Vefurinn Dollý.is er hugarfóstur Ingibjargar Hinriksdóttur sem lítur stundum á Dulfríði Jósefínu Hansdóttur sem sitt annað sjálf. Dollý þessi varð til á kvennakvöldi Breiðabliks 1996 og sló samstundis í gegn fyrir hispurslausa framkomu, orðsnilli og almenn skemmtilegheit.

Eins og svo margir taldi Dollý sig þess umkomna að spá um framtíðina árið 2006 og fyrsta áramótaspá hennar kom út fyrir áramótin 2007. Ekki verður tölu komið á hversu oft henni rataðist rétt til með spám sínum en hún hefur haldið ótrauð áfram með spádóma sína ár hvert frá þessum tíma. Kreppa, eldgos og persónulegt andstreymi hefur ekki dregið úr henni kraft, heldur hefur hún eflst við hverja raun og alltaf risið upp aftur þó mörgum hafi þótt nóg um á stundum.

Þrátt fyrir harkalegt yfirborð þá leynist í Dollý einstaklega mjúkt hjarta og engum vill hún eins vel og aumingjunum sem á vegi hennar verða. Hún kaus Besta flokkinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010 og er hatrammur fjandvinur annarra stjórnmálaflokka. Alla tíð hefur hún átt erfitt með að fóta sig í hinu pólitíska litrófi en margir þykjast sjá í henni framsóknarmann sem hagar seglum eftir vindi en fáir eru þó jafn fjandsamlegir Framsóknarflokknum og Dollý.

Dollý er þess fullviss að orð hennar séu lög og að fari menn að hennar ráðum muni heimurinn batna til mikilla muna. Hún á það þó til að sjá skrattann í hverju horni og er ákaflega vör um sig.

Trú sinni sannfæringu hefur hún nú færst það mikla verk í fang að opna sína eigin vefsíðu. Hún hefur séð það fyrir að vegna þess muni hún hljóta mikið lof og prís frá þjóðinni og er þess fullviss að innan fárra mánaða muni hún verða kjörin maður ársins á öllum helstu fjölmiðlum landsins.

Njótið visku hennar kæru lesendur – orðbragðið sem kann frá henni koma verður hver og einn að eiga við sjálfan sig. Ef þér líkar það ekki þá er númerið hjá vælubílnum 113.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu