Dollý spáir fyrir árinu 2015

Myrkrið hefur sjaldan eða aldrei verið eins þykkt og þetta kvöld þegar ég fór í heimsókn til Dollýjar vinkonu minnar. Hún býr ekki langt frá mér og ég ætlaði að ganga en gríðarleg hálka kom í veg fyrir það þannig að ég keyrði þessa 800 metra.

Hún stóð í gættinni og átti greinilega von á mér. “Komstu keyrandi? Ertu hætt þessari heilsubótarvitleysu sem þú varst í þegar þú komst til mín í fyrra?” Ég fékk ekki tækifæri til að svara þessu því hún hafði snúið sér við og muldraði “ég vissi að þetta myndi ekki endast hjá henni!”

“Má bjóða þér kaffi væna?”
“Ha, nei takk, ég þoli ekki kaffi svona seint á kvöldin, þá sef ég ekki,” svaraði ég “en ég myndi þiggja hjá þér einn bjór ef þú átt hann?”
“Hvað er þetta kona, heldur þú að ég reki hérna vínbúð? Ef þú vilt ekki kaffi þá get ég boðið þér vatnsglas,” sagði hún og var greinilega eitthvað pirruð.
Ég þáði vatnsglasið og beið eftir því að hún myndi skella einhverju sterku í glas fyrir sjálfa sig en mér að óvörum hellti hún bara kaffi í bolla fyrir sig og spurði. “Hvernig gekk mér í fyrra?”

Spáin 2014

Spáin 2014 gekk að mörgu leyti óvenju vel. Árið var mjög pólitískt og pólitíkin varð persónuleg og harðskeytt. Athugasemdakynslóðin fór hamförum á vefmiðlum. Píratar náðu inn manni í Reykjavík en ólíkt því sem þú spáðir þá voru teknir þeir inní meirihlutann með Bjartri framtíð og Samfylkingu.

– Huhh… þeir þurftu ekkert á því að halda,” frussaði Dollý.

– Nei, það er reyndar rétt, en kjörsókn var sú allra minnsta frá upphafi og traustið á stjórnmálamönnum hefur aldrei verið minna. Í Kópavogi gekk það ekki eftir sem þú spáðir fyrir Ármanni Kr. Hann er ennþá bæjarstjóri og íþróttakarlinn náði ekki árangri. En Guðríður varð formaður framhaldsskólakennaranna og veðrið var að einhverju leyti hagstæðara, það var hlýrra en mun votviðrasamara en við eigum að venjast. Og þú spáðir rétt fyrir um það að það urðu tveir einstaklingar úti á árinu.

Svo hittir þú naglann alveg á höfuðið því Katla haggaðist ekki og það urðu hamfarir á stað sem menn áttu ekki von á og vísindamenn eru sannarlega að átta sig á að náttúran er öll ein heild.

Ég sá að Dollý varð kát við þessar fréttir en það hvarf fljótlega þegar ég benti henni á að hún hefði ekki alltaf rétt fyrir sér.

– George Clooney gekk í hjónaband á árinu með fjallmyndarlegri konu en ekki karli eins og þú hafðir spáð, en ekki kom mikið frá Juliu Roberts á árinu. En það komu sannarlega margir erlendir leikstjórar hingað og gerðu myndir í íslenskri náttúru. Baltasar gerir það gott í Hollywood og Benedikt vann til margra verðlauna fyrir myndina Hross í oss á árinu.

Fjármálasnillingarnir okkar hafa sumir mátt eyða einhverjum nóttum á Kvíabryggju. Ekki veit ég til þess að þar hafi verið haldin námskeið í fjármálalæsi, en það má vel vera. Menn eru alltaf að hneykslast út í dómstólana og Jón Steinar hefur farið mikinn, en aldrei þessu vant hefur það ekki verið blásið upp. Umferðarslys hafa aldrei verið færri og löggjöf gagnvart ölvunar- og hraðaakstri var hert.

Hún var farin að brosa á ný og ég mátti til með að segja henni að hún hafi spáð nokkuð vel fyrir mér, að ég myndi ganga í gegnum mikla hreinsun og þó mér hafi fundist að ég hafi ekki alltaf uppskorið eins og ég hafi sáð þá hef ég fundið frið í sálinni og gæfan hefur að mörgu leyti verið mér hliðholl. Þá hafa nýjar áskoranir hafa blasað við mér, það var sannarlega rétt hjá henni.

Þarna tók hún í höndina á mér, strauk mér um vangann og sagði ofurblítt

– Við skulum skála fyrir þessu elskan mín,” ég greip í vatnsglasið mitt en var heppin að missa það ekki úr höndunum þegar hún sló til mín og sagði “ekki í vatni kjáninn þinn, við fáum okkur alvöru drykk til að skála í!”

Hún stökk á fætur, opnaði skáp sem var læstur með hengilás og út úr honum dró hún flösku af Grand Mariner og tvö staup.

– Skítt með þetta bindindi, nú er sko ástæða til að skála!

Spáin fyrir árið 2015

Strax eftir fyrsta sopa hallaði hún aftur augunum og spurði:

– Eigum við ekki að byrja mín kæra?

Ég samþykkti það og setti upptökuna af stað í símanum mínum. Hallaði mér aftur og hlustaði.

Árið 2015 verður erfitt að mörgu leyti, því miður. Það munu margir eiga um sárt að binda, efnahagur fólks hér heima fer stöðugt versnandi og það er eins og stjórnvöld sjái ekki þá eymd sem í raun og veru á sér hér stað. Gríðarlega margir reiða sig á aðstoð ættingja, vina og góðgerðarsamtaka og okkur munu berast fréttir af fólki bæði innflytjendum og innfæddum sem líða hreinlega skort, eins og það sem við höfum hingað til talið aðeins vera í útlöndum. Já, það er ekki forgangsraðað rétt á Íslandi þessa dagana og hefur ekki verið í alltof mörg ár.

Ég sé það ekki í kúlunni minni að það muni breytast mikið á næstu árum, en smátt og smátt fer almenningur að átta sig á þessu og fer að gera kröfu um úrbætur, alvöru úrbætur, ekki sömu loftbóluna og okkur hefur verið boðið uppá.

Stóra krafan er um nýjan landspítala og bætt kjör fyrir lækna, þannig að við höldum þeim hér heima. Það gengur þó ekki eftir og eftir að lög verða sett á verkfall þeirra verða fjöldauppsagnir í læknastétt í janúar, margir munu flytja úr landi og koma ekki aftur næstu árin. Það verða fjöldamótmæli vegna þessa en fólk nær ekki samstöðu hvort það eigi að stilla sér upp fyrir utan landspítalann, utan við fjármálaráðuneytið eða hjá velferðarráðherranum. Þetta dregur dálítið úr styrk mótmælendanna og ráðamenn munu ekki hlusta, benda bara á að það sé búið að samþykkja fjárlög og þeim megi ekki breyta.

Það mun hins vegar ekki sitja í þeim að breyta fjárlögum þegar kemur að stórvirkjunum, sem fara á fullan skrið á árinu, og eins mun vera ráðist í umfangsmiklar breytingar á vegakerfinu, ekki aðeins göng heldur verða þveraður fjörður sem engum datt í hug að gæti verið þveraður. Mest af þessu á sér stað í kjördæmi helstu ráðamanna þjóðarinnar. Þeir skara eldinn þessar elskur. Skara eldinn.

Hér bætti Dollý í glasið sitt en ég sá að hún var í stuði þannig að ég bað ekki um ábót.

Stjórnmálamenn reyna að bæta sig

– Stjórnmálamennirnir okkar munu reyna að bæta sig, þeir mega eiga það. En því miður er erfitt að eiga við gamla hunda og þeir koma til með að gera nokkur axarsköft sem verða flestum gleymd um næstu áramót. Hanna Birna hættir á þingi og snýr sér að öðru sem er utan sviðsljóssins. Það kemur fram ný vonarstjarna hjá Sjálfstæðisflokknum, kona sem hefur verið framarlega í flokki í sveitarstjórnum um eitthvert skeið og menn trúa því að þarna sé loksins komin kona sem karlarnir í sama flokki geta sætt sig við. En hún fer ekki á þing heldur gerir sig gildandi á landsfundi þeirra og fær nokkra upphefð.
Ólöf Norðdal er enn of veikburða og hættir sem ráðherra þannig að Bjarni Ben neyðist til að setja Ragnheiði Ríkharðsdóttur í ráðuneytið, þvert gegn sínum eigin vilja. Hann veit sem er að ef Ragnheiður fær ekki ráðherrasætið þá segir hún skilið við flokkinn.

