Dollý spáir fyrir árinu 2008

Dollý hafði greinilega ekki haft sig neitt sérstaklega til fyrir heimsókn mína um daginn. Hún sat við eldhúsgluggann hjá sér með kaffi í fallegum postulínsbolla en engin undirskál. Hún bauð mér kaffi og með því, sem ég þáði en sá samstundis eftir því þar sem hún sótti kaffið í stóran pott með ausu. „Með því” var ekki smákökur heldur rótsterkt koníak, hún setti góðan slurk í kaffið mitt.

„Þetta var gott ár í ár”, sagði vinkona mín og brosti. Brosið náði til augnanna og ég sá að hún var sannarlega sátt. „Ég eignaðist nýja vini og mínir persónulegu hagir voru góðir á árinu, en ég hef samt stundum spáð betur en ég gerði í fyrra” sagði hún og brosið hvarf snögglega af andliti hennar.

„Ég var samt sátt við það sem gekk eftir, sérstaklega þetta með umferðarslysin. Því miður verður ekki framhald á þeim góðu fréttum á árinu 2008. Umferðin mun halda áfram að taka sinn toll og ég er hrædd um að margar fjölskyldur muni eiga um sárt að binda vegna þeirra á komandi ári. Því miður.” Hún tók sér góðan sopa úr bollanum sínum, stóð síðan upp og fyllti á. „Ég þarf alltaf að fá mér smávegis af eldvatni til að komast í gegnum þetta. Það er svo margt að gerast í höfðinu á mér þegar ég spái fyrir um komandi ár, ég þoli það illa.”

Dollý dró djúpt andann. Stundi örlítið og dæsti jafnvel. „Þetta er alveg magnað. Kjaradeilur munu einkenna árið. Sérstaklega verður erfitt um vik hjá þeim sem lægst eru launaðir en vilji viðsemjenda er engu að síður sá að lyfta launum þeirra upp. Það fylgja bara alltaf einhverjir á eftir. Kennarar munu láta ófriðlega og það er hætta á að þeir fari í langt verkfall. Það verður rætt um það alvarlega að setja lög á kjaradeilu kennara, en ég held þó að það verði ekki af því, það mun þó standa tæpt.

Meiri friður en oft áður mun ríkja innan leikskólanna, starfsmenn munu sækja þangað í meiri mæli en oft áður og umræðan um þá verður jákvæð á árinu. Það gildir þó í þessum kjaradeilum eins og öllum öðrum deilum að menn verða að vera þolinmóðir, sýna samstarfsvilja og vera tilbúnir til að hliðra til. Á það við um alla deiluaðila sem og þá sem að kjaramálum koma, s.s. ríkisstjórnina. Þolinmæði er dyggð sagði einhver.”

Menn fara framúr sér í orkuútrásinni

Dollý kveikti á dagatalskerti sem var bara brunnið niður að 17. desember og ég á ljósið flökta á andliti hennar. Hún hafði fengið sér nýja hárkollu í stað þeirrar sem rann við spána í fyrra og hún fór henni vel. Gott ef hún yngdist ekki upp um okkur ár. „Árið 2008 verður að mörgu tilliti verra en árið 2007, það á þó ekki við um alla en kjaradeilur og óróleiki í efnahagslífinu verður nokkur og það mun hafa áhrif á marga. Verðbólgan heldur sínu striki og það verður sett mikil pressa á Davíð Oddsson að hverfa úr stóli seðlabankastjóra. Hann hefði betur fylgt mínum ráðum í fyrra og stigið af stóli. Bókin bíður hans, en nú er orðin spurning hvort hann hafi þrek til að ljúka henni. Hann er ekki heill heilsu hann Davíð, það er of margt að brjótast um í honum. Hann þarf að stíga út fyrir kassann, eins og sagt er. Hann þarf gott frí. Ég veit að hann hlustar ekkert á mig en ég held ég ráðleggi honum að flytja til útlanda, hverfa aðeins héðan af landinu, hann hefði gott af því. Davíð er góður maður, en hann hefur fengið að ráða of miklu of lengi, það er aldrei hollt.”

Hér dró Dollý andann djúpt, hallaði sér aftur í sætinu og um það bil sem hún náði veggnum sagði hún: „Það eru einhverjir einstaklingar í fjármálageiranum sem munu fara illa útúr næsta ári. Þetta eru menn sem hafa til þessa verið að leiða hina svokölluðu íslensku útrás. Aðrir í sama geira munu eflast og styrkjast og þeir munu fara að njóta meiri og meiri virðingar á alþjóðlegum markaði. Mér finnst eins og umræðan um orkuútrásina hafi farið dálítið framúr sér. Það er vissulega mikil og góð framtíð í orkuútrásinni en það komast ekki allir sem vilja að kjötkötlunum. Mér finnst vera myrkur í kringum Hannes Smárason, honum gekk illa á þessu ári og ég sé ekki að horfurnar muni lagast mikið hjá honum á árinu.”

Menn ættu að hugsa sér til hreyfings

Dollý saup aftur af kaffinu, gretti sig og bætti slurk af koníaki í. „Annars eru fleiri en Davíð sem ættu að hugsa sér til hreyfings, bæjarstjórinn í Kópavogi er einn þeirra. Hann hefur líka setið of lengi við kjötkatlana, er orðinn of heimaríkur og á erfitt með samskipti við fólk. Hann ætti að hverfa úr sínu starfi, ég er ekki viss um að hann vilji það en hann gæti neyðst til þess. Annars veit ég ekki af hverju hann er svona ofarlega í huga mér, kannski er það koníakið, mér skilst hann fúlsi ekki við því. Það er eitthvað svart í kringum hann, hann lendir í erfiðum málum, ef hann stígur ekki niður þá gæti hann lent í alvarlegum vanda. Ég sé sjaldan  svona mikið myrkur í kringum fólk, þetta er alveg einstakt,” sagði Dollý og stundi. Þessar sýnir fá greinilega mikið á hana.

Ég gat ekki setið á mér og spurði Dollý um forsetann. Hvort hann færi aftur í framboð. „Ég held hann sé ekki búinn að ákveða sig ennþá en hann mun lauma upplýsingum um framtíð sína í áramótaávarpið. Það verður þó ekki endanleg yfirlýsing um 4 ár til viðbótar eða ekki. Ég hef á tilfinningunni að hann langi til að komast í Öryggisráðið, hann langar rosalega mikið til að flytja til útlanda og hann hefur svo sem erindi úti í hinum stóra heimi. Hann er hins vegar ekki í náðinni hjá öllum í ríkisstjórninni og margir sem vilja alls ekki að hann verði okkar fulltrúi í Öryggisráðinu. Það hefur verið lagt fast að honum að hætta og margir sem bíða þess, en hann er hræddur um eftirmann sinn, sér það ekki fyrir hver hann verður og þess vegna mun Ólafur ekki gera upp hug sinn fyrr en síðar á árinu, líklega um Páska. Hann mun hætta, mér finnst hann muni hætta, skipta um starfsvettvang. Þetta er orðið gott hjá honum.”

Sviptingar í kringum borgarstjórn

Dollý var orðin nokkuð andstutt þegar þarna var komið. Greinilegt að stjórnmál eru henni hugleikin og hún staðfesti það. „Það verður mikið að gerast í stjórnmálunum á næsta ári. Einhverjir efast stórlega um meirihlutann í Reykjavík, ég sé bæði skin og skúrir í kringum borgarstjórnina. Það er mikið ljós í kringum Dag borgarstjóra, honum mun vegna vel. En það verður sótt að honum, bæði innan meirihlutans og utan hans. Ég fæ þó ekki annað séð en að hann muni standa það allt af sér. Hann mun þó þurfa utanaðkomandi aðstoð, gott ef einhver sem var áður í hans stóli komi ekki til aðstoðar. Það eru líka margir sem vilja ríkisstjórninni illt, pirringurinn í minnihlutaflokkunum gengur út í öfgar í vor. Framsóknarmenn munu berjast hatrammri baráttu innbyrðis, þeir viðurkenna það þó aldrei en lýðnum verður það ljóst að öllu leyti. Þeir munu gjalda fyrir það víða bæði í landsstjórninni og í bæjarstjórnum víða um land. En ríkisstjórnin mun halda velli, það verða sannarlega deilur innan hennar en ekki í þeim mæli sem verður til þess að hún falli. Deilur geta verið hreyfiafl til góðs, deilur innan ríkisstjórnar þurfa ekki alltaf að vera ill tíðindi, þær geta orðið til góðs. Margir eiga þó erfitt með að skilja það,” sagði Dollý og glotti all hressilega.

En Dollý skipti skyndilega um gír, tal hennar varð rólegra og meiri yfirvegun í orðfæri hennar. „Talandi um aðstoð, þetta verður metár hjá björgunarsveitunum. Þær munu hafa mikið að gera á árinu. Veðurfar verður rysjótt en mennirnir hafa of mikla trú á sjálfum sér og of litla trú á veðurfræðingum og rata í ógöngur æ ofan í æ á árinu. Því miður verður ekki öllum forðað en björgunarsveitirnar munu hljóta mikið lof á árinu fyrir framgöngu sína í mörgum verkefnum. Þeir eru ekki öfundsverðir meðlimir sveitanna og landar mínir munu sjá það á árinu. Björgunarsveitirnar munu vera í lykilhlutverki austarlega á landinu í rysjóttri tíð … sennilega að hausti, þegar náttúran mun láta á sér kræla. Flóð af einhverju tagi erða á austurhluta landsins og valda miklum skaða. Þetta verða erfið mál fyrir marga,” það er sorg í augum Dollýjar þegar hún ræðir þetta enda hafa spár hennar verið heldur svartsýnar til þessa en skyndilega stekkur hún á fætur. Hrópar upp „JÁÁÁ…” Mér dauðbregður og skil ekki þessi læti. „Landsliðið fer í úrslitakeppnina,”

Landsliðið fer í úrslitakeppnina

Mér bregður nokkuð enda hefur Dollý verið heldur höll undir kyrrsetu en greinilegt er þó að hún fylgist vel með og það veður á henni. „Landsliðið mun vinna góða sigra á árinu. Reyndar svo góða að íslenska þjóðin mun ganga hreinlega af göflunum. Það er gott því stemming eins og mun verða um landsliðið lyftir þjóðinni upp, lætur henni líða betur. Það er gott. Og svo mun liðinu líka ganga ágætlega í úrslitakeppninni. Í fótboltanum hér heima verða aftur krýndir nýjir Íslandsmeistarar í meistaraflokki.” Spurningin brennur á vörum mér varðandi úrslitakeppnina en í þá mund sem ég spyr „Í hvaða íþróttagrein?” skellir Dollý skyndilega uppúr.

„Ég sagði það, ég vissi þetta. Vilhjálmur Bretaprins varð faðir á árinu! Það verður allt vitlaust í Englandi, gott ef forsætisráðherrann lendir ekki í vandræðum vegna þessa. Ég vona bara að hann sýni þolinmæði, hann þarf að vera þolinmóður, starf hans er ekki hættu nema hann missi þolinmæðina,” sagði Dollý og var greinilega komin úr landi. „Hillary fer í framboð og stendur sig vel. Það er bjartara yfir bandarísku þjóðinni heldur en oft áður, það er svo sem ekki annað hægt. Bush hættir og sá sem tekur við af honum getur einfaldlega ekki verið verri forseti. Hillary fer í Hvíta húsið, ég er sannfærð um það. Gott ef Barak Obama fari ekki þangað líka. Þau mynda bandalag, það þarf demókrata í Hvíta húsið og þau fara þangað saman. Ófriðurinn í Írak heldur þó áfram enn um sinn, en það birtir þó aðeins yfir þeim heimshluta á árinu. Morðið á Bhutto verður til þess að augu almennings opnast. Það verða alltaf til einhverjir rugludallar, það er bara þannig, en þeim fer fækkandi og máttur þeirra minnkar. Það er gott.”

Gott ár hjá listamönnum erfitt ár hjá bankamönnum

„Íslenskar hljómsveitir munu halda áfram að reyna fyrir sér erlendis, með afar misheppnuðum árangri. Ein hljómsveit nær þó að slá í gegn á árinu. Svo nær Íslendingur miklum frama í listaheiminum, það er einhver sviðslist sem sá stundar. Sé samt ekki alveg hvort það er leiklist, tón- eða jafnvel málaralist. En það er mikill frami fyrir viðkomandi.”

Dollý var farin að þreytast þegar hér er komið við sögu. Það er orðið erfitt að greina orðaskil hjá henni, en hún er komin aftur heim til Íslands. „Það verður erfitt ár hjá bankafólkinu, en á seinni parti ársins mun létta til, enn og aftur er þolinmæði lykilorðið. Svo er ekki verra ef skynsemi er með í för, ekki of mikil bjartsýni, hófleg er mátuleg.” Hér er Dollý orðið þungt um andardrátt. Hún nær þó að slurka í sig kaffinu og koníakinu úr fimmta bollanum, lítur á mig tómeygð og segir. „Veðurfar verður rysjótt, en sumarið verður gott. Þú munt eiga gott ár.”

Hér slokknaði hreinlega á henni. Ég slökkti á dagatalakertinu sem var komið að 24. desember og reyndi að drösla kerlingunni inní rúm. Ég náði þó ekki að lyfta henni þangað þannig að ég bjó um hana á gólfinu við hliðina á rúminu og breiddi sængina yfir hana. „Gleðilegt ár Dollý mín,“ hvíslaði ég að henni og læddist út í rokið og rigninguna.

Spáin fyrir árið 2008 á pdf.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu