Það var frekar þungt yfir Dollý þegar ég hitti hana á síðasta degi ársins 2018. Svipur hennar var þungur, augabrúnir niður undir höku og hendurnar krosslagðar yfir brjóstin.
„Viltu að ég komi seinna?“ spurði ég varfærnislega. „Nei, komdu inn“ sagði hún og var furðu blíð í málrómnum. „Er eitthvað að?“ spurði ég og tók af mér í forstofunni. „Æ, ég var bara að lesa bullið í mér frá í fyrra, þvílík þvæla. Það er ekkert orðið að marka þessa kristalskúlu. Ég verð bara að leggja spil, spá í bolla eða eitthvað. Kúlan mín er alveg tóm!“
„Þú vissir að Kraktá myndi gjósa,“ hughreysti ég hana. „Krakatá, þetta var ekki Krakatá, heldur litla barnið hennar, en það var samt ansi gott hjá mér,“ sagði hún og ég sá örlítið bros í augunum hennar.
„Svona komdu inn kona, fáum okkur einn áður en ég segi þér af árinu 2019.“ Áður en ég vissi af var 18 ára gamalt Glenlivet komið í lítið staup merkt Búdapest. Ég saup á og drykkurinn rann ljúflega niður. „Ahhhh, þetta er gott,“ sagði ég. „Auðvitað er þetta gott,“ hnussaði í Dollý, „þetta er uppahalds viskýið mitt!“
Áður en ég vissi af var Dollý búin að draga fram dularfull spil sem hún kallaði sígaunaspilin sín og lagði þau á borðið.
„Þetta verður frekar rólegt ár á Íslandi, svona heilt yfir. Klaustursmálið mun halda fjölmiðlunum uppteknum og hávær krafa verður um það að Sigmundur Davíð víki af þingi en hann fer hvergi. Það er seigt í honum og hann trúir aðeins því sem hann segir sjálfur. Engu öðru. Skrýtinn karl hann Simmi,“ sagði Dollý og hellti meira viskí í glösin okkar.
„Íslendingar eru óðir að vita hvort það verði meiriháttar eldgos á árinu en að þessu sinni sé ég það ekki, nei ég sé það ekki. Það verður eitthvað um jarðskjálfta og flóð munu valda skaða en ég sé ekkert eldgos á árinu. Það er dálítið skrýtið því Katla og Hekla hafa verið að kalla á mig til skiptis undanfarin ár, en núna láta þær mig alveg í friði. Þær eru kannski að safna kröftum – hver veit.
Það verða verkföll fyrri hluta árs og vinnudeilur verða ansi grimmar, en eins og alltaf þá næst einhverskonar sátt og sem felur í sér einhverjar reddingar í kringum húsnæðismál og lánamál. Kröfurnar í ár verða ógurlegar af hálfu verkalýðsforystunnar, það vilja allir meira og meira og meira. Samfélagið getur ekki staðið undir slíku og menn munu sjá að meðalhófið kemur öllum best.
Það verða samt einhverjar gríðarlega sterkar öfundarraddir vegna einhverra einstaklinga sem haf náð að skjóta undan aurum. Já víkingarnir okkar hafa bara tekið niður hornin og hjálminn en eru ennþá sömu persónurnar í jakkafötunum. Peningar er það eina sem þetta fólk sér. Það mun standa styr um einhverja konu sem hefur eignast peninga á undarlegan hátt, ég sé ekki alveg hvort þetta er smálánstarfsemi, kvótabrask, eða hreinn þjófnaður en hún verður milli tannanna á fólki hluta úr ári, en hverfur svo aftur í skuggann af manninum sínum eða æ, ég veit ekki. Það stígur einhver fram fyrir hana.
Spilin mín segja mér að það verði miklar breytingar á Íslandi í vetur, þjóðin mun eignast nýja auðlind sem enginn hefur séð fyrir, rafræn bylting, rafmynt, rafmagn. Það er a.m.k. mikill kraftur sem fylgir þessu. Þjóðin mun fagna og þykjast himinn höndum tekið vegna þessar breytinga en eins og alltaf þá göngum við fram af okkur og munum þegar árið 2020 gengur í garð sjá eftir auðlindum okkar hverfa af landi brott og við skiljum ekki neitt í neinu.
Við verðum að muna að biðja um það sem okkur langar til,“ sagði Dollý og horfði djúpt í augun á mér. „Allt þetta dót í kringum okkur sem við höfum ekkert með að gera. Allar gerviþarfirnar, við eigum að sleppa því. Hvað þarftu í raun og veru?“ spurði Dollý mig en þegar ég ætlaði að svar var hún horfin inní spiln á ný.
„Ríkisstjórnin stendur sig vel á árinu,“ sagði hún og neitaði að útskýra það betur.
„Veðrið verður dásamlegt á suðvestur hluta landins í sumar. Sólarstundir hafa aldrei verið fleiri. Þetta verður gott ár.“
„Þú átt eftir að gleðjast yfir íþróttasumrinu mín kæra vinkona,“ sagði Dollý við mig. „Það er alveg sama hversu oft ég spyr kraftarnir mínir segja mér að Breiðabliki eigi eftir að ganga virkilega vel í sumar, bæði strákarnir og stelpurnar.“ Hér gerði hún stutt hlé á máli sínu saup af glasinu sínu og lagði spilin að nýju. „Eigum við ekki að spyrja um Ameríku og Trump vitleysinginn?
Það eru nýir tímar í augnsýn í Ameríku. Bylgja kærleika mun ganga yfir þjóðina í kjölfar einhvers atburðar sem þjappar þjóðinni saman, rétt eins og gerðist 11. september. Virtur maður mun stíga fram, kannski er það Obama en mér finnst hann þó vera ljósari á hörund og klæddur búningi hermanns. Þjóðin mun þjappa sér að baki honum og skoðunum hans um mitt ár 2019 og skilja að ef Ameríka á að lifa af hörmungar þá þarf hún að standa saman. Síðari hluta árs verður þetta þó gleymt og þjóðin mun aftur standa jafn sundruðu og hún er nú um stundir. Sorg mun banka uppá í Hvíta húsinu og í kjölfarið koma gríðarlegt hneyklismál er varðar auðævi forsetans. Þetta verður rosalegt alveg hreint.
Í Englandi stendur Elísabet keik og Karl Bretaprins er frávita af bræði yfir því að vera ekki settur í hásætið sem hann þráir svo heitt. Liverpool verður Englandsmeistari í knattspyrnu og það verður hálfgerð þjóðhátið meðal stuðningsmanna liðsins hér á landi. Mikil gleði, enda ástæða til.
Margrét Danadrottning mun eiga erfitt ár og hún mun falla frá skyldum sínum sem drottning og Friðrik krónprins mun taka við skyldum hennar. Þetta verður ekki til að hjálpa geðheilsu frænda hans í Bretlandi, sem þráir ekkert heitar en verða kóngur.
Í Hollywood berjast þrjár myndir um að verða bestu myndir ársins 2019, María Skotadrottning, Hver drap Don Quitote og Hvert fórstu Bernadetta. Allt frábærlega gerðar myndir með bestu leikurum samtímans innanborðs. Leggið nöfn þessara kvikmynda á minnið.“
Dollý var aðeins farin að missa móðinn þegar hér var komið.
„En hvað með mig?“
„Hvað með þig,“ sagði Dollý, „hvað með þig? Þú verður bara á góðum stað. En líklega nærð þú að ljúka við að halda þessa brúðkaupsveislu sem þú ætlaðir að bjóða mér í á árinu, já og kannski gengur þér betur í golfinu, en ég leyfi mér nú samt að efast um það,“ muldraði Dollý ofaní glasið sitt. Otaði því að mér og heimtaði meira. Ég færði henni nokkra dropa enda lítið eftir í flöskunni.
„Þetta fer allt vel,“ sagði hún við mig. „Þetta fer allt vel ef þú horfir í ljósið en ekki myrkrið. Við erum öll mannleg og gerum mistök, við verðum að horfa framhjá mistökum okkar og misskilningi og sjá kærleikann sem býr innra með okkur öllum, þar á meðal okkur sjálfum. Frelsi okkar býr í því að sjá kærleikann að baki gjörðum okkar og aðstæðum. Þannig náum við saman árangri í lífinu.“
Hér sá ég augu vinkonu minnar ljúkast aftur og ákvað að þetta væri gott. Hún er sannarlega að gera sitt besta til að spá fyrir um framtíð okkar, en hver veit hvernig hún mun verða? Það veit ég klárlega ekki og sennilega ekki þú heldur.
Gleðilegt ár kæru vinir – gangið hægt um gleðinnar dyr og munið að horfa á björtu hliðarnar, kærleikann og ljósið.