Category Archives: Minningargreinar

Dómarinn Stefán Karl

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi annarra knattspyrnuliða en Breiðabliks. Jú Arsenal hefur stundum staðið hjarta mínu nær, þó það félag nálgist ekki þá ástríðu sem ég hef fyrir Blikunum. En maður verður víst að halda með einhverju liðið í Englandi og þar valdi ég Arsenal. Þeir byrja a.m.k. hvert tímabil á toppnum.

Hér heima lagði ég þó um stund land undir fót og hélt á Hvaleyrarholtið og síðar Áslandið til að horfa á annað félag í rauðum búningum, Hauka. Sá ágæti klúbbur, sem af örlítið hrokafullum nágrönnum sínum hefur verið kallaður litli bróðir eða systir, hefur að mínu viti alið af sér tvo sérstaklega minnisstæða einstaklinga. Annar er Sara Björk Gunnarsdóttir, besta knattspyrnukona Íslands og jafnvel víðar, og hinn er Stefán Karl Stefánsson leikari.

„Nei nú er Ingó búin að missa það, Haukar „ala af sér Stefán Karl“ núna er hún alveg búin á því“, það hugsar þetta sjálfsagt einhver, en mér er fúlasta alvara. Því þegar ég lagði land undir fót og gerði mér sérstakar ferðir til að horfa á Haukana þá var Sara Björk ennþá í vagni eða sparkandi bolta í leikskólanum, en þar var hins vegar einn al skemmtilegasti knattspyrnudómari landsins, Stefán Karl. Það var óborganlegt og svo gjörsamlega ógleymanlegt að horfa á hann, hvort sem hann var inni á vellinum sem dómari eða á línunni. Hann stjórnaði leiknum alltaf eins og lögregluþjónn. Allar hreyfingar voru ýktar eins og mögulegt var, flagginu var aldrei lyft beint upp. Það mátti stundum halda að Stefán væri að skrifa rangstaða með flagginu. Oftar en ekki fylgdi líka með hátt og snjallt frá drengnum, „Raaaangstaaaaðaaaa“ um leið og hann lyfti flagginu. Menn mótmæltu ekki dómum hans enda var mótmælum svarað fullum hálsi með rökum, þannig að menn lágu í hláturskasti á eftir. Það var ekki hægt að rífast við dómarann Stefán Karl.

Mér, sem bar þá von í brjósti að verða afbragðs dómari, fannst þessi drengur vera óttalegt fífl. En mér fannst skemmtilegt að fylgjast með honum og gott ef ég reyndi ekki nokkrum sinnum að herma eftir honum, með afskaplega slæmum árangri.

Stefán Karl átti síðar eftir að verða þjóðargersemi. Hans verður minnst sem afbragðs leikara um mörg komandi ár. Hjá mér hefur þó leikarinn Stefán Karl aldrei náð að yfirskyggja dómarann. Þannig mun ég minnast hans – og brosa.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Atli Heiðar Þórsson – Minning

Farðu í friði góði vinur
þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný. (Magnús Eiríksson)
 Atli Þórsson var vinur minn. Hann var vandaður maður og fór ekki í manngreinarálit. Hann var ekki maður margra orða þó hann hafi sannarlega haft skarpar og skýrar skoðanir á hlutunum og lét ekki sitt eftir liggja í rökræðum um hin ýmsu málefni. Hann var málafylgjumaður og ef hann batt tryggð sína við eitthvert málefni þá máttir þú vita að hann myndi verja þann málstað. Hann var Bliki fram í fingurgóma, var fórnfús og taldi ekki eftir sér að leggja fram vinnustundir til félagsins síns þegar þess var óskað. Breytti þá engu hvort um var að ræða að vinna á Gull- og Silfurmótinu eða vera í meistaraflokksráði karla eða kvenna. Hann vann jafnt fyrir alla.
Þær eru ófáar veislurnar sem við Atli sóttum bæði og bera tvær þeirra hæst. Annars vegar uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Breiðabliks þar sem við Atli stigum „brúðardans“ með miklum stæl. Hitt var partýið sem stóð í sólarhring og Atli var fremstur meðal jafningja þegar vinirnir tóku atriði úr kvikmyndinni Full Mounty. Þetta eru stundir sem eru algjörlega ógleymanlegar þeim sem voru viðstaddir.
Það var aldrei neitt vesen á Atla og það var svo sem alveg dæmigert af honum að kveðja eins og hann gerir nú. Skyndilega og án fyrirvara. Atla Heiðars Þórssonar verður saknað. Minning hans lifir.
Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Í minningu vinar – Friðjón Fannar Hermannsson

Í hverfulleika lífsins, hvergi finn ég skjól
hamingjan er ekki öllum gefin.
Því hugsa ég um ljósið er leggst ég í mitt ból
hvort lýsi það að morgni, þar er efinn.

Í dag fékk ég fréttir af óvæntu fráfalli vinar míns Friðjóns Fannars Hermannssonar. Hann var einn af strákunum mínum í Ekkó. Fjörmikill drengur, stuttur í annan endann en þeir voru svo sem fleiri þannig í þessum hópi. Hjálpsamur var hann og duglegur, enda skáti og félagsmálatröll hið mesta. Strax þarna, þegar hann er 13-15 ára gamall var ljóst að hann yrði, er hann yxi úr grasi, drengur góður eins og sagt er í Íslendingasögunum.

Friðjón var alltaf kankvís við gamla leiðbeinandann sinn úr Ekkó og Þinghól. Við hittumst gjarnan á vellinum, eitilharðir Blikar bæði tvö, og þó það liðu mánuðir og jafnvel ár var alltaf stutt í brosið, knúsið og krafturinn sá sami og í Ekkó forðum.

Friðjón er einn þeirra sem skilur eftir sig margar góðar og ljúfar minningar. Hans verður sárt saknað.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Var Valdi galdramaður?

ValdiValdi gamli vallarvörður var í hugum margra okkar krakkanna sem stunduðum það að hanga á Vallargerðisvelli galdramaður. Hann kunni allt og gat allt, og hann var strangur – en samt bara mátulega. Við reyndum auðvitað, eins og krakka er von, að ganga aðeins lengra en hann leyfði, en mörkin voru skýr í hans huga og yfir þau fór maður bara einu sinni.

Valdi var handlaginn, gerði við net og galdraði blöðrur úr boltum og átti alltaf til bót þannig að hægt var að sparka í boltann aftur. Hann hélt úti nokkrum kynslóðum knattspyrnufólks í Kópavogi sem dáðu hann og dýrkuðu og báru fyrir honum óttablandna virðingu. Auðvitað án hans vitundar.

Á mínu heimili var alltaf talað um Valda fisksala, en hann rak fiskbúð í húsi KRON á Álfhólsvegi 32, en á þeirri góðu götu var ég alin upp og Valdi bjó þar líka. En ég kynnist þó ekki Valda fyrr en hann var orðinn vallarvörður og í mínum huga og langsamlega flestra jafningja minna var hann þekktur sem Valdi vallarvörður.

Ég sagði í upphafi að Valdi hafi í hugum okkar krakkanna verið galdramaður. Ég er nokkuð viss um að hann væri stoltur af þeirri nafngift. Hann var alinn upp meðal galdramanna á Ströndum, nánar tiltekið á Látrum í Aðalvík en þaðan flutti hann til Reykjavíkur árið 1946 en ári seinna flutti hann ásamt Rósu konu sinni í sumarbústað í Kópavogi og byggði sér og sístækkandi fjölskyldu sinni reisulegt hús við Álfhólsveg. Í bænum okkar bjó hann alla tíð síðan.

Hann var Kópavogsbúi með stóru K-i og barðist einarðlega fyrir öllum þeim sem minna máttu sín. Sigurjón sonur Valda orðar þetta vel þegar hann segir í minningargrein um föður sinn: “Að mörgu leyti var karl faðir minn einstakur maður sem alltaf vildi gefa af sér og gleðja þá sem í kringum hann voru. Hann var þó einnig nokkur bardagamaður og þoldi illa óréttlæti sem aðrir urðu fyrir.

Knattspyrnustúlkur úr Kópavogi nutu baráttumannsins svo sannarlega og hann, að öðrum ólöstuðum er sá sem lagði grunninn að því veldi sem Breiðablik varð og er í knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hann stóð til að mynda fyrir fyrsta opinbera knattspyrnuleik stúlkna í Kópavogi þegar Austur- og Vesturbær öttu kappi árið 1967. Hann kom á fót skólamóti grunnskólabarna í knattspyrnu árið 1969 og lagði á það þunga áherslu að keppt yrði bæði í stúlkna og piltaflokki. Þessum mótum hélt hann, ásamt nokkrum fleirum góðum mönnum, úti í um 20 ár og til marks um umfangið má nefna að árið 1985 voru þátttakendur 406 og í blaðagrein um mótið er sérstaklega til þess tekið að helmingur iðkenda hafi verið stúlkur og helmingur drengir.

Valdi var eitilharður Bliki og hann varð virkur í félagsstarfinu fljótlega eftir stofnfund félagsins árið 1950. Þrjátíu og þremur árum síðar, árið 1983, hringir hann í DV og er greinilega mikið niðri fyrir. Þá hafði knattspyrnuþjálfari, sem ráðinn hafði verið til Breiðabliks, að hans sögn: “eyðilagt mikið uppbyggingarstarf í knattspyrnu sem hefur átt sér stað hér undanfarin ár” og hér æfðu aðkomumenn með liðinu á sama tíma og leikmenn sem fæddir eru í Breiðabliki eru á förum eða eru að hætta. Valdi lauk reiðilestri sínum með því að spyrja: “Hvað er orðið af öllum þeim strákum sem hafa haldið merki Breiðabliks á lofti? Fá þeir ekki tækifæri að spreyta sig vegna þess að aðkomumenn eru byrjaðir að ráða hér ríkjum?

Þarna talaði baráttumaðurinn, sá sem vildi að menn uppskeri eins og þeir sá.

Já Valdi var ekkert að skafa utan af hlutunum. Hann var baráttumaður af gamla skólanum og mátti ekki sjá óréttlæti nokkurs staðar. Á árunum frá 1980 og langt fram á tíunda áratug síðustu aldar átti knattspyrna kvenna verulega undir högg að sækja. Stöðugt fleiri stúlkur sóttu knattspyrnuæfingar á sama tíma og “kerfið” var ekki alltaf tilbúið til að taka á móti stelpunum. En Valdi gamli vallarvörður var sannarlega haukur í þeirra horni. Hann barðist mjög hart fyrir framþróun mótahalds fyrir stelpurnar á ársþingum KSÍ og lét til sín taka á opinberum vettvangi vegna þess.

Árið 1989 skrifar hann í blöðin og leggur fram tillögu á ársþing KSÍ þar sem hann leggur til breytingar á keppnisfyrirkomulagi í yngri flokkum kvenna þannig að leiktími 2. og 3. flokks verði lengri og að 3. flokkur spili á stórum velli. Hann segir m.a.: “Það nær ekki nokkurri átt að 12-14 ára stúlkur séu að spila á litlum völlum eins og 5. og 6. flokkur pilta gerir. Þær eru einfaldlega of stórar fyrir slíkt … Auk þess gengur ekki að Íslandsmótið hjá þeim standi yfir eina helgi og sé síðan úrslitakeppni

Nokkrum vikum síðar dregur hann aftur fram blað og penna og ítrekar kröfur um breytingar á fyrirkomulagi yngri flokka kvenna. Framsýni hans var viðbrugðið því hann lagði til í tillögum sínum að komið yrði á fót 4. og 5. flokkur kvenna. Honum varð að ósk sinni fyrir 4. flokk en Íslandsmót í 5. flokki stúlkna var fyrst haldið árið 2005, en það hét Hnátumót áður.

Valdi lagði línurnar fyrir mig og margar fleiri sem um árabil börðust fyrir framgangi kvenna í knattspyrnu. Hann kenndi okkur að þola ekki órétt, hann leiddi baráttuna og gafst ekki upp. Það gerðum við ekki heldur og orðin hans um stelpur í fótbolta þyrftu að eiga það takmark að komast í landsliðið varð leiðarljós svo ótal margra stúlkna í Breiðabliki. Valdi sagði árið 1989 þegar ekkert var kvennalandsliðið en lofað hafði verið að endurvekja stúlknalandslið:

Knattspyrna kvenna er staðreynd og komin til að vera. Stúlknalandslið er gott og gilt en landslið er efsta þrepið. Landslið er takmark sem stúlkur eiga að geta stefnt að til jafns við pilta.

Í huga ungrar stúlku af Álfhólsveginum var Valdi galdramaður. Hann gat allt og hjá honum áttum við krakkarnir alltaf skjól. Seinna í huga ungrar konu af Álfhólsveginum var Valdi galdramaður. Hann sneiddi niður appelsínur í kílóavís, hellti uppá te og kaffi og bakaði dásamlegar jólakökur og hann gat lagað allt sem afvega fór, hvort sem það var í stórum vélum eða nosturslegur saumur sem þurfti að laga á bolta eða klæði.

Valdi var galdramaður og ég er ekki frá því að hann var einn þeirra sem lagði til sprek í bálið sem brann í mér fyrir knattspyrnu kvenna í Kópavogi og á Íslandi. Hann lagði línurnar, markaði sporin og sjálf var ég bara sporgöngukona, þakklát fyrir að hafa kynnst Valda vini mínum vallarverði.

Þau voru nokkur, eldra fólkið, sem við sem þá vorum yngri fylgdumst með og horfðum upp til á leikjum, Hulda P fór þar fremst í flokki ásamt, Þórhalli manni sínum, Diddi hennar Helgu Kristjáns og svo Konni gamli sem var lengur en elstu menn muna liðsstjóri meistaraflokks karla. Þau mættu öll á kvennaleikina líka og létu vel í sér heyra. Helga er sú eina þessara sem hér eru upptalin sem enn mætir á völlinn holdi klædd, en ég er sannfærð um að þau hin eru hér með okkur því þetta var staðurinn þeirra. Helga orðaði það líka svo vel hvernig manni leið þegar fregnin um andlát Valda barst okkur. Hún segir að hún hafi verið „stödd á Kópavogsvelli að horfa á leik. Leikurinn varð á andartaki að aukaatriði. Völlurinn varð að stærðar minnismerki um Valda um leið og hann vakti ljúfsárar minningar um löngu liðin töp og sæta sigra sem við upplifðum saman. Augu mín hvörfluðu að staðnum þar sem skódinn hans stóð jafnan á leikjum Breiðabliks þannig að kona hans Rósa, sem er fötluð, gæti horft á.“ Sá staður er hér við suðaustur hluta stúkunnar.

Kópavogur og Breiðablik eru ríkari fyrir það lán að Valdi flutti í sumarbústað í Kópavogi árið 1947.

 

 

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Ólafur E. Rafnsson – In Memoriam

Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, var borinn til grafar í dag. Við Óli þekktumst ekki mikið en hann var maðurinn hennar Gerðar, vinkonu minnar og skólasystur. Óli hafði einstaka nærveru og þá sjaldan við hittumst var alltaf eins og við þekktumst vel og værum bestu vinir. Óli var líka mannvinur af bestu gerð og það sást vel í útför hans í dag að hann var ákaflega vinamargur.

Óli nælir í mig silfurmerki ÍSÍ 2010
Óli nælir í mig silfurmerki ÍSÍ 2010 og ég horfi aðdáunar augum á hann.

Continue reading Ólafur E. Rafnsson – In Memoriam

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Drottningin mín – mamma

Nöfnurnar og bestu vinkonur - Ingibjörg og Ingibjörg
Nöfnurnar og bestu vinkonur – Ingibjörg og Ingibjörg

Elsku mamma mín kvaddi þennan heim að morgni þriðjudagsins 12. febrúar. Hún hafði átt við erfið veikindi að stríða um nokkurra ára skeið sem þjökuðu hana bæði líkamlega og andlega. En alltaf var samt stutt í brosið, alltaf var hún blíð og alltaf jákvæð.

Sem barn og unglingur tekur maður foreldrum sínum sem sjálfsögðum hlut, rétt eins og sólin kemur upp að morgni þá eru mamma og pabbi til staðar. En eftir því sem tíminn líður gerir maður sér grein fyrir því hvað maður er í raun heppinn að eiga þessar föstu stjörnur í lífinu og af tveim skærum stjörnum þá skein mamma skærast. Hún var leiðarljósið mitt, drottningin, hetjan mín og mín besta fyrirmynd. Alltaf gat ég komið til mömmu og leitað ráða, ef hún var ekki alveg sammála þá sagði hún það aldrei beinum orðum heldur reyndi að vísa mér leiðina og benda á að kannski mætti gera hlutina öðruvísi.

Continue reading Drottningin mín – mamma

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Kveðja frá Sirru frænku

Hún Sirra föðursystir mín, Sigrún Jóna Lárusdóttir, var mikil eftirlætisfrænka. Alltaf brosandi, alltaf hlý og alltaf svo skemmtileg. Hún kunni vísur og kvæði og var mjög liðtæk í vísnagerð.

Í kvöld (12.12.12) var ég að blaða í gegnum gömul jólakort þá rakst ég á kveðju frá henni og má til með að deila henni með ykkur. Sirra lést 16. júní í sumar eftir hetjulega baráttu við veikindi. Blessuð sé minning hennar.

 

Jólin 2007.

Ingó mín,

Ég vildi ég gæti verið við hlið þér örlitla stund
og fært þér fullt af blómum sem fegurst eru á grund.
En af því að allar óskir ekki geta ræst
þá verð ég bara að bíða þar til við hittumst næst.

Lífið það er ferðalag en aðeins ein ferð
sem allir verða að fara, en borga misjafnt verð.
Sumir borga meira – aðrir minna
En það er bara að brosa því bráðum kemur vorið
Þá batnar allt – þó fenni seint í sporið.
Kveðjan er til þín og allra hinna.

Bless, Sirra.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu