Ort á árshátíð

Á árshátíð Breiðabliks sem haldin var 2. febrúar 1985 á 2. hæð Félagsheimilis Kópavogs var eitt sinn efnt til samkeppni um bestu vísubotnana. Einn fyrriparturinn var svona:

„Ágætt lið er Breiðablik
betra gengi aftur”

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu sat við eitt borðið og var ég þar á meðal, sömdum við a.m.k. tvo botna, annar botninn var að sjálfsögðu tengdur þeirri staðreynd að enginn titill hafði fallið okkur í skaut árið 1984, en það var nokkuð sem okkur gekk illa að sætta okkur við eftir nokkur digur ár þar á undan.

Ágætt lið er Breiðablik
betra gengi aftur.
Áfram stelpur, ekkert hik
titlana heimtum aftur.

En annar botn sem við sendum frá okkur átti sér framhald. Vísan var þá svona:

Ágætt lið er Breiðablik
betra gengi aftur.
Hristu af þér gamalt ryk
gamli fylliraftur.

Handboltastrákarnir, sem sátu á næsta borði við okkur, héldu því fram þegar þessi botn kom fram að við hefðum heyrt til þeirra og stolið botninum af þeim. Því fór fjarri – enda hefur í kvennaliði Breiðabliks jafnan leynst miklir hagyrðingar og skáld og heilu sumarbústaðaferðirnar hafa farið í það að kveðast á.  Við gátum illa setið undir þessum ásökunum strákanna í handboltanum og sendum þeim því þessa vísu:

Þótt handboltinn eigi hörkulið
er hávært í þeim volið.
Stelpurnar eru betri en þið
þessu var ekki stolið.

Nú biðum við í nokkra stund og töldum víst að strákarnir myndu kasta á okkur vísu á móti og svara þessu – en ekkert kom frá þeim og því lukum við þessum kveðskap með eftirfarandi vísu:

Ansi er ykkur orðafátt
að yrkja vísubútinn.
Skortir ykkur kraft og mátt
að kveða okkur í kútinn.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu