Ástin mín – Ella
Ég dýrka þig og dái, og eina þig þrái
minn draumur hann rætist með þér.
Mín ósk hún er sú, að ævinni fái
að eyða í faðmi þér.
9. október 2015
Kossasjúkar kellingar
kyssast út í eitt.
Hafa fínar fellingar
og finnst það frekar leitt.
9. desember 2015
Ég fer með þér í ferðalag
um allskyns furðu heima.
Ég óttast ekki um okkar hag
því þú ert ást mín eina.
22. janúar 2016
Þú ert líf mitt og ljós
loginn sem inní mér brann.
Þú ert happ mitt og hrós
hamingju í þér ég fann.
17. mars 2016
Í faðmi þínum finnst mér gott að vera
og falleg eru bláu augun þín.
Ég vildi með þér hálfan heiminn þvera
því hjarta þitt er fullt af ást til mín.
6. apríl 2016
Í Búdapest þá höldum við heim
himnarnir gráta fögrum tárum.
En við erum glaðar, já langt út í geim
og minningar geymum að liðnum árum.
24. apríl 2016
Ég elska þig af öllu mínu hjarta
og ást mín hún er aðeins ætluð þér.
Með þér vil ég búa framtíð bjarta
en bar’ef þú vilt eyð’enni með mér
og blessa þetta samband okkar hér.
14. júlí 2016