#MeToo kvenna í heilbrigðisþjónustu

#Metoo – sögur kvenna í heilbrigðiskerfinu
1. Einn karlkyns læknir og samstarfsmaður tók einu sinni eftir tattúi hjá mér og tilkynnti fyrir fram fulla stofu af samstarfsmönnum og nemum að konur með tattú væru líklegri til að fá kynsjúkdóm heldur en þær sem ekki væru með tattú, og gaf um leið í skyn að ég væri lauslát.
Að hugsa sér, fyrir utan niðurlæginguna fyrir mig að sumir nemar hafa svona menn fyrir kennara.

2. Það sem mér finnst svo skuggalegt er að með hverri sögu rifjast upp eitthvað atvik sem ég hef bara ákveðið að gleyma til þess að geta sinnt starfinu.En það sem særir mig mikið og sem gerist alltof oft er lítillækkun frá karlkyns samstarfsmönnum, yfirleitt sérfræðingum, sem gerist svo oft á stofugangi fyrir framan sjúklinga og aðstandendur en líka þar fyrir utan. Athugasemdir eins og „Þú ert nú svo heppinn að hafa svona sæta unga hjúkrunarkonu, þú verður fljótur að jafna þig. Hvernig var það ertu gift?“ 
Ég gekk inn í herbergið, hjúkrunarfræðingur, fagmaður og hluti af samstarfsteymi. Á einu augnabliki er ég rænd öllu og stend eftir kyngerð „lítil stelpa“ sem hvorki læknar né sjúklingar bera virðingu fyrir því ég er sæt, það er nóg til að hjúkra.

3. Við konurnar á mínum vinnustað höfum verið að ræða hegðun samstarfsmanns okkar þegar starfsfólk hefur komið saman og vín verið við hönd.
Hann er giftur fjölskyldumaður (ekki að það geri áreitið eitthvað verra eða betra) og hefur í síðustu tveimur vinnupartýum valið eina unga samstarfskonu til þess að elta, dansa utan í og slefa ofan í hálsmálið á þannig að allir nærstaddir hafa tekið eftir.
Í samræðum við eldri konur sem unnið hafa á deildinni um langt skeið kemur í ljós að þessi sami maður hefur í gegnum tíðina byrjað vaktir sínar á því að laumast nærri konunum til þess að þefa af þeim. Það þarf líklega ekki að taka það fram að enginn hefur haft ánægju af!
Hættum að kóa með svona hegðun og #höfumhátt

4. Ég hef upplifað kynbundna mismunun í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur og sem hjúkrunarnemi. Eftir 2. árið í námi hófu 6 hjúkrunarnemar störf á sömu deildinni, 5 konur og 1 karlmaður.Við sinntum störfum sjúkraliða og það var mikið álag á okkur í umönnun. Ítrekað varð ég vör við að karlkyns samnemanda mínum var boðið að fylgja sjúklingum í aðgerðir og fylgjast með.
Hann fékk að taka þátt í ýmsum öðrum verkefnum sem féllu ekki undir okkar starfslýsingu af því að “hann væri svo áhugasamur” og “hann hefði svo gott af því”.
Það þarf ekki að taka það fram að enginn okkar stelpnanna fékk nokkur tímann að gera neitt af því sem honum bauðst þetta sumarið.

5. Ég er ein af þeim sem gat lokað á erfiðan atburð en skil ekki í dag hvernig mér tókst það. 
Ég vinn með sérfræðingi, sem er eins og svo margir flottur í sinni sérgrein. Ég hef  verið að leggja áherslu á það sem er hans sérgrein og hef því lært gríðarlega mikið af þessum manni. Minn starfsframi var að mestu leyti háður honum. Hann vann sér inn mitt traust og ég gat leitað til hans og rætt allt við hann. Þegar við erum nýlega byrjuð að vinna saman í teymi förum við á ráðstefnu erlendis.
 Á milli fyrirlestra á ráðstefnunni segir hann að næstu tveir nýtist okkur illa og við skulum bara fara og kíkja jafnvel í mall, sem ég var til í að gera. Förum upp á hans herbergi. 
Ég er svo svekkt hvað ég var mikill aumingi. Hann biður mig að leggjast í rúmið og ég geri það sem er fáránlegt af mér. Fer þá að tala um rassinn minn, ég verð vandræðaleg og segi að þetta sé bara pepsi max rass, eftir það kallaði hann rassinn minn oft max.
 Fór svo að reyna við mig, ég fraus. Ég veit ekki hvort að það hafi áhrif að ég 
hef áður lent í grófri nauðgun og annari kynferðisáreitni eða hvort að ég hefði
 hvort eð er frosið. Hann gengur ekki mjög langt þarna, þannig að ég vonaði að 
svona hefði bara „gerst“ núna og var viss um að yrði ekki aftur. Ég ætlaði nú
 bara að gleyma þessu. Þarna inni á herberginu spyr hann mig hvort að ég hafi
 virkilega ekki tekið eftir því hvað hann horfði mikið á mig í vinnunni,
var hissa á því og sagði að hann væri alltaf að horfa á rassinn minn. Svo bara 
hefði eitthvað gerst hjá sér þegar ég var að beygja mig niður í töskuna mína
 sem ég geymdi hjá honum deginum áður. 
Strax fór ég að verða reið við mig fyrir að hafa beygt mig niður og að ég hefði ekki átt að vera í þessum kjól sem ég var í.
 Þetta kvöld förum við  út að borða. Um kvöldið eltir hann mig svo upp á herbergi, ég fann hvað mér þótti það óþægilegt, en ég gat ekkert sagt.
 Aftur verð ég hrædda auma stelpan sem þori ekkert að segja né gera. Þarna
 reynir hann virkilega mikið að ná vilja sínum fram, ég ligg þarna
 hreyfingarlaus, ég man að ég hugsaði að þetta yrði bara að taka fljótt af, það
 væri best upp á samstarfið að ég mundi bara láta mig bara hafa þetta. Ég segi ekkert, geri
 ekkert og upplifi mig eins og ég standi og horfi á mig stjarfa í rúminu. Hann 
komst langt en náði ekki fram vilja sínum, því að sem betur fer þá hringdi síminn
 og ég gat talað í símann þangað til hann fór.

Það sem ég á virkilega erfitt með að sætta mig við er að ég fór svo til hans
 morguninn eftir, það er ekki hægt að lýsa því hvernig þetta ömurlega vald var 
yfir manni. Líðanin var hörmuleg, hjartað á milljón og ég að berjast við sjálfa mig. Ég fer inn til hans og ég get með engu móti munað hvað og hvort eitthvað hafi gerst þar. Ég fyllist svo miklu sjálfshatri þegar ég hugsa um þetta atriði. Mér líður eins og ég hafi gefið honum verkfæri til að segja að allt sem gerðist hafi verið minn vilji. 
Ráðstefnan heldur áfram. Fljúgum svo heim og vinnum áfram saman.
 Helgina eftir fékk ég leyfi til að vinna í verkefni á vinnustaðnum okkar, þar er enginn umgangur um helgar. 
Hann kemur þangað. Þarna gerist hann mjög grófur, á vinnustaðnum okkur. Sest ofan á mig reynir ítrekað að kyssa mig og káfar á mér, aftur verð ég þessi aumingi logandi hrædd og get ekkert sagt né gert, gjörsamlega lamast. Mér hefur alltaf liðið illa inn á þessari stofu eftir þetta atvik. Ég gat ekkert unnið í verkefninu eftir þetta.

Áfram höldum við að vinna saman. Ég loka á þetta. Ég var nýlega byrjuð hjá 
sálfræðingi þegar þetta var, hann hefur oft bent mér á atriði sem eru óeðlileg 
í okkar samstarfi.
 Þessi maður hefur líka notað orð sem eru kynferðisleg áreitni, sem ég fattaði 
ekki að væru það. Kallaði rassinn minn Max, talaði um ráðstefnuna, spurði mig
 um hvernig ástarlífið gengi. Inn á milli kenndi hann mér margt. Ég gat ekki
hugsað mér annað en að láta sem ekkert hefði gerst og halda áfram að læra af
 honum.

Sálfræðingurinn minn fékk mig til að fara til starfsmannastjórans, því 
að mitt starf væri alveg undir honum komið, hann gæti auðveldlega með sínu 
valdi sagt að það væri ekki hægt að vinna með mér. Ég fór því og sagði að ég
 vildi ekki að neitt yrði skráð en ég vildi hafa talað við hana ef hann myndi
seinna koma og segja að ég hefði ekki staðið mig í vinnu.

Öll kvöldin fyrir vinnu kveið ég fyrir því að mæta. Hann sýndi á sér svo margar
hliðar, stundum með kynferðisleg skot, stundum pirraður og stundum kurteis og
almennilegur. Ég tiplaði á tánum. 
Hann fer svo í veikindafrí, þannig að ég vinn án hans. Það sem gerist við fjarveru hans er að ég átta mig á því hvað þetta er búið að vera sjúkt og hrikalega erfitt. Hversu hrikalega kvíðin ég var heima, ég var alltaf með hugann við hvernig vinnan yrði. Ég fann að það var betra að vera án hans, það var frelsandi.
Sérfræðingurinn kom svo í smá tíma í vinnu og þá gat hann sagt mér að nú væri 
hann orðinn svo gleyminn að nú myndi hann ekki eftir neinu sem hann hefði
 samviskubit yfir. Heima kvíði ég því að mæta í vinnu, verður hann verður hann ekki, heldur þetta áfram eða er þetta hætt? 
Svo finn ég líka til með honum og er með hrikalegt samviskubit yfir því að yfirmaður minn viti þetta. 
Ég vona heitt og innilega að með því að skrifa þetta á blað þá losni ég að hluta við skömmina og vanlíðanina sem þessu hefur fylgt. Mig langar svo að geta hætt að kvíða fyrir vinnunni þegar ég er heima hjá mér.
 Ég vona að þið segið sem flestar ykkar sögur, ég trúi því að það hjálpi okkur.

6. Eldri virtur sérfræðingur hikaði ekki við að grípa með báðum höndum þéttingsfast utan um mittið á manni bara til að komast fram hjá. Og einhvern veginn þurfti hann ansi oft að komast fram hjá manni og strjúka líkamanum á sér upp að manni í leiðinni. Í hvert skipti spratt kaldur sviti eftir bakinu en ekkert sagði ég því oft voru sjúklingar eða aðrir vitni að þessu. Einnig þurfti hann reglulega að sækja sér penna uppúr brjóstvasanum á vinnusloppunum hjá okkur “stelpunum” og gantast með það hvað við værum nú allar fallegar. Við fórum stelpurnar að djóka með þetta og reyna að gera grín því allir vissu jú af þessu en í eitt skiptið heyrði yfirmaður til okkar og það var strax tekið á þessu máli, mjög faglega og flott. #metoo

7. Á mínum vinnustað hafa konur margoft kvartað undan einum starfsmanni. Ekkert er gert. Hann heldur áfram og tekur nýja kvenkyns starfsmenn fyrir. Í sumar sendi ég eina til deildarstjórans, sem er karlmaður. Hans svar var að hún ætti að skila inn greinargerð! Ekkert var gert.

8. Það þýðir nú ekkert að senda svona sæta stelpu til að mæla blóðþrýstinginn hjá manni. Hann ríkur bara uppúr öllu valdi“ þessa setningu hef ég heyrt oftar en mig langar. Allt við þessa setningu pirrar mig. ,,stelpu kommentið, og það að einhver sendi mig til að mæla blóðþrýsting en ég gat ómögulega fundið uppá því sjálf svona út frá menntun, ábyrgð og reynslu. Sem og þessi óræðu skilaboð um hvurslags áhrif nærvera mín hafi á viðkomandi. Eins og ég segi þá hef ég heyrt þessa setningu í einhverri mynd oftar en einu sinni frá mismunandi einstaklingum.

9. Fundur með amk 7 konum og einum karli. Karlinn: Anna, stattu aðeins upp! (Èg hèlt èg sæti à einhverju eða hefði misst eitthvað ofan à mig ). Èg stóð upp. Karlinn: Rosalega ertu komin með stòr brjóst! Èg missti málið og settist. Enginn sagði neitt og fundurinn hélt àfram. Dæmigerðar staðhæfingar frà sama einstakling: Maður missir hann alveg niður nàlægt svona umræðu…. Endalaus lìtilsvirðing í samskiptum, beinar hótanir og að grafið væri undan starfi mìnu, var þó miklu verra. Umræðan um hegðunina var: að nenna ekki/treysta sèr ekki, ì hann, enda lentir þù þà ì hòpnum sem talað var illa um og grafið undan.

10. Þegar ég var í verknámi sem hjúkrunarnemi á fyrir nokkrum árum var eldri maður sem greip í klofið á mér og sagðist vilja sofa hjá mér. Mér fannst þetta í meira lagi óþægilegt og gat ekki hugsað mér að sinna þessum manni meira. Ég fór því til yfirmanns á deildinni og bað um að þurfa ekki að sinna honum. Svarið sem ég fékk frá henni var að hann væri svona vegna lyfja sem hann væri á og að við ungu hjúkrunarfræðingarnir þyldum ekki neitt. Það sem hún bauð mér var að ég þyrfti ekki að vera ein í að sinna honum heldur gæti ég haft annan hjúkrunarfræðing með mér.

11. Ég var starfandi sem hjúkrunarfræðingur á deild á stofnun á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma var ég hluti af félgasskap sem var mér mikilvægur. Í þeim félagsskap var læknir, við vorum einungis málkunnug á þessum tíma. Hann starfaði á þeim tíma ekki á sömu stofnun og ég. 
Eitt kvöld ákvað þessi maður að skrifa mér tölvupóst með nákvæmum lýsingum um hvað hann óskaði að gera við mig og með mér á mjög kynferðislegan hátt. 
Bréfið sendi hann mér tvisvar sinnum því í fyrra skiptið gleymdi hann að festa viðhengið með, myndir af kynfærum hans annars vegar í slökun og hins vegar í fullri reisn. Honum fannst hann sjálfur ”svo vel vaxinn að neðan“ að eigin sögn í tölvupóstinum. 
Hann byrjaði póstinn á því að fara yfir hvað það væri sem væri mjög neikvætt við mig, en hann gæti horft framhjá því svona í tilefni sinna langana.
Þegar ég sá póstinn þá brast eitthvað innra með mér. Í fyrsta skipti í lífinu fann ég fyrir gífurlegu óöryggi og ógn við friðhelgi mína. ég Ég hafði samband við lögregluna sem gat lítið gert en ég hafði einnig samband við samstarfskonu mína um málið.
Ég komst í samband við lögfræðing sem veitti mér ráðleggingar um hvernig best væri að svara þessari árás með mína hagsmuni að leiðarljósi.
Ég svaraði lækninum eftir ráðleggingum lögreglu og lögmanns. Hann sendi þrjú afsökunar bréf. Í því síðasta bar hann fyrir sig miðaldrakrísu því jú hann var nýlega farinn að nota fjarsýnisgleraugu.
Það tók mig 8 mánuði að tilkynna hann til Landlæknis. Ég gerði það að lokum, læknirinn hafði víst verið á endurhæfingu til að fá leyfið sitt aftur. Samskiptin enda á því að landlæknir tjáir mér að þessi maður fái ekki sitt leyfi aftur,
Áður en ég veit af hefur þessi maður sótt um starf á deildinni minni sem læknir og fær ráðningu. 
Ég læt mína yfirmenn vita af því sem hafði gerst, sýndi þeim póstana og myndirnar- þeirra viðbrögð voru að hann hefði nú gengi í gegnum svo erfiða hluti að hann ætti skilið annan sjéns.
Mér var lofað að við yrðum ekki látin vinna á sömu vöktum. Ég sagði upp starfi mínu á deildinni en hann vann þar um nokkurn tíma. Hann er enn starfandi sem læknir í heilbrigðiskerfinu í dag.

12. Ein eftirminnileg saga. Var inn í herbergi með karlmanni sem var 40 árum eldri en ég. Þurfti að taka margar blóðprufur, setja æðalegg og búa um sár. Hann talaði mikið um börnin sín og vinnu. Ég kinkaði bara kolli og reyndi að einbeita mér. Þegar ég var búin að vera inn í herberginu í nokkrar mínútur sagði hann ”ég ætti að læsa herberginu, henda þér upp á bekkinn og ríða þér“. Mér brá en svaraði stuttu seinna ”þú varst að segja mér frá dætrum þínum, ég ætla að vona það að þær þurfi ekki að hitta menn eins og þig í vinnunni sinni“.

13. Yfirmanninum sem fannst fullkomlega eðlilegt að reyna að kyssa sætu samstarfskonur sínar þegar hann var komin vel í glas. Jafnvel klípa smá í rassa, sérstaklega ef þær voru sætar.
Hann er bara flottur kall, góður gæji, virtur.
Við reynum bara að gleyma þessu, hugsuðum, æji svona er hann bara, verðum bara að passa okkur.
Ekki lengur!
#höfumhátt

14. Ég var að vinna í aðhlynningu fyrir einkafyrirtæki innan NHS (National Health Service í UK) á meðan námi stóð. Eitt skipti á næturvakt vorum við óvenju fáliðuð og var ég ein með 10 manna gang en bjöllu á mér ef ég þyrfti aðstoð.
Bjalla hringir og fer ég inn á herbergi. Þar inni liggur eldri maður, búinn að vippa sænginni af sér og var að hamast á fullu. Ég læt vita að svona líðist ekki og ef hann þurfi aðstoð þá þurfi hann að hegða sér. Fer fram og tilkynni samstarfsfólki hvað hefði gerst og ég vildi ekki sinna kalli frá hans herbergi ef annar væri laus og sæi bjölluna hringja.
Stuttu eftir miðnætti varð allt brjálað að gera og kallinn hringir bjöllunni. Enginn séns að kalla á aðstoð svo af stað ég fer. Þegar ég kem inn og slekk á bjöllunni biður hann mig að laga kodda og skipta um stellingu. Þegar ég beygi mig að honum grípur hann þéttingsfast í annað brjóstið mitt og byrjar aftur að fróa sér. Ég kem mér undan, klára vaktina í móki og læt deildarstjóra vita við vaktaskipti.
Skilaboðin voru skýr: ekki vera með neitt vesen, hann er nú gamall og þú svo sæt.
Sami vinnustaður, þáverandi yfirmaður heimilisins: Gætir þú sleppt brjóstahaldaranum á morgun? Ég elska að sjá þau hossast

15. Margir karlar sem eru að ”misskilja“ umönnunina sem maður veitir og segja eitthvað perralegt eða reyna við mann. Veit ekki hvað oft manni er strokið eða einhver biður um koss.

16. Eg var eitt sinn að búa um rúm hjá fullorðnum karli sem sagði svo við mig þegar ég snéri baki i hann ”djöfull ertu í sexy nærbuxum“ 
Er ekki hægt að hafa meira en bara einn lit að buxum……. það sést allt i gegn um hvítar buxur.
Þegar ég var að vinna a öðrum stað í heilbrigðisgeiranum þá var sagt við mig þegar ég skrifaði undir ráðningarsamninginn minn ”djöfull verður þér nauðgað í sumar maður “. Átti víst að þýða að það yrði mikið að gera …. þar var mér líka oft boðið að koma og hlýja karlþjóðinni uppi í rúmi og sagt að ég væri með rosalega flott brjóst.
Lét þetta bara yfir mig ganga vegna þess að mig langaði svo i vinnu þar… en mikið er ég fegin að ég er hætt.

17. Ég mætti einn morguninn á rapportfund og þá áttum við hjúkrunarfræðingarnir að fá kynningu á nýju lækningatæki sem við, jafnt sem læknar deildarinnar, áttum að kunna að nota. Yfirlæknirinn fór með kynninguna, eldri maður sem var að verða kominn á aldur. Hann kom sér fyrir og hóf kynninguna á þeim orðum að hann væri ekki einungis kominn til okkar af því að við værum svo fallegar (n.b. það voru 1-2 karlkyns hjúkrunarfræðingar á fundinum). Svo hóf hann að kynna tækið en eyddi meirihluta af tímanum að segja okkur hvernig ætti að þrífa það.
Nokkrum dögum seinna, þegar ég var búin að ræða mína upplifun við samstarfskonur mínar, ákvað ég að confrontera manninn í einrúmi. Hann brosti, baðst afsökunar og hóf að útskýra hvernig nota ætti tækið, ef ske kynni að ég hefði ekki náð þeim upplýsingum á fundinum.
Nokkru seinna heyrði ég umræddan mann tala í síma og grínast við viðmælandann sinn að passa sig að segja ekki að hjúkrunarfræðingarnir væru fallegir, því þeir gætu móðgast.

18. Þetta hefur verið að hrærast í hausnum á mér síðan #metoo fór af stað. Ég ákvað að skilja þetta eftir hér þar sem þetta er vinnutengt. Eins og hjá svo mörgum öðrum konum hef ég lent í ýmsu sem er á mjög gráu svæði en maður er búinn að reyna grafa niður. Þetta er hluti af því. 
Þegar maður er að teygja sig í efriskápinn eftir kexi og sjúkraflutningamaður sér ástæðu til að koma aftan að manni og þrýsta öllum líkama sínum þétt upp að manni í nokkrar sekúndur, enginn var að grínast. 
Þegar karlkyns læknir segir manni að vera ekki í þessum læknisleik ef maður kemur með input um mögulega sjúkdómsgreiningu. 
Á legudeild sem óvanur hjúkrunarnemi: sjúklingur biður um að þvo aðeins betur ofaná kónginum, aðeins betur á forhúðinni, aðeins betur þarna og hérna og getur bent sjálfur og er kominn með stífan lim áður en maður byrjar. Hættir ekki fyrr en maður hleypur út. Hafði gert þetta við nokkrar aðrar.  
Ég get bætt við þetta ýmsum tilboðum um að koma upp í rúm til sjúklings og undarlegri þörf ýmissa karlkyns lækna sem ég varla þekki að gefa mér axlanudd og valdið kjánalegri upplifun.

19. Ég hugsaði með sjálfri mér, mikið rosalega hef ég verið heppin og einhvern veginn aldrei lent í neinu hvorki á vinnustöðum né í lífinu hvað varðar kynbundið ofbeldi. Mér skjátlaðist hrapallega og líklega hef ég ákveðið markvisst að gleyma. Er svo glöð með það að við stöndum saman og vörpum ábyrgðinni og skömminni af okkur og yfir á gerendurnar. 

Upp kom í hugann, nokkrum dögum eftir að átakið fór í gang hjá stjórnmálakonum, atvik sem átti sér stað innan veggja spítalans og á vinnutíma mínum í Danmörku. 
Aukavinnan mín þá snérist um að sinna veikum börnum í heimahúsi. Vinnutíminn var 12 tímar og alltaf var ég ein á vakt. Vinnan fólst í að hlusta á og bregðast við og eða endurlífga börn þegar á þurfti. Maður mátti aldrei víkja frá og sérstaklega þeim veikustu, varð maður því að fá foreldra til að hlaupa í skarðið, ef óþægilega vildi til að þurfa á klósettið eða borða. En ég ætla nú ekki að fræða ykkur nákvæmlega um vinnuverklagið í þessu starfi. 
Í eitt skipti þurfti barn, sem ég var að hjúkra, að leggjast inná spítala og þá fylgdi ég með því það þurfti líka að vaka yfir því inná sjúkrahúsinu. Þá nýttu foreldrar sér það stundum að fá að sofa í öðru herbergi eða heima og láta okkur sjá um barnið á meðan. Oftast var orðið mjög traust samband milli okkar og foreldranna. 
Nema að í þessu tilfelli kom pabbi barnsins með. Hann hafði stundum vakað með okkur og (talað alla nóttina) mér til mikillar leiðinda. Hann talaði bjagaða dönsku og erfitt var að skilja hann. Hann hafði talað mikið um kynlíf þessa nóttina sem og aðrar nætur og alltaf að segja mér hvað ég væri falleg, og ég reyndi að hunsa hann og eða tala um eitthvað annað. 
Það kom svo að því, að hann gekk skrefinu lengra, klukkanhálf sjö um morguninn þegar ég var að fletta í blöðunum og skrifa rapport að hann biður mig um að kíkja aðeins á tölvuskjáinn sinn (sem hann var búin að vera að umla og stynja yfir í langan tíma). Ég kíkti og var hann þá að horfa á klámmynd. Bað mig um að horfa með sér og spurði hvort ég myndi ekki verða æst yfir þessu. 
Stuttu síðar tekur hann handklæði og labbar inná bað sem var innaf herberginu og ég held áfram að hlusta á barnið, hálf stjörf. Veit ekki í hvorn fótinn á að stíga. Svo kemur hann fram stuttu síðar eins og hann hafi verið í löngum og ströngum göngutúr. 
Mér leið svo illa en ég gat ekki skilið barnið eftir (hefði getað verið ákærð fyrir vanrækslu í starfi) og fannst ég heldur ekki getað hringt eftir starfsfólki þar sem ég var ein til frásagnar og gat ekki tjáð mig fyrir framan hann. En ég var líka óöruggari við að segja frá og koma óorði á hann heldur en að labba út. 
Vildi heldur ekki fara í yfirmanninn því þá hefðu þeir sagt upp samningi við hann og þá enginn passað barnið. Trúið mér, það fór margt í gegnum höfuðið á stuttum tíma. Þarna var ég (að mér fannst) í ömurlegri aðstöðu og ein til frásagnar í öðru landi og á öðru tungumáli. Fór því heim eftir þessa vakt full af sektarkennd og ógeði. Bað um að vera aldrei aftur send til þeirra. Stuttu síðar kom í ljós að hann hafði verið að áreita fleiri og því varð samningi rift við þau. 
Vinnuveitandinn minn var líka mjög harður við starfsmennina sína og hefur sakað hjúkrunarfræðinga um vanrækslu og glöp og komið þeim fyrir dóm. Þannig að erfitt var að velja, báðir kostirnir voru slæmir að mér fannst. Eftir þetta atvik sem og fleiri er ég mjög meðvituð um faglega áhættu í starfi okkar. 
Mig vantaði hugrekkið í þetta skiptið. 
En aldrei aftur.
Haldið áfram þessari afhjúpun og umtali.

20. Ég get nú sagt að mér hafi verið boðið oftar en einu sinni upp í rúm til sjúklings. Það hefur gerst á mörgum ólíkum deildum sem ég hef unnið á.

21. Þegar þessi #metoo herferð fór af stað hugsaði ég að það hefðu nú allir einhvern tímann lent í einhverju svona. Að það sé nú svo algengt að það þurfi varla að minnast á það og það sé þá bara ”venjulegt“. En þegar ég hugsa þetta lengra er þetta af sjálfsögðu argasta vitleysa hjá mér og ætti kynferðisleg áreitni hvergi að líðast. 
Ég hef svo oft lent í þessari áreitni á marga mismunandi vegu sem ég hef alltaf bara ýtt frá mér. Oftar en ekki hafa vitni af þessum atvikum gefið afsökunina ”Æi þú ert bara svo sæt/ung“ og gefa þannig í skyn að þetta sé eðlilegt út af útliti mínu eða því um líkt. Og ég hef bara sætt mig við þetta, ekkert fundist þetta neitt stórmál…. En núna þegar ég skoða þetta betur eru þessi atvik alls ekki í lagi.
Ég hef lent í alls konar snertingum frá karlmönnum niðrí bæ, fengið alls kyns orðasendingar og meira að segja verið elt inn á klósettbás af miðaldra karlmanni þegar ég var 17 ára. En í vinnunni minni gerist þetta hins vegar oftast. Margir voru ekki alveg í raunveruleikanum sökum veikinda og lyfja en flestir voru vel áttaðir. Mér hefur verið boðið upp í rúm með þessum einstaklingum, verið snert óviðeigandi, fengið óviðeigandi orðasendingar/frásagnir og mér hefur verið fylgt eftir á samfélagsmiðlum. Bæði frá sjúklingum og samstarfsfólki. 
Þetta hefur aldrei pirrað mig eða verið mér ofarlega í huga en allt í einu er að malla inn hjá mér að þetta er bara ekki í lagi. Ég þarf kannski líka að hætta að lúffa fyrir öllu til að halda friðinn…..

22. Èg hef unnið við öldrunarhjúkrun næstum allan minn starfsferil og í þeim geira hef ég ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni að heitið geti. Aftur á móti hef ég kynnst einelti á vinnustað sem er ekkert gaman að lenda í, sem betur fer tóku yfirmenn á því máli og það fjaraði út. Þegar ég var nemi og nýútskrifuð vann ég á almennri deild þá varð ég fyrir því að reynt var að lauma hendi niður um hálsmálið á sloppnum mínum. Þetta gerði eldri maður sem ég var að hagræða í rúmi. Þegar við vorum í sloppunum (fyrir síðbuxnatímann) urðum við alltaf að passa að karlkyns sjúklingar næðu ekki að lauma hendi upp undir sloppfaldinn. Gæti trúað að fleiri en ég muni eftir þannig atvikum. Stöndum saman og segjum frá, gangi ykkur vel.

23. Einu sinni sat ég í móttökunni á minni deild, þegar karlkyns sjúklingur kemur fram ný útskrifaður. Ég var beðin um að hringja á leigubíl fyrir manninn sem ég gerði. Maðurinn settist niður í biðstofuna, talandi við sjálfan sig og eftir stutta stund byrjar hann að nudda á sér kynfærin og stynja. Hann gaf mér inn á milli eitt ógeðslegasta glott sem ég hef séð. Ég lét bara eins og ég sæi hann ekki. Hann stendur síðan upp, kemur að móttökunni og segir við mig; Ah, you like. You and your tight pussy og grípur í klofið á sér og gefur frá sér þetta ógeðslega glott. Í því kemur bílinn, og ég bendi honum á það. Hann labbar af stað og þegar hann snýr baki í mig fokka ég á hann. Ekki gerði ég það framan í hann, ég er í vinnunni…

24. Sæl, hef orðið fyrir ýmsu í starfi mínu en ef ég myndi segja hver áreitnin var myndi samstarfsfólk mjög líklega átta sig á einstaklingum. En gamlir karlar sem heimta bara ungar stelpur í aðhlynninguna sína þar með talið neðanþvott og karl sem sagði viðbjóðslega kynferðislega hluti við starfsfólk en aldrei þegar aðstandendur hans voru nálægt… hef sem betur fer fengið stuðning samstarfsfólks og unnið úr atvikum. Það sem mér finnst svo skuggalegt er að með hverri sögu rifjast upp eitthvað atvik sem ég hef valið að gleyma.

25. Ég ímynda mér að það séu fleiri eins og ég að afskrifa áreiti skjólstæðinga og þá sérstaklega skjólstæðinga með heilabilun og/eða geðsjúkdóma. Þar sem flestar vinnum við með öðrum konum og áreitið kemur sjaldan frá þeim.
Áreitið hefur verið óteljandi. Allt frá orðum að þukli frá þukli að því að vera elt. Oft frá sjúklingum en alls ekki einungis. Það hafa einnig verið aðstendendur sem hegðuðu sér með óviðeigandi hætti. Í að ég held engu tilfelli tilkynnti ég það eða ræddi sérstaklega. (það hefði þó verið bót og skref í rétta átt.) Ég leit á þetta sem hluta af starfinu.

26. Vann einu sinni með mjög indælum manni sem öllum líkaði vel við. Hann var samt alltaf að koma við mig, fannst ég svo sæt, kallaði mig gælunöfnum var alltaf að knúsa mig aðeins of lengi t.d eftir vaktir.
En hann var svo vinsæll að ég þorði ekki að segja neitt.
Ég skipti bara um vinnustað.

27. Ég var 2. árs hjúkrunarnemi nýbyrjuð að vinna á deild. Var að taka lífsmörk hjá ungum karlkyns sjúklingi. Faðir hans stóð hjá og segir við mig hvort ég ætli ekki svo að gefa syni sínum góðan og langan neðanþvott í leiðinni, með glott á svip. Sjúklingurinn hló vandræðalega og ég hrökklaðist út með hnút í maganum og ógleði. Ég fór ekki aftur inn til þessa sjúklings.
Frá þessu atviki hafa liðið mörg ár og kemur mér á óvart hve fá dæmi ég get rifjað upp. Ætli maður sé ekki með það þykkan skráp að maður markvisst gleymir þessu jafnóðum og er hættur að taka þetta inn á sig… #höfumhátt

28. Ég er nemi og hef undanfarna daga mikið verið að hugsa til baka síðan ég byrjaði í náminu hvort ég hafi lent í einhverju sjálf (maður er náttúrulega orðin svo dofin gagnvart svona hegðun eftir að hafa unnið í öðrum bransa). 
Ég get blessunarlega ekki munað eftir neinu atviki sem tengist samstarfsfélögum EN þökk sé þessu átaki þá munu augu mín vera mun betur opin (galopin) gagnvart þessu í framtíðinni!
Ekki er sama sagan að segja frá sjúklingum/skjólstæðingum hins vegar, þar gat ég rifjað upp nokkur dæmi. Hér er eitt þeirra:

