Dollý spáir fyrir árinu 2022
Aldrei þessu vant boðaði Dollý komu sína til mín undir lok ársins 2021. Hún sagði við mig að ég ætti bæði kristalsglös og vínskáp og nú væri komið að mér að bjóða. Þegar ég benti henni vinsamlega á að Ella ætti kristalsglösin og að vínskápurinn væri nærri tómur fussaði hún og sveiaði og sagði „fyllt‘ann“.
Það var því ekki við neitt ráðið, Dollý mætti í hús og bölvaði hressilega þegar hún kom upp á aðra hæð í blokkinni minni. „Hvers konar hús er þetta eiginlega? Þarf maður að draga sjálfan sig upp á þriðju hæð?“
„Við erum á annarri hæð,“ hvíslaði ég um leið og ég hleypti henni inn.
„Ekki frá bílastæðunum,“ stundi Dollý og hlammaði sér niður í drottningarstólinn í stofunni. „Ahhh… loksins almennilegur stóll.“
Árið 2021?
„Má bjóða þér eitthvað?“ spurði ég. „Já, hvað heldur þú. Áttu ekki almennilegt koníak?“
„Jú, við eigum Napoleon – viltu svoleiðis?“
„Jósefína – það er ég“ sagði Dollý dreymandi röddu og benti mér á að koma með flöskuna!
„Hvernig gekk í fyrra – var ég ekki bara góð?“ spurði Dollý um leið og hún horfði á drykkinn í gegnum ljósbrotið frá kristalnum.
„Jú, þetta var bara ágætt hjá þér. Þú varst nösk þegar þú talaðir um tímabilin þrjú í kóvid og þolinmæði almennings. Nærri 90% þjóðarinnar er bólusett eins og þú spáðir. Þá spáðir þú því að Framsóknarflokkurinn ynni stórsigur, sem gekk eftir, og þú varst sannspá um að jarðhræringar yrðu miklar nærri byggð og að íbúar á Reykjanesi og Suðurlandi yrðu skelkaðir um tíma. Svo sagðir þú að breytingar á loftslagi og veðurfari myndu orsaka mikil flóð sem enginn mannlegur máttur mun ráða við og enginn myndi sjá fyrir. Það gekk heldur betur eftir í Evrópu og hér heima. Einnig spáðir þú því að Angela Merkel myndi pakka niður og í hennar stað kæmi karl sem ekki hefur farið mikið fyrir til þessa. Þetta gekk allt eftir“
Spáin 2022
„Æ – hættum að velta fortíðinni fyrir okkur, kýlum á framtíðina“ sagði Dollý og stakk úr glasinu áður en hún otaði því að mér og bað um fyllingu. „Þessi glös eru nú ósköp smá,“ muldraði hún áður en hún opnaði spilastokkinn sem hún kom með. Crazy Sexy Love Notes stóð á boxinu Messages from your wise & fabulous inner self.
„Varstu að fá þér ný spil?“ spurði ég um leið og ég fyllti á glasið hennar. „Nei elskan mín, menn hafa verið að ásælast spilin mín og ég setti þau í þennan kassa, það dettur engum í hug að stela honum!“ Það brá fyrir glotti í andliti hennar en aðeins í örskamma stund því hún lygndi aftur augunum og sagði, „eigum við ekki að byrja?“
„Árið 2022 verður þokkalegt ár – langt því frá eins gott og flestir vona. Við fáum eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll og veðurfyrirbrigði sem við erum hreint ekki vön hér uppi á Íslandi. Skýstrókar munu hlaupa yfir land oftar en nokkru sinni. Já elskan mín – loftlagsmálin verða í brennidepli sem aldrei fyrr og eins og venjulega munu stóru ríkin, Bandaríkin, Kína og Rússland þvertaka fyrir að eiga nokkra hlut að máli.
En það er samt ekki allt alvont. Við verðum vitni að hreint einstöku góðverki sem skilur þjóðina eftir í dálítilli forundran. Er þetta í raun og veru svona? Einstaklingur og fólk honum tengt mun sýna af sér magnaða hjartagæsku og óeigingirni sem lætur engan ósnortinn.
„Góða fólkið”
En á hinum enda litrófsins eru alltaf „góða fólkið á samfélagsmiðlunum“, þeir sem allt þykjast vita og hafa einir rétt fyrir sér. Það kemur upp mál sem skiptir þjóðinni í tvo hópa, svipað og við upplifðum 2021 þegar málefni KSÍ voru í hámæli. Þá var bara ein skoðun rétt að mati „góða fólksins“. Og svei þeim sem dirfðust að hafa aðra skoðun. Annað slíkt mál mun ríða röftum mér finnst það varða körfuknattleikshreyfinguna en þó gæti ég verið á algjörum villigötum með það. Sjávarútvegurinn eða önnur stór atvinnugrein kemur líka til greina.
Málefni KSÍ verða í hámæli í upphafi árs í tengslum við ársþing hreyfingarinnar en í aðdraganda þess munu fleiri mál koma upp á yfirborðið, gamlir skápar opna sig um það hvernig lífið var í þá gömlu góðu daga og í framhaldinu munu konur innan hreyfingarinnar stíga fram og benda á hvar vandinn liggur í raun og veru. Háttsettur einstaklingur innan KSÍ þarf að taka pokann sinn og í framhaldi munu eiga sér stað mannabreytingar á skrifstofunni í Laugardalnum. Þetta er hið sóðalegasta mál allt saman og algjörlega saklausir einstaklingar þurfa að sitja undir sleggjudómum fjölmiðlafólks, bloggara og sjálfskipaðra sérfræðinga á hlaðvörpum eða hvað sem þetta heitir!
70 ára valdatíð
Árið 2022 verður ár hinnar eilífu drottningar Elísabetar, sem fagnar 70 árum í stóli drottningar í febrúar. Karl Bretaprins er orðinn langþreyttur á langlífi drottningar og mun ganga hart fram um að fá að vera konungur þó ekki væri nema einn dag! Sú gamla er hreint ekki á þeirri skoðun og hún er held ég bara að bíða eftir að hann hrökkvi upp af þannig að Vilhjálmur geti tekið við. Hann er sá eini með viti innan þessarar fjölskyldu, svei mér þá. Litli hálfbróðir hans er undir hælnum á Hollywood konunni sinni og föðurbræður hans eru auðvitað í dálitlum vandræðum sjálfir vegna gjálífis og almennra leiðinda. En Breska þjóðin elskar drottninguna sína og það verður ekkert til sparað til að fagna áfanganum hennar. Breska heimsveldið mun sýna sparihliðarnar í febrúar – sparihliðarnar. Hátíðahöldin hefjast í febrúar og þeim lýkur í júní við höll drottningar sem mun veifa með hægri höndinni í tilefni dagsins.
Í Frakklandi mun allt ætla um koll að keyra þegar Emannuel Macron nær endurkjöri sem forseti eftir harðvítuga baráttu þar sem hann verður vændur um kosningasvindl sem mun fá aðila í Borgarnesi til að líta út eins og ljósálfa.
Tom Cruse kemur aftur á hvíta tjaldið sem undirforingi Pete Michell í Top Gun og Batman mun snúa aftur með nýjum leikara í aðalhlutverki.
Stelpurnar okkar fara til Englands í júní til þátttöku í úrslitakeppni EM í knattspyrnu. Þær eiga eftir að leika vel og vera nærri því að komast í 8 liða úrslit. Af því verður þó ekki, því miður. En einstaklega dapurt ár í fótboltanum hér heima og hjá karlalandsliðnu í knattspyrnu verður til þess að Íslendingar flykkja sér að baki stelpunum okkar í Englandi. Íslendingar gera allt sem þeir geta til að komast af landi brott, m.a.s. halda með kvennaliði í fótbolta!
Vængbrotið handboltalið
Strákaliðið okkar í handbolta verður dálítið vængbrotið í upphafi árs. Kórónuveiran eða núllarinn, eins og ég kýs að kalla ómíkron, mun fara illa með drengina okkar. Þeir munu engu að síður ná nokkrum góðum úrslitum en mótið í heild sinni mun ekki fara í sögubækurnar líkt og B-keppnin í Frakklandi og silfrið í Beijing.
Heimsmeistaramótið í karlaknattspyrnu fer fram í Katar og af því móti verður fátt að frétta annað en það að Englendingar verða Heimsmeistarar…LOKSINS!
Áframhaldandi jarðskjálftar
Umhverfið okkar mun ekki njóta vafans þrátt fyrir fögur fyrirheit og það mun verða ljóstrað upp um að rafmagnsvæðingin sem hefur verið að njóta mikilla vinsælda er alls ekki eins umhverfisvæn og menn hafa viljað halda fram. Þetta er blöff allt saman, bölvað blöff!
En það verða jarðskjálftar áfram hjá okkur – helvítis jarðskjálftar.
Hjá fræga og fína fólkinu er ekki margt að frétta. Kári okkar Stefánsson nær sér í nýja konu sem er nokkuð þekkt. Hún mun fara fyrir góðgerðarsjóði Kára og njóta nokkurrar virðingar fyrir. Kári er ágætur greyið.
Landspítalinn verður mikið á milli tannanna á fólki og nýi heilbrigðisráðherrann okkar Lummi, eins og ég kallaði hann í gamla daga, mun ekki eiga sjö dagana sæla. En hann mun standa í fæturna gagnvart þeim sem þarf að stíga í vænginn við. Þegar líður á árið sé ég bláa áru umlykja Lumma minn sem merkir að menn hlusta þegar hann talar. Það veit alltaf á gott þegar það er hlustað á þá sem kunna.
Leigumarkaðurinn styrkist
Íbúðamarkaðurinn verður skelfilegur á árinu 2022. Það gengur hvorki né rekur að byggja íbúðir enda hefur orka verktakanna legið í því að byggja hótel undanfarin ár. Ungt fólk á í stökustu erfiðleikum með að koma sér upp sínum fyrstu íbúðum. Á sama tíma mun leigumarkaðurinn styrkjast, sem betur fer, með tilkomu opinberra leigusala sem sumir hverjir stunda vafasöm viðskipti. En unga fólkið okkar fær í það minnsta þak yfir höfuðið og foreldrar þeirra geta loksins farið til Tene án þess að þurfa að spá í hvort íbúðin verði í einu lagi þegar þau koma til baka!
Ég sé ágætt íþróttasumar hér heima. Breiðablik verður tvöfaldur meistari í fótboltanum og Fram vinnur tvöfalt í handboltanum. Karfan er hins vegar tvískipt, Haukar vinna hjá konunum en Þór í Þorlákshöfn hjá körlunum.“
Það verður kosið til sveitarstjórna – mikið verður það leiðinlegt allt saman, allt skemmtilega fólkið komið á þing nema Gummi.
Vínkælirinn er Secret
Nú stoppaði Dollý allt í einu og spurði – „Hvar er rauðvínið sem var í vínkælinum?“
„Á leiðinni,“ sagði ég og fékk svar um hæl „alltaf á leiðinni!“ Brunaliðið klikkar ekki.
„Guðni forseti mun halda áfram að heilla þjóðina – það er ótrúlega falleg ára yfir honum, hvít og friðsæl – og Elíza forsetafrú er sömuleiðis með fallega gula áru yfir sér. Þetta er sómafólk bæði tvö. Þau munu fylgja íþróttafólkinu okkar eftir og slá eftirminnilega í gegn á EM kvenna í Englandi. Já það verður sko saga til næsta bæjar.
Alec Baldwin leikari mun verða dæmdur fyrir manndráp af gáleysi í Bandaríkjunum og sá dómur mun vekja upp alla leikarastéttina þar í landi og víðar hvað varðar réttindi þeirra. Kvikmyndir hafa átt undir högg að sækja í Kóvid og mörgum frumsýningum hefur verið slegið á frest. Hins vegar hefur framleiðsla sjónvarpsþátta aldrei verið arðbærari og allar frjálsu streymisveiturnar eru að uppgötva það, loksins!
Ríkisstjórnin mun halda áfram með átakið Allir vinna!
Æ – er þetta ekki nóg. Ég hef vaðið úr einu í annað og veit ekki lengur hvað ég heiti – en þetta rauðvín, Secret – það er gott. Ég myndi geyma það ef ég væri þú,“ sagði Dollý um leið og hún kláraði síðasta dropann úr glasinu.
Þá stakk hún restinni af flöskunni í veskið sitt og sagði. „Ég verð sótt – takk fyrir mig ljúfan – ég rata út!“