Magga Sig 60 ára
Ja hérna hér – sextíu ár Magga. Hvert hafa þessi ár farið eiginlega? Mér finnst eins og gerst hafi í gær þegar löggan pikkaði okkur upp niðri í Gryfjum og lét okkur labba heim með mótorhjólið mitt. Þvílík smámunasemi að leyfa mér ekki að reiða þig heim aftur á hjólinu, við tvímenntum jú niður eftir! Mótorhjólaprófið mitt var rétt handan við hornið, hefði fengið það eftir tvær vikur, en nei … Kópavogslöggan þurfti að eyðileggja allt fyrir manni.
Við Magga höfum að mér finnst þekkst allt hennar líf (hún er jú örlítið yngri en ég). Magga ólst upp á Álfhólsvegi 98, hjá henni Stínu á Horninu og Sigga, og ég örfáum húsum neðar í Hinnabúð á Álfhólsvegi 80. Þrátt fyrir tveggja ára aldursmun náðum við fljótlega vel saman, áttum svipuð áhugamál og vorum dálitlar strákastelpur í okkur. Ævintýragjarnar og uppátækjasamar eins og sagan hér að framan sýnir.
Unglingsárin voru þó aðeins ólík hjá okkur. Henni þótti gaman að fá sér smá í glas, á meðan ég ákvað að sleppa því fram undir þrítugt en þá skiptum við líka um hlutverk. Skál Magga mín.
Ég á ótal sögur um hana Möggu. Þingvellir um Verslunarmanna-helgi er minnisstæð, rétt eins og ferðin okkar góða austur á Egilsstaði þar sem við fórum með Hinna litla frænda minn að reyna að fanga hesta sem Magga vildi endilega ríða.
Talandi um það. Síðar á ævinni ákvað Magga mín að það væri snjallt að henda sér í hestana. Við sem þekkjum hana vel vitum að það var kannski ekki það allra snjallasta sem okkar kona gat gert við líf sitt. Henni og hestinum hennar samdi ekki alltaf vel. Þegar ég heimsótti hana á spítalann eftir að hesturinn hennar fældist og hún slasaðist illa urðu til þessar vísur
Þú elsku vina ljósið blíða
blessuð séu sporin þín.
Þú veist að þú átt ekki að ríða
nema hafa klæðin fín.
Því sumt er ekki ætlað konum
þær engan þurf’að bera kross.
Vænting þín fór fram úr vonum
varasamt var þetta hross.
Við Magga vorum meðal stofnfélaga í ÍK, Íþróttafélagi Kópavogs, árið 1976. Ekki beint aldraðar eða hávaxnar en áttum mikið kapp og vilja til að spila fótbolta. Þrátt fyrir það varð ekkert úr því að stelpur fengu að spila með strákunum í ÍK, nema á æfingum og þá helst í marki, þannig að leiðin okkar beggja lá í Breiðablik. Og maður minn – þar urðu ævintýrin til. Magga sló í gegn og ég lærði að til að komast áfram í fótboltahreyfingunni þurfti ég að vera utan vallar og rífa smá kjaft!
Þær eru ótalmargar sögurnar af Möggu úr Breiðabliki. Sú allra frægasta er af ferð Blikastelpna til Kaupmannahafnar þar sem Magga bjargaði okkar allra bestu Ástu B frá drukknun undan strönd Danaveldis. Blikastelpur höfðu hitt myndarlega drengi á spíttbát en þeir máttu ekki skila þeim alla leið að ströndu þannig að þeim var hleypt út við línu sem skildi að báta og syndandi fólk. Þegar stelpurnar syntu til þeirra var fjara en þegar þeim var skilað aftur var komið flóð og því heldur lengra í land en á leið út. Ásta var betri í fótbolta en sundi og þegar leið á leiðina í land segist hún vera farin að súpa sjó og vera að drukkna. Þá snýr ofurhetjan Magga sér við og rifjar upp björgunarsundsaðferðina sem hún lærði í gömlu sundlauginni í Kópavoginum. Þær stöllur snúa sér báðar á bakið, Magga tekur þéttingsfast undir hökuna á Ástu, kippir henni að sér og fær hana í fangið – og viti menn þá rekur hún rassinn í sandinn! Þær stóðu upp og gengu í land.
Eitt af því besta sem við Magga höfum gert saman er að stofna hljómsveit. Magga hefur ótrúlegan sannfæringarkraft og ekkert er henni ómögulegt. Þó ég hafi bara kunnað fjögur grip á gítar þá var ég ágæt í dönsku og það dugði Möggu. Hljómsveitin Pigerne varð til og sú sló aldeilis í gegn í Kópavogi um síðustu aldamót. Magga hefur leitt mig út í allskonar vitleysu en sennilega er það allra vitlausasta þegar hún sannfærði mig um að það væri sniðugt fyrir okkur tvær að troða upp með heila tónleika á Kaffi Org sem var við Lækjartorg um örskamma stund. Magga með bjöllur hangandi um fótinn á sér, gítar við hönd og ég að reyna að syngja því singekvinden Fifi Klein þverneitaði að taka þátt í þessu ævintýri. Þarna stóðum við tvær fluttum allan katalóginn okkar – heil sjö lög – á meðan einhver ágæt kona í salnum öskraði á okkur að hætta. Við hvert öskur söng ég hærra og Magga stappaði fastar niður fæti. Við kláruðum katalóginn.
Það er óþarfi að segja það, en Kaffi Org opnaði ekki aftur eftir framkomu okkar.
Eins og þið heyrið eru sögurnar af Möggu óteljandi. Hún er endalaus uppspretta gleði, hamingju og óendanlegur gleðigjafi. Veislurnar og partýin hjá henni er óteljandi og það var iðulega þannig að veislugestir voru frá fimm ára upp í áttatíu og fimm – allir skemmtu sér vel og allir voru jafningjar í veislunni hennar Möggu, rétt eins og núna! Skemmtilegustu veislurnar voru þó þegar Ósk frænka Möggu var hérna með okkur. Þá fóru draumarnir af stað, bújörð úti á landi þar sem þær frænkur ætluðu að vera með svín, kýr og kindur og stundum leyfðu þær mér að vera með í þessum bisness. En Ósk hleypti mér aldrei inni í hús … ég átti að vera úti að hugsa um svínin!
Magga eignaðist gullmolann sinn – Esjar á sínum tíma. Og þvílíkur gleðigjafi sem hán hefur verið í hennar lífi frá þeim tíma. Við sjáum það líka núna að uppeldið hennar Möggu hefur ekkert klikkað.
Ég get ekki staðið hér og talað bara um Möggu því stærsta ástin í lífi hennar er klárlega snillingur hún Helga. Þvílík gæfa sem það var að þær náðu saman – eigum við ekki að skála fyrir þeim og Gurrý sem leiddi þessar fallegu sálir saman.
Ég þekki það af eigin raun að það að kynnast sálufélaga á fullorðinsárum er ekki sjálfgefið. Frá fyrsta degi hafa þær Magga og Helga gengið í takt og tekist á við lífið af einstöku æðruleysi og alltaf með bros á vör. Við sem hér erum getum tekið þær okkur til fyrirmyndar.
Það er því með sannri gleði sem ég sendi Helgu og Möggu mín lokaorð í bundnu máli og óska þeim allrar hamingju og fjölmargra dásamlegra ævidaga. Ég bið Helgu um að hlusta vel.
Elsku Magga
Nú ertu hokin, orðin herpt
hanga brjóstin niður á nára.
Hvergi sést í holdið bert
heilladísin 60 ára.
Skál fyrir þér – takk fyrir boðið – til hamingju með daginn þinn elsku hjartans vinkona. Haltu áfram að vera þú.
