Allir á völlinn
Í dag stendur íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu frammi fyrir einni af þeim þrautum sem fyrir liðið er lagt á leið þess í úrslitakeppni EM sem fram fer í Finnlandi sumarið 2009. Íslensku stelpurnar hafa sett markið hátt og hafa frá því þessi undankeppni hófst ekki legið á þeirri skoðun sinni að þær ætli sér í úrslitakeppnina, fyrst íslenskra A-landsliða í knattspyrnu.
Síðasta sumar var sett glæsilegt aðsóknarmet þegar Serbar komu í heimsókn í Laugardalinn. Nú er komið að því að slá það met þegar Slóvenar mæta í dalinn á laugardag kl. 14. Stúkurnar á Laugardalsvelli taka 9.800 manns í sæti. Þau sæti þurfum við að fylla ef við ætlum okkur að ná því takmarki sem stelpurnar og við öll höfum sett okkur. Þinnar nærveru óskað. Ekki láta þitt eftir liggja, taktu þátt í að láta íslenska drauminn rætast. Mættu á völlinn og stattu með stelpunum okkar á vegferð þeirra til Finnlands 2009. Áfram Ísland og allir með!
Grein birt í Velvakanda 21. júní 2008