Dollý spáir fyrir árinu 2016

„Einu sinni voru tvær konur. Og voru þær mjög fallegar. Þær þráðu að eiga heima hvor hjá annarri en bjuggu langt í burtu og sögðu aldrei hvor annarri þrá sína. Og voru sífellt að leyna óskum sínum.“

Þessar línur voru skrifaðar stórum stöfum á vegginn hjá Dulfríði Jósefínu Hansdóttur, Dollý vinkonu minni dulrænu, þegar ég leit við hjá henni undir lok ársins 2015. Hún hafði hringt í mig og beðið mig sérstaklega um að koma á mánudegi, það væru uppáhalds dagarnir hennar. Ég varð dálítið hissa enda Dollý þekkt fyrir allt annað en kristilegt líferni um helgar ég hélt að mánudagar væru verstu dagar vikunnar hjá henni. En ég lét ekki mitt eftir liggja og mætti þegar mér var sagt, enda eins gott að vera ekki að styggja hana þegar hún er í stuðinu.

Ég einsetti mér að spyrja hana út í þennan texta þegar heimsókn minni lyki, en af ótta við að hún myndi vísa mér á dyr lagði ég ekki í það strax þegar ég kom. Hún tók vingjarnlega á móti mér og á stofuborðinu loguðu kertaljós en á borðinu hennar var kristalskúluna hvergi að sjá. Ég spurði hana hvar kúlan góða væri?

– Huhh … kúlan, ég gaf henni nú frí. Það kom ekkert af viti út úr spádómi síðasta árs og ég hef síðustu vikurnar leitað fyrir mér hvar ég get náð að tengjast og fann reyndar út að ef ég horfði nógu stíft í augun á þessum svani þarna á borðinu þá næði ég ágætri tengingu.

Ég leit á borðið og sá þar forláta svan úr leir sem var með gyllta kórónu og gyllta hálsfesti og þessi undur bláu augu sem sannarlega voru seyðandi og lokkandi. Það eina sem ég skildi ekki var að það var ekki möguleiki á að horfa í bæði augun samtímis, en Dollý hafði örugglega fundið ráð við því.

– Fáðu þér sæti ljúfan mín og við skulum í sameiningu fara yfir það hvað kom út úr síðasta spádómi.

Það var ekki beint margt sem rættist, og við skulum ekkert vera að hengja okkur í því sem ekki gekk, heldur einblína á það sem gekk upp. Það má segja að þú hafir hitt naglann á höfuðið þegar þú sagðir að stóra krafan í samfélaginu væri krafan um nýjan landspítala. Það hefur sannarlega verið mál málanna en líkt og þú spáðir þá sér ekki fyrir endann á því núna í árslok.

Stjórnarandstaðan á þingi hefur verið einstaklega litlaus og leiðinleg og það sem þú sagðir um tuð en engar lausnir hefur klárlega gengið eftir. Fjármagnshöftin hafa ekki verið afnumin, en þó er eitthvað búið að gera í því að létta á þeim. Upplýsingar um fjármuni í skattaskjólum voru keyptar en ennþá hefur ekkert af neinu viti komið út úr því, a.m.k. ekki svo við vitum til. Og já, stjórnmálamenn unnu nokkur axarsköft sem flestum eru gleymd #IceHot.

Það er enn verið að segja sama brandarann á Bessastöðum; fer hann fram eða ekki, en Jón Gnarr hefur hins vegar lýst því yfir að hann ætli sér ekki þangað. Það hefur Davíð Oddsson ekki heldur gert, en frestur til að tilkynna framboð er ekki enn runninn út og það veit Ólafur Ragnar manna best.

Líkt og þú spáðir þá gekk handboltamönnum okkar ekki eins vel og oft áður en þú spáðir sannarlega rétt fyrir um karlalandsliðið í fótbolta. Þeir náðu frábærum árangri og þeir Lars og Heimir eru í það minnsta umtalaðir úti í hinum stóra heimi þó ég viti nú ekki hvort þeir hafi fengið mörg atvinnutilboð.

Ég man ekki eftir miklum skriðuföllum, en það voru mikil vatsflóð í Ólafsfirði á árinu og á Austfjörðunum núna undir lok ársins, það sást þú fyrir. Þá voru Norðlendingar ekki kátir með sumarið enda rigndi þar meira en í meðalári og sólskinsstundir hafa ekki verið færri í 33 ár.

Myndin hans Baltasars Kormáks um Everest vakti gríðarlega mikla athygli og var umdeild eins og þú sagðir og það hefur sjaldan verið meiri ófriður í heiminum frá síðari heimstyrjöld. Þá gengu allar einkaspárnar þínar upp, ef frá er skilin spáin um að ég verði 65 kg. í árslok – þar skaustu langt undir markið!

Þarna var ekki laust við að það kæmi smá glott á andlitið á Dollý, en á sama tíma muldraði hún, það var eitthvað að vera rangt.

2016

Nú er komið að því að spá fyrir um árið 2016. Hvernig leggst það í þig mín kæra?

– Mín kæra, hvað … hvur heldur þú eiginlega að þú sért!

Mér dauðbrá, því Dollý hafði sýnt mér bara talsverð elskulegheit á meðan við fórum yfir spá síðasta árs svo ég taldi að mér væri óhætt að sýna henni smávegis á móti.

Ég, ég er bara að reyna að fá spána fyrir árið 2016, annars er ég ekki neitt sko!

– Spáin kemur vertu bara ekkert að reka á eftir henni, þetta tekur tíma og ég þarf að ná að tengja mig í gegnum svaninn.

Dollý stóð upp, sótti kveikjara og kveikti á kerti sem hún setti inní lítið hús sem stóð við hliðina á svaninum.

– Mér finnst svo gott að sjá uppljómaða glugga, sagði hún um leið og hún lagði kveikjarann frá sér. Tók upp svaninn og starði í vinstra augað á honum.

Pólitíkin

Þetta verður töff ár, frekar mikið töff ár. Það verða gríðarleg átök um allt og ekki neitt. Það á við á svo mörgum sviðum. Ekki aðeins í stjórnmálunum heldur í samfélaginu almennt. Við erum að fara inní nýja bólu þar sem fjármunum er skipt svo mikið misjafnt milli manna að hinum venjulega Íslendingi mun blöskra. Íslendingar hafa lært að spyrna við fótum og það verður gert. Samfélagsmiðlar munu loga og heiftin verður þyngri en áður. Lögreglan mun hafa í ótalmörgu að snúast en þeir munu mæta meiri reiði en nokkru sinni og lendir lögreglan í þeirri undarlegu aðstöðu að vera bæði vanbúin og vanviljug að takast á við verkefnið sem mætir þeim.

En við munum líka verða vitni að óvenjulegri góðvild, það verður ekki einhver einn viðburður, heldur mikið frekar röð viðburða sem munu vekja þjóðina og kveikja í henni eldmóð sem verður samfélaginu öllu til góðs og verður umtalað út um veröld víða.

Alþingi og alþingismenn segja í orði að það verði að auka virðingu þingsins, en orð mega sín lítils gegn verkum þeirra og gjörðum og því miður mun virðing Alþingis ekki aukast næsta ár, nema síður sé. Þar verður beitt meira meirihlutaofbeldi en áður og umkvartanir minnihluta eru gagnslausar. Þetta verður til þess að vegur Pírata eykst enn og verða þeir komnir í sögulegar hæðir í fylgi undir lok ársins 2016.

Nýr landspítali

Það verður loksins gengið frá uppbyggingu nýs landspítala, sem mun rísa á lóðinni við Hringbraut. Framkvæmdir munu hefjast með haustinu og mun mikil blessun fylgja þeirri framkvæmd. Um leið verður framtíð flugvallar í Reykjavík tryggð þrátt fyrir mótmæli einhverra vegna þess.

Það mun gusta um Ríkisútvarpið og mun það fá á sig pólitískari stimpil en áður. Það fer illa í stjórnvöld sem munu gera hvað sem þau geta til að losa um spennuna en þær aðgerðir munu hafa þveröfug áhrif.

Nokkrar sveitarstjórnir munu taka breytingum á árinu, m.a. í einu frekar stóru sveitarfélagi í Norðvesturkjördæmi. Þar mun reyndar verða agalegt hneykslismál sem verður reynt að þagga niður með öllum tiltækum ráðum. Fjölmiðlarnir eru hins vegar þannig í dag, og samfélagsmiðlarnir, að það tekst ekki og mun þetta draga mikinn dilk á eftir sér.

Náttúran

Veður á Íslandi verður betra á árinu 2016 en undanfarin ár. Það verður slegið hitamet en einnig verður metúrkoma á árinu. Eins og svo oft áður þá er því misskipt hvar veðrið verður best en mér sýnist sem Suðurlandið muni hafa vinninginn í sólinni en því miður fyrir Vestfirðina þá mun rigning herja á þá og inná Norðvesturlandið megnið af sumrinu og inní veturinn.

Hekla minnir á sig á árinu, það verður ekki beðið lengur eftir henni en það verður fleira að gerast í iðrum jarðar og víðar en þar og ég er ekki frá því að menn fari að óttast Kötlu gömlu meira á árinu 2016 en síðustu tæp 100 ár. Eldstöðvarnar í kringum hana munu skjálfa og bólgna út en ég sé þó ekki fyrir víst hvort hún gjósi eða hvort hún hafi bara þurft að “prumpa” smá.

Furðulegir atburðir á hálendinu

Á hálendinu verður eitthvað undarlegt að gerast, það mun gróa á áður ógrónum svæðum, og auðn verða þar sem áður var gróðursæld. Menn kunna ekki skýringu á þessu aðra en þá að veðurfar sé að breytast og hlýnun jarðar hafi þessi áhrif. Ágangur innlendra og erlendra ferðamanna mun einnig hafa veruleg áhrif á náttúrufar á hálendinu og munu verða settar reglugerðir til að draga úr áhrifum vegna þess. Það er því miður of lítið og of seint.

Viðskipti

Viðskiptalíf mun standa í miklum blóma þrátt fyrir stöðugan barlóm þeirra sem mest þykjast eiga. Íslendingar eru þrátt fyrir allt vinnusamir upp til hópa og lifa ennþá á því að taka hlutina á hnefanum og þetta reddast allt á endanum. Það vakna upp ýmsar spurningar vegna þess að ástand viðskipta og hagnaður stærstu fyrirtækja verður farinn að minna ískyggilega mikið á árið 2007 en þó við teljum annað þá hefur landinn lært á hruninu og menn vilja ekki vakna upp á Kvíabryggju eftir fimm eða tíu ár. Það verður því örlítið meiri hógværð í þeim sem sanka til sín auðnum, en aðeins örlítið meiri hógværð. Menn munu halda áfram að maka krókinn sem mest þeir mega og láta svo nokkra brauðmola falla af hlaðborðinu sínu og halda þannig samfélaginu rólegu og fá blessun yfirvalda.

Fyrirtæki flytur úr landi

Stórt fyrirtæki mun flytja starfsemi sína úr landi og verður það til þess að stjórnvöld fara loksins að heimila fyrirtækjum í ákveðinni stærð að gera upp í erlendri mynt og starfsmenn slíkra fyrirtækja fara að fá launagreiðslur í öðru en íslenskum krónum. Þetta mun vekja upp mikla umræðu í samfélaginu og þó margir séu á móti þessu munu flestir renna öfundaraugum til starfsmannanna. Verkalýðsfélögin verða hins vegar alveg lens þegar kemur að kjarasamningum og munu þessir starfsmenn að mestu standa utan slíkra gjörninga.

Íþróttir

Hallelúja segi ég nú bara þegar íþróttirnar mæta í augað á svaninum mínum fagra. Það verður mikil og góð stemming á íþróttasviðinu á árinu 2016. Kvennalandsliðið í knattspyrnu tryggir sér farmiða á enn eitt stórmótið en strákarnir munu ekki ná sérstaklega góðum úrslitum á EM. Við sigrum hins vegar á pöllunum og áhorfendur verða dáðir fyrir dug og kjark og óbilandi stuðning við drengina okkar. Það verður gríðarlega góð og mikil stemming í Frakklandi og heimamenn munu taka fagnandi á móti Íslendingum, enda sömu litir í þjóðfánum landanna.

Á EM munu Þjóðverjar standa upp sem Evrópumeistarar eftir úrslitaleik við Ítali, sem komast í leikinn með ákaflega umdeildu og ógeðfelldu bellibragði sem minnir helst á hönd Guðs hér um árið.

Ný vonarstjarna í frjálsum

Aníta Hinriksdóttir mun ná ákaflega eftirtektarverðum árangri á hlaupabrautinni og það kemur fram mjög sterkur kastari, mér sýnist í kúlu- frekar en sleggjukasti. Hann á eftir að láta ljós sitt skína í mörg ár til viðbótar.

Handboltalandsliðið er komið í endurnýjun og mun ekki láta mikið á sér kræla á árinu, en körfuboltamennirnir okkar verða öflugir á árinu 2016 eins og þeir voru á árinu 2015.

Hneykslismál mun koma upp innan íþróttahreyfingarinnar og mun það skyggja á annars ágætan árangur íþróttafólksins okkar á árinu.

Útlönd

Það verður helvítis ófriður út um allt. En þjóðir heimsins munu þó koma sér saman um að ofbeldi eins og það sem hið svokallaða isis hefur haft í frammi verður ekki liðið. Það verða gerðar ítrekaðar tilraunir til að ganga milli bols og höfuðs á þeim samtökum. Því miður virðist þetta þó vera eins og ánamaðkur, þú klippir þetta kvikindi í sundur og færð tvo maðka í staðinn fyrir einn. Þessi flokkur dreifir sér um veröldina og lætur á sér kræla þar sem síst skyldi. Margir óttast að þeir verði til vandræða á meðan á EM stendur í Frakklandi en ég fæ ekki séð að af því verði.

Í norðanverðri Evrópu verður veður eins og það gerist verst – sýnist mér. Þetta gæti þó verið þveröfugt. Það eru a.m.k. einhverjar öfgar í veðrinu. Það hafa verið mikil flóð þar uppá síðkastið og það er aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal. Í Hollandi verður rætt um það að flóðvarnargarðar muni ekki duga til að halda stórum hluta landsins í byggð og einhverjir flutningar verða á fólki frá láglendi í hálendi, þó það muni ekki verða mjög áberandi. En það er uggur í fólki vegna þessa.

Forsetakosningar í BNA

Maðurinn með hárkolluna verður útnefndur frambjóðandi Repúblikana í Ameríku en Hillary Clinton fyrir Demókrata. Það verður mjótt á munum en ég er ekki frá því að spá mín um að hún verði forseti muni rætast. Hún hefur yfir sér þann sjarma sem þarf, en það verður fljótt að mást af henni þegar hún tekur við embætti. Það vantar í hana auðmýktina og virðingu fyrir skoðunum annarra. Ef hún nær að stjórna því þá á hún góða daga fyrir höndum í embætti, en því miður er það element hreinlega ekki til í henni.

Samtök riffileigenda í Bandaríkjunum hafa sig mikið í frammi á árinu en almenningur er búinn að fá nóg af stanslausum skotárásum á opinberum stöðum og það verða átök milli þessara hreyfinga. Byssulausir munu hafa betur en það verður eitthvað eitt atvik sem snýr almenningsálitinu mjög á sveif með þeim.

Frægir

Hneykslismál munu halda áfram að hrista uppí íþróttahreyfingunni og núna verður það Ólympíuhreyfingin sem verður til skoðunar. Einnig koma upp hneykslismál innan NBA sem Bandaríkjamenn munu missa sig yfir.

Í Hollywood er enn sama yfirborðsmennskan ráðandi og framleiðendur bíómynda horfa æ meira til Bretlands og Norðurlanda þegar kemur að gerð góðra kvikmynda. Það mun koma út mynd sem er að hluta til byggð á sönnum atburðum sem mun vekja gríðarlega mikla athygli, ekki síst vegna þess að í henni er ekki mikið af bellibrögðum beitt heldur er hún hrá og heiðarleg. En það er sú stefna sem er að ryðja sér til rúms. Leikarar munu þurfa að ganga í gegnum alvöru raunir og túlkun þeirra verður dásömuð í hástert um veröld víða.

Bieber og U2

Justin Bieber verður með eina tónleika hér á landi en aukatónleikarnir sem verður selt á verða felldir niður og það hreinlega verður allt vitlaust hér heima. Bieber verður úthrópaður sem svikari og dekurdýr og á Reykjavíkurflugvelli verður mikið fár þegar hann ætlar að koma sér af landi brott. Ungir íslenskir aðdáendur verða mjög ósáttir við framkomu hans.

Stórhljómsveitin U2 mun boða komu sína til landsins og margir fleiri heimsfrægir listamenn munu koma hingað til hvíldar og til að njóta þess að vera úti í náttúrunni. Því miður virðast þó íslenskir fjölmiðlar ekki átta sig á að þetta fólk þráir frið umfram allt annað og stétt papparassa vex mjög fiskur um hrygg.

Persónulegt

– Viltu ekki fá persónulega spá eins og í fyrra góan mín, spurði Dollý mig allt í einu

Ha, nei ég er góð alveg.

– Ég sé það nú alveg og vissi að þú myndir loksins sjá ljósið. Textinn sem er á veggnum þarna frammi er fyrir þig. Tókstu kannski ekki eftir honum?

Jú, ég sá hann alveg. En skil ekki. Er þetta þú að tala?

– Hvaða bévítans bull er þetta kona, auðvitað ekki. Þetta er tilvitnun í Kristínu Ómarsdóttur, þekkir þú hana ekki?

Nei, ég held ekki. Man ekki eftir því að hafa lesið neitt eftir hana. Hvaða bækur hefur hún skrifað annars?

– Heldur þú að ég sé einhver bókahilla. Ég hef ekki hugmynd um það. Meiri fjárans spurningarnar sem þú hefur alltaf.

– Jæja, góðan mín, ég held það sé best að þú farir að koma þér. Farðu nú vel með þig og njóttu lífsins.

Takk Dollý mín, sagði ég stóð upp og gerði mig ferðbúna.

– Hvurslags er þetta eiginlega, ætlar þú ekki að sitja hérna með mér og sötra kaffi?

Jú ég get það alveg sagði ég og settist niður með kaffibollann og hélt spjalli okkar Dollýjar áfram. Vonandi verður spáin ykkur góð elsku vinir. Njótið lífsins á árinu 2016.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu