Dollý spáir fyrir árinu 2017

Jólin, sem varla voru, höfðu þurrkast út aðfararnótt þriðja í jólum og birtan sem fylgdi snjónum hafði vikið fyrir sudda og myrkrið var óvenju þykkt. Ég hafði mælt mér mót við Dollý vinkonu mína. Ég viðurkenni að ég kveið því að fara út í regnið og hefði helst viljað vera heima undir teppi. En þegar maður mælir sér mót við hefðarkonur eins og Dulfríði Jósefínu, þá mætir maður!

Ég bankaði létt á dyrnar og hún mætti til dyranna glaðbeitt og hress. „Gakktu í bæinn elskan mín, gakktu í bæinn.“ Ég var ekki vön því að hún tæki svona innilega á móti mér og brosti til hennar, óskaði henni gleðilegra jóla og spurði hvort ég væri ekki á réttum tíma. „Gleðileg jól gullið mitt, jú þú ert sko á réttum tíma. Hvenær hefur þú komið of seint? Þú ert alltaf velkomin.“ Hún bauð mér inn í stofu sem var ríkulega og furðu smekklega skreytt. Já það var ljóst að jólaandinn hafði komið til vinkonu minnar fyrir þessi jól.

– Hvernig gekk mér í fyrra, spurði Dollý og ég var ekki frá því að sjá votta fyrir brosi í andliti hennar.

– Þér gekk bærilega held ég, sumarið var gott, íslenskir áhorfendur slógu í gegn í Frakklandi, fótboltastelpurnar fara á EM næsta sumar og það var óvenju mikið um að vera á hinu pólitíska sviði bæði á Alþingi og innan RUV.

– Já maður hittir alltaf á eitthvað, það kemur hreint ekki á óvart, sagði Dollý og kveikti á kertum á aðventukransi sem var á stofuborðinu. Eigum við ekki bara að snúa okkur að þessu?

– Jú það er í lagi, svaraði ég en var dálítið hissa að hún vildi ekki vita meira um spána 2016 eða vera ekki boðið neitt að drekka eða snæða á meðan á spánni stóð. Hún ætlaði sér greinilega ekki að sitja uppi með mig eins og í fyrra.

Stjórnmálin

Það verður meiri friður í stjórnmálunum núna en oft áður, en samt kraumar óánægja síðustu ára og áratuga undir niðri. Menn eru bara staðráðnir í að reyna að koma stjórnmálunum uppúr forinni sem hún hefur verið í undanfarið. Sigmundur Davíð mun fara mikinn fyrri hluta árs en þegar líður á, það mun fjara undan honum hægt og bítandi. Nokkrir fyrrum stuðningsmenn hans munu snúa við honum baki og þar munar mest um Gunnar Braga. Það verður til þess að Sigmundur mun segja sig frá þingflokki Framsóknar og vera sjálfstætt starfandi þingmaður það sem eftir lifir þessa þings.

Ný ríkisstjórn

Það verður mynduð ríkisstjórn strax í fyrstu viku ársins, ef hún verður þá ekki bara mynduð núna strax á næstu dögum. Hún verður skipuð þingmönnum frá Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð og mun Framsóknarflokkurinn standa með þessari ríkisstjórn ef á þarf að halda. Þeir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi munu bindast tryggðarböndum og þegar líður á árið mun Framsóknarflokkurinn koma inní ríkisstjórnina í stað Bjartrar framtíðar sem mun koma verulega löskuð út úr þessu samstarfi með þeim Engeyjarfrændum.

Vinstri hreyfingin, með Katrínu í broddi fylkingar, mun styrkjast eftir því sem líður á kjörtímabilið og við næstu kosningar, sem þó verða ekki fyrr en 2020, mun flokkurinn vinna sögulegan sigur. Það er falleg ára yfir þessari konu og hún mun ná af sér krakkasvipnum og stelputöktunum á næstu árum.

Samfylkingin þurrkast ekki út eins og allt útlit var fyrir, en hún verður þó aldrei á þeim stað sem hún var fyrir nokkrum árum. Nei sundurlyndið er of mikið á þeim bænum. Óánægjuraddir innan flokksins munu fara mikinn á árinu en nýi formaðurinn mun ná að lægja öldurnar og ná til baka þeim sem hafa verið að yfirgefa flokkinn á síðustu misserum. Það mun hins vegar vera á kostnað þeirra sem kennt hafa sig við Jóhönnu Sigurðardóttur. Það fólk mun fara mikinn og kljúfa sig frá flokknum með trukki og dýfu. Stofnaður verður nýr kvennalisti út úr þeim armi en hann mun fljótlega líða undir lok án þess að ná nokkrum árangri.

Húsnæðismál

Það verður gríðarlegur fjöldi íbúða byggður á árinu 2017, enda er þörfin mikil og að auki eru sveitarstjórnarkosningar árið 2018 og forráðamenn sveitarfélaga mikið í mun að draga til sín íbúa. Sveitarfélögin munu þó eiga í erfið leikum á árinu, rekstur þeirra verður í járnum og það er erfitt fyrir þau að mæta þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar varðandi laun og þjónustu. Það verður erfitt fyrir marga stjórnendur að halda í við sig á árinu því kosningar eru óþægilega nærri og sumar fjárhagsáætlanir verða ofur bjartsýnar.

Siðferði

Siðferði stjórnmálamanna verður í umræðunni á árinu 2017. Fjölmiðlar og samfélagsmiðlar veita þeim aðhald sem þeir þurfa sárlega á að halda og það sem einu sinni þótti sjálfsagt getur orðið þeirra pólitíski banabiti. Litlir fiskar og stórir munu verða miðlunum að bráð og ein kona mun berjast hatrammlega fyrir tilveru sinni innan stjórnmálanna en tapa. Ég sé ekki alveg hver það er en það mun koma á óvart að hún skuli vera flækt í jafn ljótt mál og raun ber vitni.

Náttúran

Náttúran verður jafn óútreiknanleg á árinu 2017 og hún var 2016. Það er enda von því mannfólkið hefur ekki beint verið almennilegt við náttúruna og það er bara eðlilegt að hún gjaldi líku líkt. Ágangur ferðamanna og iðnaðarins hefur vegið mjög að henni og það á ekki bara við um Ísland, heldur heiminn almennt. Ég skynja eitthvað mikið, gríðarmikið, meira en við óttumst, en ég er ekki viss hvort það verði á árinu 2017 eða kannski 2027 en náttúran mun minna á sig af meiri krafti en áður.

Válynd veður

Hér á Íslandi verða veður válind og hitinn og sólin sem yljuðu okkur sumarið 2016 verður aftur til staðar árið 2017. Öfgarnar eru meiri en áður og það verður líka kaldara en við höfum þekkt og það er helst frostaveturinn 1918 sem jafnast á við kuldann sem mun bíta okkur hér. Þessar öfgar munu veikja þjóðina og þó ég sjái ekki stórubólu eða svarta dauða þá nær fótfestu hér sjúkdómur sem verður illvígari en við höfum áður þekkt. Heilbrigðiskerfið okkar er vanbúið að takast á við það og það er ekki fyrr en þarna sem stjórnmálamenn okkar sjá  og koma sér saman um nauðsyn þess að styrkja og efla heilbrigðiskerfið, hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi.

Náttúruöflin á Íslandi eru öflug og ár munu brjóta sér leið um nýja farvegi á árinu 2017 auk þess sem skriðuföll munu valda nokkrum skaða. Ég spáði því í fyrra að Hekla myndi bæra á sér og ég hygg að hún eigi ekki langt í land með að gera usla.

Íþróttir

Árið 2016 var einstaklega gott íþróttaár og það verður erfitt fyrir árið 2017 að toppa það. Það verður þó gerð heiðarleg tilraun til þess bæði í Hollandi, þar sem kvennalandsliðið í fótbolta mun gera góða hluti á EM, og Finnlandi þar sem karlalandsliðið í körfubolta verða í eldlínunni. En það verða fleiri í eldlínunni. Ólafía Þórunn fer ekki vel af stað í LPGA mótaröðinni en henni mun vaxa ásmegin eftir því sem líður á og þegar upp er staðið verður hún sá kylfingur sem lengst hefur náð af öllum okkar kylfingum, árangur hennar á eftir að verða frábær. Í framhaldinu vex áhugi almennings á golfi mjög og verða flestir eða allir golfvellir landslins bókaðir frá morgni til kvölds.

FH mun bera höfuð og herðar yfir önnur félög í fótboltanum sumarið 2017 og hjá stelpunum mun KR gera tilkall til titils eftir mörg mögur ár. En Stjarnan og Breiðablik verjast þeim röndóttu fimlega og verður vesturbæingum ekki kápan úr því klæðinu.

Það verður gerð atlaga að formannsstóli KSÍ en ég sé ekki annað en að sami formaður muni sitja áfram. Það er ekkert lán yfir áru þess manns og hefði það verið betra að fá nýja og ferska forystu til að leiða sambandið á þessum tíma. Það er því miður þannig með íþróttaforystuna að hún er að mörgu leyti jafn gjörspillt og pólitíkin og það er erfitt að fella sitjandi formenn.

Í Englandi mun Manchester City standa uppi sem meistarar en systurfélag þeirra í Manchesterborg mun þurfa að sætta sig við lakasta árangur sinn í deildinni í langan tíma og komast þeir ekki í Evrópudeildina. Í framhaldinu verður „Hinn sérstaki“ látinn fara frá félaginu en hann mun taka með sér gríðarlega fjármuni og nokkra leikmenn sem höfðu ákvæði í samningi sínum að þeir mættu fylgja honum ef hann yfirgæfi félagið. Þetta mun kalla á gríðarleg viðbrögð og forystumenn félagsins verða fordæmdir víða um heim fyrir þetta. FIFA mun reyna að láta að sér kveða í þessu máli en The FA mun gera þá afturreka og krefjast þess að þeir skipti sér ekki af innanhússmálum í Englandi, föðurlandi knattspyrnunnar.

Martin Hermannsson

Það verður eitthvert hræðilegt slys í bardagaíþrótt á árinu, nú man ég ekkert hvað þetta heitir en það er skammstöfun. Íþróttamaður lætur lífið í hringnum og það verður til þess að menn fara að endurskoða allar reglur og reglugerðir í kringum þessa íþrótt. En mönnum finnst sumum gaman að sjá aðra slást og þær breytingar sem farið verður fram á að gerðar verði munu að engu verða. Hér heima á Íslandi kemur bakslag í þessa grein en hún vex að nýju þegar rykið sest og áður en árið er úti verða allir búnir að gleyma þessum ólánsama íþróttamanni sem lét lífið í búrinu.

Já og Martin Hermannsson verður kjörinn íþróttamaður ársins 2017.

Útlönd

Æ, það eru ósköpin öll að gerast úti í hinum stóra heimi. Sumt er svo hræðilegt að ég get hreinlega ekki horft á það í gegnum kúluna mína en annað er þess eðlis að ég get ekki og má ekki líta undan. Allir þessir flóttamenn frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum sem flæða í vesturátt í leit að betra lífi og öryggi fyrir afkomendur sína. Við megum ekki líta undan. Það er sjálfselska að taka ekki á móti þessu fólki. En stundum erum við svo sjálfselsk að við lokum á þá sem eru í neyð með allskyns útúrsnúningum og bjánalegum reglugerðum. Náungakærleikurinn er okkur í blóð borinn en með árunum máist hann af okkur en við verðum að ná honum til baka.

Flóttamannastraumurinn heldur áfram

Því miður verður ekkert lát á þessum straumi flóttamanna og hryðjuverkum í Evrópu mun fjölga jafnt og þétt. Óprúttnir aðilar, sem oft eru geðsjúkir einstaklingar, finna nýjar leiðir til að hræða líftóruna úr óbreyttum borgurum í hinum vestræna heimi og mun engin þjóð verða ósnortin af þeim hryllingi sem mun dynja á okkur. Hryðjuverkamennirnir halda að þeir séu að greiða fyrir móttöku landa sinna og vina í þessum löndum en í raun eru þeir að loka landamærum, loka á stuðning í orði og verki og á endanum mun krafan um að hart mæti hörðu ná yfirhöndinni. Það verður andskotans óáran og hryllingurinn verður alltaf meiri og meiri. Ég sé ekkert gott í þessu.

Hinn nýi forseti Bandaríkjanna, sem ég þorði hreinlega ekki að spá sigri í fyrra þó ég hafi ýjað að því, mun fara hamförum á fyrstu mánuðum sínum í starfi. En hann mun koma á óvart þegar frá líður. Hann mun ná að tala við menn sem aðrir hafa ekki geta rætt við og á það ekki síst við um Rússa, sem hafa hlaðið undir óöld í Sýrlandi, Úkraínu og víðar. Pútín finnst hann vera búinn að finna þarna mann sem hann hefur vitsmunalega getu yfir og þeir munu í sameiningu stuðla að meiri friði í heiminum en nokkurn óraði fyrir.

Góður þráður í öllu fólki

En margt sem Trump mun leggja til fer í allra fínustu taugar hinna réttsýnu og réttlátu í Evrópu, svo ekki sé nú minnst á demókratana í henni Ameríku. En tillögur hans munu að mörgu leyti verða til þess að sameina Bandarísku þjóðina að nýju og hann verður ekki eins umdeildur og fjölmiðlar hérna megin á hnettinum hafa talið okkur trú um að hann verði. Það er góður þráður í öllu fólki og hann finnur sinn þráð.

Norðurlöndin

Á Norðurlöndum munu nýnasistar vaða uppi og það mun slá í brýnu milli þeirra og stórs hóps innflytjenda og flóttamanna. Kröfur um að innflytjendahverfi verði leyst upp og brotin niður verða háværar, sem og kröfur um að þeir sem flytji til þessara landa aðlagi sig að þeirra siðum og hefðum. Þessar kröfur munu líka verða uppi hér á Íslandi og þjóðernishreyfingar í vestur Evrópu munu almennt auka fylgi sitt. Þær eru ófeimnar við að beita fyrir sig hræðsluáróðri og fordómum og slíkt nær oft fótfestu meðal hinna fáfróðu.

Frægir

Árið 2016 var hræðilegt ár fyrir fræga fólkið. Það kvaddi okkur í umvörpum og þótti mörgum nóg um. Átti þetta sérstaklega við um tónlistarfólkið okkar. En árið 2017 verður betra fyrir hljómlistamenn á meðan sviðslistamenn munu finna fyrir því og þeirra bestu synir og dætur munu hverfa á braut hver á fætur öðrum. Ég ætla ekki að segja þér hverjir munu kveðja, en þeir verða fleiri en nokkurn órar fyrir.

Einhverjum snillingum mun detta í hug að setja saman söngleik með lögum þeirra tónlistarmanna sem létust á árinu 2016 og mun söngleikurinn heita hinu frumlega nafni Goodbye 2016 (Goodbye twenty sixteen). Þar verða lög Prince, Choen, Bowie og Michael vera í öndvegi en líka lög eftir listamennina Glenn Frey, Paul Kantner og Maurice White.

– Hverjir eru það? datt út úr mér og Dollý leit upp og var augljóst að hún var ekki hrifin af þessari truflun.

– Hvað ertu, fimm ára? Þekkir þú ekki Glenn Frey úr Eagles? Paul Kantner úr Jefferson Airplain og Maurice White úr Earth, Wind and Fire?

– Jú ég kannast vel við þessar sveitir en ég vissi bara ekki að þessir menn hefðu spilað með þeim.

– Spilað með þeim, þetta voru aðalmennirnir. Þetta unga fólk, þetta unga fólk, hummaði Dollý og var ljóst að ég hafði alveg slegið hana út af laginu með þessari athugasemd minni.

– Viltu að ég haldi áfram eða ætlar þú að spjalla bara?

– Haltu áfram, endilega – fyrirgefðu þessa truflun, ég lofa að trufla ekki aftur.

Almennt

– Það er eins gott fyrir þig, hnussaði í Dollý um leið og hún reyndi aftur að ná tengingu við kúluna sína sem hafði dofnað mikið við truflunina.

Það verður einhver ófriður á vinnumarkaði eins og undanfarin ár. Launþegar finnast þeir vera hlunnfarnir af stjórnvöldum sem virðast hafa einstakt lag á að skara eld að eigin köku. Alþingi mun fá mikla gagnrýni og hafi fólki fundist það vera áhrifalaust áður þá nær sú skoðun hámarki á árinu 2017.

Ferðamenn

Ferðamönnum mun halda áfram að fjölga og samfara því verður meira um óhöpp og Íslendingum finnst stundum eins og þeir séu gestir í eigin landi. Það munu berast fréttir af eldra fólki sem verður að hverfa frá veitingastöðum því það skilur ekki þjónustufólkið. Þetta mun vekja mikla hneykslan í tæplega tvo sólarhringa en gleymast strax eftir það.

Vestmannaeyingar

Óhöppum á þjóvegum landsins mun halda áfram að fjölga og Vestmannaeyingar munu verða hreint snældubrjálaðir vegna samgönguleysis við eyjarnar. Forystusauðurinn þeirra fer mikinn og verður ýmist hafinn upp til skýanna eða hrópaður niður á samfélagsmiðlum. Honum mun ekki leiðast þessi athygli, piltinum þeim.

Árni Johnsen

Talandi um Eyjamenn, Árni Johnsen mun láta að sér kveða, gott ef hann verður ekki í forystu fyrir eitthvert verkefni og húsmæður í vesturbænum munu hreinlega missa vatn af heykslan yfir því að honum séu falin opinber fjárforráð. En hann mun gera vel að þessu sinni, hann er ágætur.

Útvarp Saga

Fólkið á útvarpi Sögu verður í eilífðarstríði við hina réttsýnu og réttlátu á samfélagsmiðlunum og munu kærumálin ganga á víxl. Það kemur ekkert út úr því annað en nýtt slanguryrði sem mun slá í gegn hjá landanum á árinu.

Forsetinn

Forsetinn okkar mun gera fjögur eftirtektarverð góðverk á árinu. Eitt á hverjum ársfjórðungi. Hann mun vaxa í áliti meðal flestra en allsstaðar má finna úrtölufólk sem þolir ekki þegar einhverjum einum gengur betur en öðrum.

Slitastjórnir föllnu bankanna

Fjármálamarkaðir verða þokkalega stöðugir á árinu en slitastjórnir bankanna verða áfram milli tannanna á fólki enda hafa þeir sem þar sitja ekki haldið aftur af sér við að skara eld að eigin köku. Það verður ekkert lát á því á árinu. Hins vegar mun uppgjöri bankanna ljúka og slitastjórnirnar verða komnar með allt sitt á þurrt á einhverjum eyjaklasanum úti fyrir Afríku.

Þitt er valið

Árið 2017 verður gott ár, sagði Dollý og leit upp frá kristalskúlunni sinni, fyrir flesta. En ég sé líka skugga víða og þeir munu ná inní áruna hjá nokkrum í nærumhverfi þínu.

Hún horfir í augun á mér, djúpt í augun á mér. Skuggar eru allsstaðar þar sem er ljós. Það er bara spurning í hvaða átt þú snýrð hvort þú sérð ljósið eða skuggann. Þitt er valið.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu