Hinna vísur
Þegar við fórum í gegnum dánarbúið hans pabba, Hinna Lár, í upphafi árs 2024 komu ýmsir hlutir í ljós. Þar á meðal voru vísur sem ortar voru honum til handa. Eitthvað var skrifað á pappaspjald, annað á umslag og eitthvað á pappír sem er orðinn svo gamall að hann er að rifna í sundur. Ég ákvað að taka þetta saman og helga þessa síðu minningu pabba míns. Hinriks Péturssonar Lárussonar.
Fiskbúðarvísurnar samdi Grímur Aðalbjörnsson, Sólheimaskáld.
Fiskbúðarblús
10. mars 1961
Þér vil ég færa og fiskbúðinni
fegurstu óskir dú dei
að varnist vel í framtíðinni
og fiskurinn verði ókey.
Það besta ætíð þú bjóðir
því blessuð ýsan, jú sí
bragðast minn elsku bróðir
bezt þegar hún er ný.
Þú kannt kunningi tökin
á kuta um breyttur er
finnur aðferð við flökin
sem fólkinu líkar hér.
Enda ertu annálaður
enginn er fremri en þú
þetta er ekkert þvaður
það segir hver einasta frú.
Í búðinni sýnir’ðu brosið
blessaðri frúnni svo rótt
ég fæ ekkert nema frosið
þeir fóru ekki á sjó í nótt.
Í dag verður kokteill í kössum
kjarngóði vínandinn
heim ekki fet við förum
fyrr en er uppdrukkinn.
Gengið ég get að því vísu
ef gerist á sjónum logn
að kappinn komi með ýsu
kútmaga, lifur og hrogn.
GA Sólheimaskáld
Fiskbúðin 4 ára
Þegar fer að vora þá vaknar upp mín sál
og verður að kallast árviss fastur liður
að senda þér í bréfi vinur hálfgert hrognamál
Hinrik kæri fisksali og smiður.
Fjögurra ára er þín góða fiskbúð nú í dag
og finn ég mig innst í hjarta til þess knúinn
og reyni af fremsta megni að bræða saman brag
þó bölvanlegur verði hann og snúinn.
Ég ætla samt að reyna og renn því nú af stað
þó rangskreiður ég eftir helgar gerist
þér persónulega Hinni og prívat segi það
og passa þú að lengra ekki berist.
Hamingjuósk égg bæði sendi búðinni og þér
að vlessun fylgi rík á þessa götu
og vona að áfram kinnar og saltfisk selji mér
signa ýsu, grásleppu og skötu.
Þú ert mesti harðjaxl Hinrik vinur minn
að hausa, gella, nætursalta og flaka
þessi bisness gefur mestan gróða í vasa þinn
en góði þú mátt ekki á klóni slaka.
Fæðutegund besta er fiskur vorri þjóð
er frúrnar kunna í Sólheimum að meta
lifrin hún er ágæt og gotan ansi góð
en graðir verða þeir sem hana éta.
Hættu að éta gotuskrattann Hinrik vinur minn
haltu þér við saltfiskinn og trosið
svo bætist ekki meira við barnahópinn þinn
borðaðu heldur allt sem hefur frosið.
Allir þekkja Hinna hér í Heimunum af því
að hann um fingur kvenfólkinu vefur
lifir eins og sóldán frá Sádí Arabí
á sinni línu kerlingarnar hefur.
Fisksalann elska þær af öllu hjarta blítt
einkanlega ef veiðist ýsu branda
sýnir þetta ekki hve veldi þitt er vítt
og varir meðan Sólheimarnir standa.
Ekki getur tunglið áfram runnið upp úr mér
reyni því ei meira þér að skrifa
Drottinn um alla framtíð blessi fisksöluna hér
far vel Hinni, ég bið þig vel að lifa.
Grímur Aðalbjörn 10.03.1964
Daginn eftir fimm ára afmæli fiskbúðarinnar
10. mars 1965
Nú er sá ellefti elsku Hinni
er ég því seinn með vísu.
Karlinum farið að förlast minni
eins og frosinni ýsu.
Ég bæta vil fyrir brotið mitt
brest minn drengið finnið
Ég drekk of lítið lífsins spritt
svo lokast fyrir minnið.
Hér er óskað alls hins bezta
áfram drengir ekkert los.
Þjónustan er málið mesta
munið piltar betra tros.
Þjónustan hér við fólk er fín
fimm ára afmælið búið.
Lítið um sénna og svoleiðis grín
sorglega öfugt og snúið.
GA Sólheimaskáld.
Þakkarávarp til Geirs Kristjánssonar
Ölið kom sér ansti vel
aftur heilsan fengin
hausinn var sem hárfín skel
og heilinn úr lagi genginn.
Ég varð maður mikið hress
mestur leið þá baginn
en varð eins og friðlaus fress
er fór að líða á daginn.
Heilsan yrði leið og ljót
að lokum það ég segi
að erfitt væri ef Íslandsmót
ynnist á hverjum degi.
Að mörkin voru ei mikið fleir
meistaratign og koppinn
má þér þakka góði Geir
að gamla Fram á toppinn.
(Geir fékk 7 mörk)