Þá kemur í ljós að það er ekki sami friður innan Framsóknar og þeir halda sjálfir fram. Vigdís Hauksdóttir mun leggja stein í götu Sigrúnar Magnúsdóttur sem tók við ráðherraembætti um áramótin. Auðvitað segir Vigdís að það hafi verið alveg óvart, en því trúir ekki nokkur maður.

Ófriður í Framsókn

Þá eru einhverjir framsóknarmenn afar ósáttir við það að allt skuli gert fyrir eitt kjördæmi umfram annað og framsóknarmenn í Reykjavík munu heldur betur láta til sín taka þegar forsætisráðherra leggur til flutning Íbúðalánasjóðs til Húsavíkur um mitt ár. Sveinbjörg Birna og Guðfinna munu ekki koma vel út á árinu og það er eins og það sé ekkert taumhald á þessum konum. Þær halda áfram að hneyksla og hálfpartinn hræða Reykvíkinga. Þær eru þó sakleysingjar greyin og gera sér enga grein fyrir því að orð hafa afleiðingar.

Annars verður pólitíkin á árinu með undarlegasta móti. Það eru einhvernvegin allir ósáttir við svo ótrúlega margt, en það er eins og menn geti ekki komið með tillögur að einhverju betra. Dýpsta samstaðan verður um nauðsyn þess að byggja nýjan landspítala, en það verður þó ekki tekið af skarið í því efni á árinu 2015, enda of langt til kosninga.

Skuldaleiðréttingin fer algjörlega út um þúfur og fólk mun hrista hausinn yfir því öllu saman. Fólk segir að það hafi verið blekkt enda mun aðeins eitt fyrirtæki fitna á leiðréttingunni. En Íslendingar eru farnir að sætta sig við það að vera hafðir að fíflum þegar kemur að stjórnmálunum og þetta mun líða hljóðlega hjá eins og svo margt annað.

Áfall á Alþingi

Stjórnarandstaðan á þingi verður ótrúlega litlaus og leiðinleg. Menn tuða og röfla yfir öllu en koma ekki með tillögur að betri lausnum. Það er eins og stjórnmálamenn þori ekki að sýna spilin af því þeir eru svo hræddir við að tapa slagnum. Það vilja allir feta í fótspor Besta flokksins sem sýndi öll spilin á hendinni, líka jókerana, og viðurkenndi að flokksmenn vissu ekki öll svörin. Stjórnmálamenn í öllum flokkum vantar þessa auðmýkt sem var svo skýr hjá Jóni Gnarr en mér sýnist að þeir hafi vilja til að læra en ekki kjark til að framkvæma.

Alþingi verður fyrir einhverskonar áfalli á árinu 2015. Ég sé ekki alveg hvað það er, en það er svart ský yfir Alþingishúsinu og fyrir utan stendur fólkið dálítið undrandi og hissa, já og sorgmætt. Það er sorg yfir húsinu og fólkinu. En í fjarskanum sé ég ljós, þetta verður verra áður en það lagast og það gerist líklega ekki fyrr en á árinu 2016 eða 2017.

Fjármagnshöftin verða ekki afnumin á árinu en það verður þó sífellt þyngri krafan um það og undir lok árs mun stjórnin leggja fram tillögu um það hvernig það skuli gert. Ráðamenn verða gagnrýndir mjög fyrir það enda verður slíkt til þess að þeir sem eiga fjármuni í erlendum krónum geta skipulagt það hvenær best er fyrir þá að losa sig við aurinn og fá íslenskrar krónur í staðinn og hvenær ekki. Þeir sem græða verða þessir fáu en þjóðin mun blæða.

Upplýsingar um fjármuni í skattaskjólum verða keyptar en því miður er það of seint því þetta ferli hefur tekið alltof langan tíma og þeir sem þarna áttu aura í skjóli eru búnir að koma þeim á aðra staði.

Gnarr og Davíð í forsetaframboð

Jón Gnarr tilkynnir að hann ætli sér í forsetaframboð seinni hluta ársins og við það verður eins og jákvæð bylgja flæði yfir landið. En gömlu valdaherrarnir gera allt sem þeir geta til að finna arftaka Ólafs Ragnars og gömlu klíkunnar. Það eina sem kemur uppúr þeim hatti er Davíð Oddsson. Það verður hatrömm barátta á milli þessara tveggja brandarakarla en ég mun ekki segja ykkur fyrr en í næstu spá hvor þeirra verður húsbóndi á Bessastöðum árið 2016.

Íþróttir

Strákarnir okkar fara sneypuför til Katar. Aldrei mun handboltalandsliðið hafa fengið jafn slæma útreið og þeir fá í janúar. Hins vegar mun kattspyrnulandslið karla ná eftirtektarverðum árangri og í kjölfarið verða þjálfararnir mjög eftirsóttir meðal félags- og landsliða út um allan heim. Íslenskir þjálfarar erlendis, bæði í handknattleik og knattspyrnu, munu vekja eftirtekt og ná stórkostleum árangri með sínum liðum.

Ár íþróttakvenna

En árið 2015 verður ár íþróttakvenna. Þar verður mesti og besti árangurinn og það verður kona kosin íþróttamaður ársins 2015. Það er við hæfi enda munu þeir sem þar ráða verða fyrir mikilli gagnrýni í upphafi ársins fyrir það hversu fáar konur komast á lista hjá þeim. Í kjölfarið verður gerð krafa um að kosin verði íþróttakona og íþróttakarl ársins, en það verður ekki tekið í mál.

Heimsmeistaramótið íslenska hestsins fer fram í Danmörku á árinu og hefur aldrei verið meiri glæsibragur yfir mótinu en nú. Íslendingar ná góðum árangri og þar fer fremstur Jóhann Skúlason á frábærum gæðingi sem mér sýnist heita Þokki, Hnokki eða Skokki. Það verður slæmt að missa svona mikinn gæðing úr landi en í anda græðgisvæðingarinnar þá verður hann seldur af landi brott fyrir metfé og verður til gagns í Danmörku eða Þýskalandi í framtíðinni.

Fimleikar verða hátt skrifaðar á árinu, hærra en nokkru sinni, og það kemur fram ungur einstaklingur sem er einstaklega hæfileikaríkur á því sviði.

Íslendingar munu endurheimta titilinn sterkasti maður heims en sá mun síðar falla í ónáð enda hefur hann ekki alveg hreint mjöl í pokahorninu sínu.

Náttúran

Náttúran verður blíð við okkur á árinu 2015. En það munu eiga sér stað atburðir sem skráðir verða í sögubækur jarðfræðinga. Ég sé ekki endilega mikil eldsumbrot. Það heldur áfram að gjósa í Holuhrauni eitthvað fram á árið og þegar frá líður mun það gos verða jarðfræðingum gríðarlega mikill lærdómur. En það styttist í stóran viðburð, mér sýnist að hann verði ekki á árinu 2015 en ég er ekki frá því að Hekla fari að hrista sig aðeins. Það gæti þó frestast til ársins 2016.

Það verða skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð. Líklega þau mestu sem orðið hafa um langt árabil. Það verða skemmdir á fasteignum og manngerðum hlutum en sem betur fer sýnist mér að ekki verði manntjón í þessum áföllum. Við verðum að fara að umgangast náttúruna af meiri virðingu.

Sátt um náttúrupassann

Það verður sátt um náttúrupassann því menn fara að sjá að hann verður til þess að við náum að vernda náttúruna af meiri krafti og virðingu en við höfum gert hingað til. Það verða auðvitað einhverjir sem munu mótmæla þessari aðgerð og sérstaklega munu ferðaþjónustuaðilar kvarta, en þeir verða sjálfir að gera hreint fyrir sínum dyrum og fara að gjalda keisaranum það sem keisarans er. Það sama á auðvitað við um sægreifana, en ég er eiginlega orðin þreytt á að tala um það og ég sé hreinlega enga breytingu á þeirri stefnu í kúlunni minni.

Sumarið verður milt, vott en milt. Það mun dálítið þyngjast brúnin á sunnlendingum en norðlendingar verða hreinlega magnþrota eftir einhvern mesta snjóavetur í manna minnum þá mun rigna meira en nokkru sinni þar um slóðir. En elsku vinir munið að það kemur alltaf sólskin eftir regnið, ekki örvænta, þetta verður betra eftir nokkur ár.

Hér fer Dollý að raula lagið hennar Önnu Linnet, Tusind stykker.

Man siger at over skyerne er himelen altid blå.
Det kan være svært at forstå når man ikk’ kan se den.
Og man sir’ at efter stormens pisken, kommer solen frem.
Men det hjælper sjældent dem der er blevet våde.

Já svona er þetta nú elskan mín.

Menning og listir

Íslendingar hafa oft náð að vinna úr sínum vandamálum með því að nýta reiðina, vonbrigðin og leiðann til að skapa. Á því verður engin breyting á árinu 2015. Það koma fram margir ungir og efnilegir listamenn á árinu sem vekja mikla athygli hér heima og erlendis. Fatahönnuður nær að koma vöru sinni á alþjóðlegan markað og verður ráðin til stórs og virts tískuhúss á Ítalíu.

Fleiri hönnuðir munu láta að sér kveða og margir þeirra munu verða virtir og dáðir í Evrópu en enn á ný mun heimóttarskapurinn í Íslendingum koma í veg fyrir að þeir verði spámenn í eigin föðurlandi.

Framleiðsla íslenskra kvikmynda heldur áfram og þar verður meira af magni en gæðum. Ein mynd mun þó vekja gríðarlega mikla athygli enda snertir hún á viðkvæma strengi í þjóðfélaginu og mun vekja fólk til umhugsunar um siðferðisvitund og samfélagið sem við búum í.

SamSam slær í gegn

Hljómsveitir halda áfram að spretta upp og við munum sjá gríðarlega mikið af frábærum ungum hljómsveitum í Músíktilraunum. Hljómsveit úr Þorlákshöfn mun sigra árið 2015 og mun gæta áhrifa Ásgeirs Trausta og Jónasar Sig í tónlist þeirra. Mér sýnist að það verði ekki færri en 5 í hljómsveitinni og einhverjir þeirra blása í lúðra.

SamSam mun slá í gegn með sumarsmelli á árinu 2015 sem heitir “Saman við getum allt”. Þetta verður ansi hreint skemmtilegt lag og mun koma sér þægilega fyrir á milli eyrna landans og ná hámarki um Verslunarmannahelgina.

Útlönd

Heimur versnandi fer, segi ég nú bara. Ekki hefur verið meiri ófriður í heiminum frá síðari heimsstyrjöld. Rússar halda áfram að gera Vesturveldunum lífið leitt en sem betur fer er ennþá eitthvað eftir af skynsemi vestur í Bandaríkjunum og það verður aðeins fyrir þeirra orð sem ekki sker í brýnu á milli þessara þjóða. Japanir og Tyrkir munu fara mikinn og í Slóvakíu, frekar en Slóveníu, verða mikil undur og stórmerki sem munu vekja athygli umheimsins svo um munar.

Fjármálamarkaðir verða óvenju stöðugir á árinu og við munum sjá að enn og aftur fer hagkerfi heimsins að blása í bólu. Sem betur fer hafa ekki allir gleymt fjármálakreppunni 2008 og það verður samstaða um það að draga úr útgjöldum til þess að ekki komi til sömu vandræða og þá. En það verða þó margir sem vilja græða meira og meira og það verður erfitt að koma böndum á þá einstaklinga. Menn beita öllum brögðum sem til eru í bókinni til að afla meira fjár sem þeir hafa ekkert við að gera og það á við um alla út um allan heim, hér á Íslandi líka.

Sumarsmellur ársins kemur frá Englandi að þessu sinni. Árið 2014 voru það lögin Happy og All about that Bass, en árið 2015 verða lögin tengd friði og samstöðu, Let’s pull ourself together og We neet each other verða líklega titlarnir á lögunum en seinna lagið verður endurgerð af Bítlalaginu With a little help from my friend sem Joe Cocker heitinn sló svo eftirminnilega í gegn með.

Frægir

Hver er frægur og hver er ekki frægur? Það er stundum sagt í henni Ameríku að þegar menn komast í sjónvarpið fái menn sínar 15 mínútur af frægð. Það verður nóg af slíku fólki í Ameríku á árinu 2015 og ekki bara það, það verður talsvert um það á Íslandi líka. Menn telja að með því að komast í fréttir, þó ekki sé nema um stundarsakir, þá hafi menn náð frægð. Eitt slíkt tilvik kemur upp hér á landi þar sem kona mun brjóta af sér til þess að komast í fréttir og í framhaldinu fer af stað ótrúleg flétta sem verður gríðarlega mikið fréttaefni um einnar viku skeið.

En það komast hins vegar aðrir í fréttirnar vegna góðra verka og menn munu sameinast um að þessir aðilar verði hetjur ársins og menn ársins. Þessir menn munu vinna hetjudáð sem eftir verður munað og skráð verður í sögubækur.

Hér dregur Dollý loksins andann og virðist vera búin með spána þannig að ég tek áhættu á að nefna það að ég hafi boðið vinum mínum á FB að koma með spurningar til hennar. Það kemur mér á óvart að hún tekur því bara vel og biður mig um að koma með spurningarna.

Spurningar

Fjóla Þorvaldsdóttir spurði: Fáum við kauphækkun á árinu, hvernig mun HK muni í handbolta og ÍA í fótboltanum. Hvenær hættir eldgosið og mun Katla fara að gjósa?

Launahækkanir verða í samræmi við kjarasamninga. HK fellur ekki en verður ekki heldur meistari. ÍA nær ekki fyrri frægð í fótboltanum. Eldgosið hættir í vor og Katla gýs ekki.

Kristín Sævarsdóttir spurði: Hvenær verður næsta bylting við Alþingi og verður fólk ánægt með skuldaleiðréttinguna. Hvernig gengur Blikunum og hvað verður Ingibjörg þung í lok árs.

Svörin hafa þegar komið fram hér að framan. Það verður ekki bylting við Alþingi á árinu 2015 og fólk verður ekki sérlega ánægt með skuldaleiðréttinguna en telur sig ekki hafa hag af því að hafa sig í frammi vegna þess. Blikunum gengur bærilega, strákarnir verða um miðja deild en stelpurnar vinna titil. Ég sé ekki hvort það er Íslandsmeistaratitill eða bikar, en það kemur titill í hús. Ingibjörg verður 65 kílógrömm í lok árs.

Elín Freyja vill fá einkaspá :

Þér mun ganga margt í haginn á árinu 2015. Strákarnir þínir slá í gegn og landsliðið tekur mikinn tíma. ÍR vinnur ekki til stórra afreka, en engu að síður verður árangurinn ásættanlegur. Þú færð launahækkun og ekki bara það stöðuhækkun bíður þín. Svo munt þú efna til mikillar veislu þegar líður á sumarið og ég fæ ekki betur séð en að dönskukennarinn þinn flytji þér óð á móðurmáli sínu.

Hér sá ég að hún var orðin ansi lúin þessi elska. Það var langt gengið í Grand Mariner flöskuna og ég sá að augnlok hennar voru farin að þyngjast. Ég spurði hana því hvort einhverjar fréttir væru af mér í kristalskúlunni hennar.

Hvað með mig?

– Já elskan mín, það eru tíðindi af þér í kúlunni minni. Þetta fer allt vel. Hafðu trú og hafðu traust á því að það sem gerist er rétt og meðan þú brýtur ekki gegn þinni eigin sannfæringu og samvisku þá mun þér vegna vel. Þú finnur sátt og lærdómur ársins 2014 mun á endanum skila sér til þín. Hreinsaðu hugann, líttu jákvæðum augum til framtíðar og vertu bjartsýn, það er ekki ástæða til annars.

Já og mundu að þeir sem standa þér næst eru þínir bestu vinir.  Þeir sem hafa staðið þér næst og sýnt þér stuðning á árinu munu líka uppskera fyrir góðvild sína, ekki aðeins tilraunaeldhús hjá þér, heldur verður þeim launað á æðsta degi. Það er nefnilega þannig að menn uppskera eins og þeir sá.

Ástin er ekki fjarri okkur öllum. Það þarf að hafa kærleik í hjartanu og huganum til að hún finni okkur og það þarf að taka áhættu í lífinu. Öðruvísi gerist ekkert. Segir ekki vinur þinn að það sem einum finnst púkó finnst öðrum kannski flott? Þannig er lífið mín kæra. Það sem einum finnst púkó þykir öðrum kannski flott. Af hverju heldur þú að George Clooney hafi gengið út í fyrra? Loksins fann hann konu sem fannst hann flottur og hann tók  áhættu. Se la vie mon ami.

Svo slökknaði á henni – já svona er lífið elskurnar.

Eigið dásamlegt ár – megi það verða ykkur gjöfult og gott. Gleðilegt ár 2015 og takk fyrir lesturinn.  Om Shanti.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu