun allur lifna við á ný. Boðin verða ný og hagstæð lán og Íslendingar hafa hingað til ekki verið þekktir fyrir að láta slíkt lán úr hendi sleppa.“
Dollý var orðin nokkuð andstutt. Hún krosslagði fætur sína hvað eftir annað og var orðin óróleg. Henni var hugsað til útlanda þar sem kóngafólkið er henni ofarlega í huga. „Karl tekur loksins við af Elísabetu móður sinni. Loksins, loksins mun heimurinn segja en það gerist eitthvað óvænt sem verður til þess að Vilhjálmur sonur hans mun þurfa að gegna enn fleiri opinberum verkefnum en áður. Hann verður faðir á árinu en það mun samt ekki uppgötvast fyrr en árið 2008 þegar hann verður neyddur til að kvænast stúlkunni sem hann eignast barnið með. Þetta mun vekja upp mikla ólgu innan bresku krúnunnar og meðal þegna hennar en þegar í ljós kemur að stúlkan er í raun laundóttir Alberts prins af Mónakó mun öldurnar lægja enda saman komnar einhverjar bestu aðalsættir sögunnar.“
Framboð til forseta
Dollý var greinilega orðin þreytt þegar hér var komið en skömmu áður en hún lagðist fram á borðið og það kviknaði í hárinu á henni heyrði ég hana segja: „Hillary fer í framboð“. Ég slökkti á kertinu og í hárinu á henni en forðaði mér síðan út um dyrnar enda lyktin af þessu plasthári alveg viðurstyggð.