Sumarvinnan sem hjúkrunarnemi
Eldri karlmaður, skýr og áttaður, sem þurfti mikla aðstoð. Eldri hjúkrunarfræðingur var búin að ”vara mig við honum“ þ.e. segja mér að ungu stelpurnar væru ekkert alltof hrifnar að því að sinna honum. Ég sjálf byrjaði aðeins eldri í náminu og eins og ég sagði áðan með reynslu af dónalegu fólki úr öðrum bransa ákveð að vera ekkert að forðast hann neitt. Hann sér að ég er ný þarna og spyr mig hvað ég heiti. ”María“ svaraði ég… Hann segir með sleazy rödd ”María… Það er þó ekki María mey?… Nei… þú ert nú engin mey, það er alveg greinilegt“
Hann notaði einnig öll tækifæri til að tala um typpið á sér. 
Maður vill auðvitað vera fagmannlegur og sinna öllum sjúklingum fordómalaust. En þetta er auðvitað nákvæmlega það sem er að. Það einhvern veginn vita allir af þessari hegðun hjá honum, og maður er varaður við honum í staðinn fyrir að einhver ræði við manninn um þessa hegðun! Láti hann vita að þetta sé ekki í lagi. Horft framhjá þessu því hann á jú vissulega bágt

29. Ég var nýbyrjuð í námi, vann á öldrunardeild og sjúklingur sem var kominn með rugl/heilabilun sagði mér að sýna sér brjóstið og fleira. Ég sagði honum að maður gerir ekki svona og labbaði út. Talaði svo við deildarstjóra deildarinnar því mér leið ömurlega yfir þessu og skammaðist mín fyrir þetta. Ég bað hana um að fá að sinna öðrum sjúklingum á meðan ég jafnaði mig á þessu og það versta við þetta var svarið HENNAR. Þetta væri leiðinlegt EN þú mátt ekki láta þetta bitna á honum þetta gengur ekki svona. 
Ég ætlaði ekki að láta neitt bitna á honum ég vildi bara ekki sinna honum í smá tíma og hélt það væri skiljanlegt.

30. Ég er að vinna í heimahjúkrun. Var að fara í lyftu hitti þar skjólstæðing minn og var samferða honum niður á leið. Tekur hann um kinnarnar á mér og kyssir mig beint á munninn. Það skal tekið fram að hann er ekki með heilabilun. Svo sagði hann ”við þekkjumst svo vel“. Fer ég reglulega til hans út af hans sjúkdóm. Fannst mér þetta ekki í lagi.

31. Aðstandandi skjólstæðings er beðinn um að yfirgefa deildina fyrir nóttina. Ofbeldismaður. Hann eltir mig um deildina með hótanir og formælingar. Vinnufélagar þora ekki að láta mig ganga eina um ganga deildarinnar. Ég læt hann vita að þessi framkoma sé ekki við hæfi og að ég muni kalla á lögregluna, yfirgefi hann ekki deildina fyrir klukkan 23:00. Hann yfirgefur deildina. Hringir heim til yfirmanns stofnunarinnar og kvartar yfir framkomu minni. Yfirmaður talar við deildarstjóra á minni deild og ég er beðin um að biðja manninn afsökunar. Það gerði ég ekki. Málið er skoðað ofan í kjölinn og endaði með því að aðstandandinn  gaf deildinni sjónvarp. Hann hefur líklega séð eftir upphlaupinu.

32. Pantaði tíma hjá karlkyns lækni sem ég þekkti ekki og hann spyr hvar ég sé að vinna þegar hann kemst að því að ég sé hjúkrunarfræðingur. Ég segi honum það og hann segir mér að í „gamla daga“ þegar hann var að vinna á spítalanum var næsta deild við mína deild uppáhalds deild allra læknanna því þar voru hjúkkurnar með svo góð og flott brjóst.

33. Hafði verið á formlegum stofugangi að ræða við sjúkling ásamt sérfræðilækni og deildarlæknum og sérfræðilæknirinn segir við sjúklinginn, eldri mann „Þú ert heppinn að hafa svona sæta stelpu að stjana við þig“ og leyfði mér ekki að komast að til að ræða meðferð sjúklingsins. Þar gerði hann lítið úr mér fyrir framan alla. Mér leið illa og fann að hann leit ekki á mig sem fagmann eða jafningja eða vildi heyra hvað ég hefði að segja

34. Hef mikið hugsað hvort ég ætti að skrifa hér inn. Þar sem eitthvern vegin skrifar maður þetta ekki á kynferðisáreitni
Var að setja upp æðalegg hjá ungum manni. Sit fyrir framan hann og set hendina á honum á lærið á mér. Þetta gekk illa og var erfitt að finna nothæfa æð. Segir sjúklingur þá ”Kannski poppa þær upp ef ég verð svolítið æstur“ og byrjar að hreyfa hendina a lærinu. Ég tek fast í hendina brosi vandræðalega og kem upp legg og fer.

35. Var i vinnunni og þar bendir deildarlæknir mér á að ég sé í full mikið sexy nærfötum fyrir vinnuna. Það sem sagt sást i nærbuxurnar í gegnum vinnufatnaðinn. Eftir þetta er ég í síðum bolum innan undir.

36. Langar að koma með smá nafnlaust innlegg í kjölfarið á þræðinum þar sem rætt var um ástæður þess að við erum ekki að drita inn sögum. Ég held að það sé stundum erfitt að lýsa því nákvæmlega hvað kom upp á. Ég hef ekki upplifað kynferðislegt ofbeldi/áreitni frá samstarfsfólki. Aftur á móti hef ég upplifað að karlkyns samstarfsmaður virði mig ekki viðlits í samstarfi okkar. Ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að lýsa því betur. Ég varð mjög sár, reið og óörugg með mig sem hjúkrunarfræðing í smá tíma á eftir. Ég íhugaði að skipta um deild eða jafnvel hætta að starfa við hjúkrun. En eftir að hafa rætt þetta mikið við samstarfsfólk komst ég yfir þetta atvik. Kannski hefur viðkomandi ekki hugmynd um hvernig ég upplifði hans framkomu, kannski var hann líka að bugast undan álagi, kannski er þetta bara hans persónuleiki …en mín upplifun var vanvirðing sem á aldrei rétt á sér.
Svo að öðru…. Hef oft lent í áreitni frá sjúklingum og hef nefnt þetta við aðra hjúkrunarfræðinga. Fékk þau svör að ég ætti eftir að venjast þessu…. Er það?? Á ég bara að venjast þessu??

37. Er með nokkuð stór brjóst. Var að sinna eldri sjúkling og aðstandandi segir. ”Maður hefur allavega gott útsýni hérna yfir svalirnar“
Ég brosti og forðaði mér út.

38. Vann á deild þar sem alloft vorum við með sjúklinga sem þurftu yfirsetu. Einn sem vann i yfirsetu þekkti mig síðan úr grunnskóla. Hann byrjaði að senda mér sms i tíma og ótíma. Elti mig um gangana. Elti mig heim og sendi mér svo bréf heim til mín. Beið eftir mér eftir vaktir því eitthvern veginn komst hann að því hvenær eg var að vinna. Spurði mig hvort það skemmtilegasta sem ég gerði væri neðan þvottur á sjúklingum.
Hann vissi alltaf hvar ég var á deildinni og á daginn. Eitt skiptið stóð ég inn i lyfjaherbergi og tók um bakið fékk sms strax ”er þér illt i bakinu ég get nuddað það“
Endað þannig að ég lét hans yfirmann vita og þetta hætti smá saman en stóð yfir í 4 mánuði í heild.

39. Fyrir bráðum 6 árum síðan skrifaði ég grein á Vefritið um kynferðislega áreitni á Landspítalanum. Greinin vakti töluverða athygli og var meðal efnis fréttatímanna þá vikuna. Viðbrögðin létu að sjálfsögðu ekki á standa. 
Það var til dæmis skrifuð grein um hvað ég væri fáránleg og í hundraðavís af kommentum var ýmist sagt að útlits míns vegna gæti ég ekki ætlast til annars en slíkrar áreitni eða að ég þyrfti augljóslega bara að láta ríða mér. Innan spítalans heyrði ég fleiri en eina og fleiri en tvær sögur af því að það væri talað um á kaffistofunum hvað ég væri athyglissjúk, ég kynni ekki að þegja og að ég væri óþolandi. Karlkyns læknum, samstarfsfólki mínu á hverjum degi, fannst voða fyndið að segjast ekki þora að segja neitt við mig af ótta við að ég færi með það í fréttirnar.
Ég var búin að gleyma að ég hefði skrifað þessa grein og mundi ekki eftir henni fyrr en ég fór að reyna að komast að því afhverju ég fékk kvíðahnút í magann við að lesa allar þessar frásagnir kvenna.

En svo mundi ég. Svo mundi ég hvað ég tók þetta allt nærri mér. Hvernig mig aldrei grunaði að þessi grein myndi gera aðra hjúkrunarfræðinga reiða við mig. Hvað ég var beygð eftir þetta.

Ég held reyndar að þetta hafi verið í síðasta skipti sem ég lét í mér heyra. Nokkrum mánuðum seinna flutti ég frá Íslandi, að hluta til vegna þess að mér leið eins og ég hefði verið sett í skammarkrókinn og það væri ekki annað í stöðunni en að byrja upp á nýtt, á nýjum stað.

Ég er svo glöð og mér er svo létt að tímarnir séu breyttir. Að það sé jarðvegur fyrir þessa umræðu og þannig löngu tímabærar breytingar. Að konur upplifi valdeflingu við að segja sögurnar sínar en ekki niðurlægingu. 
Kvennasamstaða er svo mögnuð og svo sterk!
Hérna fyrir neðan er greinin. Mér finnst hún vera góð og í fyrsta skipti finn ég fyrir stolti yfir að hafa skrifað hana.

Áfram stelpur!
#iskuggavaldsins #tjaldiðfellur

„Gakktu fyrir framan mig, svo ég geti séð þig dilla rassinum“

Þrátt fyrir stuttan starfsaldur innan heilbrigðiskerfisins er ég löngu hætt að geta talið hversu oft ég hef verið klipin, strokin eða kynferðislegar athugasemdir hafa fallið þegar ég vinn vinnuna mína. Þess vegna kom mér mjög á óvart þegar ég sá niðurstöður starfsumhverfiskönnunar sem gerð var á Landspítala árið 2010. Þar kom í ljós að aðeins um 5% hjúkrunarfræðinga töldu að á áðurliðnum 12 mánuðum hefðu þeir orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu sjúklinga eða aðstandenda.
Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi tala ótrúlega lág og ég vildi óska að mér þætti það hversu lág hún er vera gleðiefni. Hún er nefnilega alls ekki í samræmi við mína reynslu og upplifun mína af reynslu samstarfskvenna minna. Heiti þessarar greinar er tilvitnun í sjúkling, sjúkling sem ég hafði nýlega gefið verkjalyf og ógleðistillandi lyf, sjúkling sem ég hafði skipulagt og framkvæmt hjúkrunarmeðferð á til þess að hann kæmist aftur til heilsu eftir stóra aðgerð.
Mér finnst þessi tala benda til þess að innan hjúkrunarfræðinnar sé það hér um bil samþykkt að láta kynferðislegar athugasemdir sem vind um eyru þjóta, láta eins og strokur og káf eigi sér ekki stað. Eða láta í það minnsta nægja að hrista höfuðið yfir því inni á vaktherbergi. Mér virðist mörk þeirrar hegðunar sem yfirleitt er samþykkt vera ansi langt frá því sem eðlilegt getur talist.
„Ertu að láta þessar kellingar hlusta þig? Þú átt nú bara að láta þær nudda þig!“… sagði karlkyns sérfræðilæknir við sjúkling þegar hjúkrunarfræðingur sinnti starfi sínu, sem meðal annars felst í því að gera heildrænt mat á mismunandi líffærakerfum líkamans og bregðast við breytingum sem verða á þeim. Dæmin um kvenfyrirlitingu, sem oft hafa einnig kynferðislega skírskotun, eru alltof mörg.
Kvenfyrirlitning birtist ekki bara í beinlínis niðrandi og ógeðfeldum athugasemdum við konur, líkamlegri áreitni og jafnvel ofbeldi. Hún birtist einnig í almennu virðingarleysi, almennri orðræðu sem endurspeglar kerfisbundna undirokun kvenna, undirokun sem birtist á mjög áþreifanlegan hátt í launamun kynjanna.
Það þarf ekki að undra að innan heilbrigðiskerfisins lifi kvenfyrirlitning góðu lífi. Þar eru stórir vinnustaðir þar sem starfar þverskurður af lögum samfélagsins og goggunarröðin á sér djúpar rætur og má vera öllum ljós. Einnig eru margar fagstéttir karla- og kvennastéttir, þó að vissulega sé það á undanhaldi.
Þegar ég fussaði og sveiaði yfir þessari athugasemd læknisins sagði samnemandi minn við mig að það væri alveg ótrúlegt hvað ég, femínistinn, lenti oft í því að verða vitni að atvikum sem þessum. Ég er hins vegar sannfærð um að það sé misskilingur að ég verði oftar en aðrir vitni að svona atburðum. Munurinn er sá að ég tek eftir þessu, vegna þess að ég er með augu og eyru opin.

Orðræða og völd
Það er þægilegra að taka ekki eftir kvenfyrirlitningunni. Það er þægilegra að horfast ekki í augu við þá vanvirðingu sem felst í því þegar miðaldra karlmenn kalla á mann með orðunum „heyrð’eskan“ en að bregðast við henni með einhverjum hætti. Þess vegna telur maður sjálfum sér trú um að þetta sé nú eiginlega bara krúttlegt. Og auðvitað meinar enginn neitt illt með þessum orðum. En þau hafa samt áhrif.
Við verðum að gera okkur grein fyrir hvaða áhrif orðræða sem þessi hefur. Orðræða sem er manni ósýnileg þangað til maður fer að rýna í hana. Orðræða sem bæði er afsprengi valdaójafnvægis og stuðlar að viðgangi þess. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vera vakandi fyrir henni og bregðast við. Öðruvísi verður ekki undið ofan af ójafnvæginu sem hamlar því að raunverulegt jafnrétti náist.

40. Atvik á erlendri stofnun.
Karlkyns sjúkraliði gat ekki fyrir sitt litla líf munað eftir sínum eigin pennum. Þegar við unnum saman fann hann sér alltaf ástæðu til að fá penna hjá mér… sem hefði verið í lagi ef hann hefði ekki nýtt tækifærið til að hjálpa sér sjálfur í brjóstvasann og strjúka eftir brjóstinu um leið. Ég ákvað að þegja því karlmenn eru svo verðmætir í þessum störfum og ég var bara að hlaupa í skarðið. Ég veit að það vantar karlmenn, en eigum við ekki að finna þá sem hegða sér eins og siðmenntað fólk?

41. Ég var nýráðin á nýjan vinnustað. „Ertu eitthvað búin að lenda í honum XX?“ var ég spurð nokkrum sinnum úti í bæ af þeim sem þekktu til og alltaf var eins og bland af spennu og eftirvæntingu í rödd þess sem spurði hverju sinni. Þegar ég neitaði því voru mér sagðar sögur af þessum lækni, sérfræðingi, sem væri víst alveg frábær í sínu fagi sagði fólk og hafði bjargað mörgum, en hann væri svo „agalegur við hjúkkurnar“ og að þær væru grátandi undan honum. Sagt í hæðnistón rétt eins og fólkið hefði í aðra röndina gaman að þessu. Og þó samt í aðra röndina fram af því gengið. Svo hitti ég XX í fyrsta skipti. Ég var lokuð inni í litlu aðgerðarherbergi með honum, karlkyns skjólstæðingi og karlkyns aðstandanda hans og átti að vera sérfræðingnum til aðstoðar. Þó ég væri reyndur hjúkrunarfræðingur var ég nýbyrjuð á þessum vinnustað, var þarna í þessu herbergi í fyrsta skipti, bæði óvön því verki sem var verið að framkvæmja og auk þess hvar allt væri geymt. Að mati sérfræðingsins vann ég ekki nógu hratt og vissi ekki neitt. Hann talaði um mig í þriðju persónu við karlana, kallaði mig meðal annars „þetta“ – „sko, sjáið hvernig þetta vinnur, þetta getur ekki einu sinni fundið það sem hún á að finna“ og hæddist að mér og kvenfólki yfirleitt. Ættingjanum leið augljóslega mjög illa undir þessu, reyndi að segja að konur væru fínar eða eitthvað á þá leið mér til varnar en vanlíðan hans kom sérfræðingnum ekkert við heldur espaði hann frekar ef eitthvað var. Það endaði með því að aðstandandinn sagðist ekki geta setið undir þessu og yfirgaf herbergið. Ég lauk verkinu með dúndrandi hjartslætti og leið hræðilega en með það í huga að ekki yrði hægt að klaga mig fyrir að yfirgefa sjúklinginn. 
Strax og þessu var lokið kallaði ég hjúkrunarforstjórann á minn fund og sagðist ekki vita á hvaða plani þessi vinnubrögð væru eiginlega á stofnuninni en ég tæki ekki þátt í þessu, ég ynni ekki með þessum manni. Þetta væri heldur ekki í fyrsta skipti sem hann kæmi svona fram, ég væri búin að heyra nógu margar sögur úti í bæ þar sem væri hæðst að því að „hjúkkurnar grétu víst undan honum“ og að það væri tími til kominn að stoppa hann af. Hjúkrunarforstjórinn vissi alveg af því en var úrræðalaus og spurði mig hvort hún ætti að tala við hann. Ég sagði að auðvitað yrði hún að gera það. Ég bað hana líka sérstaklega um að tala við vitnið (aðstandandann, hann vann líka á stofnuninni) og fá sögu mína staðfesta því ég gerði mér strax vel grein fyrir hve ótrúleg völd þessi sérfræðingur hafði í krafti stöðu sinnar. Hann var stofnuninni mikilvægur og hafði greinilega í skjóli þess getað hagað sér nákvæmlega eins og honum datt í hug. Og hugur hans var ekki fallegur. 
Löngu síðar kom að því að ég átti aftur að aðstoða hann við verk en neitaði því þá og kallaði til annan starfsmann til að vinna með honum. Það var þá fyrst sem sérfræðingurinn frétti af því að ég hefði kvartað undan honum og neitað að starfa með honum. Það hafði sem sagt aldrei verið rætt við hann. Það kom líka í ljós að það hafði heldur ekki verið rætt við vitnið til að fá frásögn mína bakkaða upp eins og ég hafði þó sérstaklega beðið um að yrði gert. Það er skemmst frá því að segja að sérfræðingurinn fékk brjálæðiskast þegar hann frétti að ég hefði kvartað, æddi um og öskraði yfir heila biðstofu hver andskotinn væri að mér og að hann hefði aldrei gert mér neitt. Ef það væri það sem væri að að hann hefði sagt að ég væri feit þá væri það allt í lagi því ég væri alltof feit. (Það hafði hann reyndar aldrei minnst á við fyrrnefnt atvik og konan nálægt kjörþynd, þó það komi auðvitað málinu ekki við). Allt titraði innanhúss, fólk hvíslaði að mér stuðningsorðum í hinum og þessum hornum en yfirfólkið var enn í vanda og vissi ekki enn hvað átti að gera. Ég frontaði sérfræðinginn þegar ég mætti honum daginn eftir, lagði hönd á upphandlegg hans og sagði honum að ég vildi að hann vissi að það væri ekki við mig að sakast að hann hefði ekki vitað af kvörtun minni. „Nú hvernig í andskotanum átti ég að vita af þessu þá?“ öskraði hann alveg trylltur og sagði honum yfirvegað að hann skyldi spyrja sína yfirmenn að því. Honum var greinilega dauðbrugðið og gekk hvæsandi burtu. Ein kona, starfsmaður, varð vitni að þessu og ég orðaði við hana að hún væri vitni að þessari framkomu hans við mig og öskrunum. Hún sagðist bara ekki alveg hafa tekið eftir þessu, hefði verið svo niðursokkin í blaðið. Svo hrædd var hún við að framkomu sérfræðingsins að hún gat ekki viðurkennt að hafa heyrt í honum öskrin, sitjandi þrjá metra frá okkur. Það sagði mér meira en mörg orð um ástandið og hve lengi þar var búið að fá að vinda upp á sig. Og eftir þetta var áfram allt strand, yfirmenn enn óvissir hvort ég gæti neitað að vinna með honum. Það var eins og það væri aldrei inni í myndinni að maðurinn þyrfti að kunna að haga sér. 
Þegar ég fann hvernig landið lá leitaði ég til trúnaðarmanns. Til þess eins að komast að því að sérfræðingurinn hafði verið miklu ruddalegri við hana en mig. Og það ítrekað. Meðal annars klámfengnar athugasemdir og aðdróttanir um að maðurinn hennar gæti greinilega ekki fullnægt henni. Sagt yfir sjúklingi sem lá milli þeirra á skoðunarbekk. Og hún komst hvergi, sjúklingsins vegna. Og ég og hún vorum auðvitað ekki þær einu sem höfðum staðið undir því andlega  ofbeldi sem frá honum kom. 
Að minni beiðni leitaði trúnaðarmaðurinn til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, það þurfti sem sagt aðkomu þeirra og hótun um aðkomu Vinnuefitlitsins til þess að sérfræðingurinn fengi tiltal. Sem auðvitað breytti litlu enda vandinn búinn að fá að vaxa árum saman og orðinn eins og ókleift fjall. Ég fann til með stjórnendunum og átti við þau gott samtal um þetta. Ég áttaði mig á hve gríðarlega mikilvægt það er annars vegar að taka á því strax í fyrsta skipti sem svona framkoma á sér stað og hins vegar hve mikilvægt það er að til sér farvegur, vinnureglur og úrræði þegar svona kemur upp. Því þegar einhver fer svona hressilega yfir öll siðferðileg mörk í krafti valds síns missa allir pínu máttinn. Þá er gott að hafa skýra stefnu þar sem blasir við að svona verður ekki liðið og að til séu úrræði og farvegur fyrir málið að fara í, svo ekki þurfi að finna upp hjólið í hvert skipti. Því við getum öll rétt ímyndað okkur hve mikið svona framkoma eins manns getur skemmt starfsanda og holað traust niður í ekki neitt. Og miðað við spurningarnar sem ég fékk frá fólki úti í bæ sem ég sagði frá hér í upphafi þá vissi samfélagið meira og minna allt af þessu. Ég vona að öllum sé hætt að þykja þetta fyndið og/eða eitthvað til að hafa í flimtingum.

42. Ég var einu sinni hjá sjúklingi. Það voru aðstandendur í heimsókn. Inn kemur konan sem vinnur í býtibúrinu og færir þeim kaffi. Þegar hún snýr sér við og labbar út þá segir sjúklingurinn – þvílíkur skutur á þessari, mætti kalla hana skuttogara! Hann átti sem sagt við rassinn á henni. Ég fór að hlæja og aðstandendur fóru að hlæja. Ég vissi ekki betur, ég vissi ekki að ég var þarna hluti af einhverri ógeðslegri menningu þar sem má hlutgera konur. Ég hreinlega vissi ekki að það væri hægt að gera eitthvað annað en að hlæja og spila með. 
Það er aldeilis komin tími til að útrýma þessari ofbeldismenningu. #höfumhátt

43. Hvítu slopparnir, gott þeir eru ekki lengur í notkun. Forstjóri hér í bæ sem nú er látinn læddi hönd sinni upp undir sloppinn og strauk læri mín. Ég lét sem ekkert væri en settist ekki oftar á rúmstokkinn hjá honum þegar ég hjúkraði honum. Hann lá inni eftir aðgerð en atvikið gleymist ekki.

44. Ég var nýráðin á nýjan vinnustað. „Ertu eitthvað búin að lenda í honum XX?“ var ég spurð nokkrum sinnum úti í bæ af þeim sem þekktu til og alltaf var eins og bland af spennu og eftirvæntingu í rödd þess sem spurði hverju sinni. Þegar ég neitaði því voru mér sagðar sögur af þessum lækni, sérfræðingi, sem væri víst alveg frábær í sínu fagi sagði fólk og hafði bjargað mörgum, en hann væri svo „agalegur við hjúkkurnar“ og að þær væru grátandi undan honum. Sagt í hæðnistón rétt eins og fólkið hefði í aðra röndina gaman að þessu. Og þó samt í aðra röndina fram af því gengið. Svo hitti ég XX í fyrsta skipti. Ég var lokuð inni í litlu aðgerðarherbergi með honum, karlkyns skjólstæðingi og karlkyns aðstandanda hans og átti að vera sérfræðingnum til aðstoðar. Þó ég væri reyndur hjúkrunarfræðingur var ég nýbyrjuð á þessum vinnustað, var þarna í þessu herbergi í fyrsta skipti, bæði óvön því verki sem var verið að framkvæmja og auk þess hvar allt væri geymt. Að mati sérfræðingsins vann ég ekki nógu hratt og vissi ekki neitt. Hann talaði um mig í þriðju persónu við karlana, kallaði mig meðal annars „þetta“ – „sko, sjáið hvernig þetta vinnur, þetta getur ekki einu sinni fundið það sem hún á að finna“ og hæddist að mér og kvenfólki yfirleitt. Ættingjanum leið augljóslega mjög illa undir þessu, reyndi að segja að konur væru fínar eða eitthvað á þá leið mér til varnar en vanlíðan hans kom sérfræðingnum ekkert við heldur espaði hann frekar ef eitthvað var. Það endaði með því að aðstandandinn sagðist ekki geta setið undir þessu og yfirgaf herbergið. Ég lauk verkinu með dúndrandi hjartslætti og leið hræðilega en með það í huga að ekki yrði hægt að klaga mig fyrir að yfirgefa sjúklinginn. 
Strax og þessu var lokið kallaði ég hjúkrunarforstjórann á minn fund og sagðist ekki vita á hvaða plani þessi vinnubrögð væru eiginlega á stofnuninni en ég tæki ekki þátt í þessu, ég ynni ekki með þessum manni. Þetta væri heldur ekki í fyrsta skipti sem hann kæmi svona fram, ég væri búin að heyra nógu margar sögur úti í bæ þar sem væri hæðst að því að „hjúkkurnar grétu víst undan honum“ og að það væri tími til kominn að stoppa hann af. Hjúkrunarforstjórinn vissi alveg af því en var úrræðalaus og spurði mig hvort hún ætti að tala við hann. Ég sagði að auðvitað yrði hún að gera það. Ég bað hana líka sérstaklega um að tala við vitnið (aðstandandann, hann vann líka á stofnuninni) og fá sögu mína staðfesta því ég gerði mér strax vel grein fyrir hve ótrúleg völd þessi sérfræðingur hafði í krafti stöðu sinnar. Hann var stofnuninni mikilvægur og hafði greinilega í skjóli þess getað hagað sér nákvæmlega eins og honum datt í hug. Og hugur hans var ekki fallegur. 
Löngu síðar kom að því að ég átti aftur að aðstoða hann við verk en neitaði því þá og kallaði til annan starfsmann til að vinna með honum. Það var þá fyrst sem sérfræðingurinn frétti af því að ég hefði kvartað undan honum og neitað að starfa með honum. Það hafði sem sagt aldrei verið rætt við hann. Það kom líka í ljós að það hafði heldur ekki verið rætt við vitnið til að fá frásögn mína bakkaða upp eins og ég hafði þó sérstaklega beðið um að yrði gert. Það er skemmst frá því að segja að sérfræðingurinn fékk brjálæðiskast þegar hann frétti að ég hefði kvartað, æddi um og öskraði yfir heila biðstofu hver andskotinn væri að mér og að hann hefði aldrei gert mér neitt. Ef það væri það sem væri að að hann hefði sagt að ég væri feit þá væri það allt í lagi því ég væri alltof feit. (Það hafði hann reyndar aldrei minnst á við fyrrnefnt atvik og konan nálægt kjörþynd, þó það komi auðvitað málinu ekki við). Allt titraði innanhúss, fólk hvíslaði að mér stuðningsorðum í hinum og þessum hornum en yfirfólkið var enn í vanda og vissi ekki enn hvað átti að gera. Ég frontaði sérfræðinginn þegar ég mætti honum daginn eftir, lagði hönd á upphandlegg hans og sagði honum að ég vildi að hann vissi að það væri ekki við mig að sakast að hann hefði ekki vitað af kvörtun minni. „Nú hvernig í andskotanum átti ég að vita af þessu þá?“ öskraði hann alveg trylltur og sagði honum yfirvegað að hann skyldi spyrja sína yfirmenn að því. Honum var greinilega dauðbrugðið og gekk hvæsandi burtu. Ein kona, starfsmaður, varð vitni að þessu og ég orðaði við hana að hún væri vitni að þessari framkomu hans við mig og öskrunum. Hún sagðist bara ekki alveg hafa tekið eftir þessu, hefði verið svo niðursokkin í blaðið. Svo hrædd var hún við að framkomu sérfræðingsins að hún gat ekki viðurkennt að hafa heyrt í honum öskrin, sitjandi þrjá metra frá okkur. Það sagði mér meira en mörg orð um ástandið og hve lengi þar var búið að fá að vinda upp á sig. Og eftir þetta var áfram allt strand, yfirmenn enn óvissir hvort ég gæti neitað að vinna með honum. Það var eins og það væri aldrei inni í myndinni að maðurinn þyrfti að kunna að haga sér. 
Þegar ég fann hvernig landið lá leitaði ég til trúnaðarmanns. Til þess eins að komast að því að sérfræðingurinn hafði verið miklu ruddalegri við hana en mig. Og það ítrekað. Meðal annars klámfengnar athugasemdir og aðdróttanir um að maðuirnn hennar gæti greinilega ekki fullnægt henni. Sagt yfir sjúklingi sem lá milli þeirra á skoðunarbekk. Og hún komst hvergi, sjúklingsins vegna. Og ég og hún vorum auðvitað ekki þær einu sem höfðum staðið undir því andlega ofbeldi sem frá honum kom. 
Að minni beiðni leitaði trúnaðarmaðurinn til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, það þurfti sem sagt aðkomu þeirra og hótun um aðkomu Vinnuefitlitsins til þess að sérfræðingurinn fengi tiltal. Sem auðvitað breytti litlu enda vandinn búinn að fá að vaxa árum saman og orðinn eins og ókleift fjall. Ég fann til með stjórnendunum og átti við þau gott samtal um þetta. Ég áttaði mig á hve gríðarlega mikilvægt það er annars vegar að taka á því strax í fyrsta skipti sem svona framkoma á sér stað og hins vegar hve mikilvægt það er að til sér farvegur, vinnureglur og úrræði þegar svona kemur upp. Því þegar einhver fer svona hressilega yfir öll siðferðileg mörk í krafti valds síns missa allir pínu máttinn. Þá er gott að hafa skýra stefnu þar sem blasir við að svona verður ekki liðið og að til séu úrræði og farvegur fyrir málið að fara í, svo ekki þurfi að finna upp hjólið í hvert skipti. Því við getum öll rétt ímyndað okkur hve mikið svona framkoma eins manns getur skemmt starfsanda og holað traust niður í ekki neitt. Og miðað við spurningarnar sem ég fékk frá fólki úti í bæ sem ég sagði frá hér í upphafi þá vissi samfélagið meira og minna allt af þessu. Ég vona að öllum sé hætt að þykja þetta fyndið og/eða eitthvað til að hafa í flimtingum.

45. Ég var á næturvakt og hafði í ýmsu að snúast. Um nóttina svaraði ég bjöllu hjá manni sem hafði verið í aðgerð. Hann var á besta aldri og allt hafði gengið vel. Ég hafði undirbúið hann fyrir aðgerðina og hjúkrað honum á einni morgunvakt áður en ég kom svo á þessa næturvakt. Maðurinn hafði komið vel fyrir, það gekk vel að undirbúa hann og fræða, fullt traust fannst mér og nú sagði hann að það væri „eitthvað að þarna niðri“. Ég lyfti sænginni og sá þá að hann hafði dregið niður um sig nærbuxurnar og lá þarna berrassaður með liminn pinnstífan. Ég leit af limnum framan í manninn sem lá þá þarna glottandi á koddanum. Kannski ekki stórt eða alvarlegt atvik en hvernig getur nokkrum heilvita manni, sem virðist funkera bara eðlilega annars, rekið eigið fyrirtæki o.s.frv., dottið þetta í hug? Og ekki bara dottið í hug heldur framkvæmt? Hann ákvað að gera þetta og snérist aldrei hugur. Hann hefði getað hætt við eftir að hann hringdi bjöllunni, eftir að hann sá mig koma inn á stofuna, eftir að ég spurði hvort ekki væri allt í lagi. En nei, ekki á neinum þessara tímapunkta hætti hann við, heldur valdi að taka gjörninginn alla leið. Sem þiggjandi faglegrar heilbrigðiþjónustu á kostnað okkar allra, gaf hann með þessu þeirri sömu heilbrigðisþjónustu að mínu mati langt nef. Já eða auðvitað réttara sagt langan lim! „Iss, þetta er nú ekkert!“ gæti einhver hugsað. En þetta er nefnilega hellingur og það vitum við ef viðmið okkar eru ekki orðin of bjöguð og meðvirk. Segjum að maðurinn væri þiggjandi einverrar annarrar þjónustu, hvar sem er í samfélaginu, hefði þótt í lagi að hann girti niður um sig og sýndi glottandi á sér stífan liminn? Af hverju ættum við sem vinnum í heilbirgðiskerfinu frekar að láta þetta yfir okkur ganga? Þetta voru mér ótrúleg vonbrigði þarna á sínum tíma enda hrundi þarna á einu augnabliki allt sem hafði verið byggt upp í gegnum traust meðferðarsamband. Ég var engan veginn undirbúin fyrir neitt þessu líku, ekkert í náminu hafði undirbúið mig fyrir þetta, engin umræða í starfinu hafði undirbúið mig fyrir þetta, hvað þá að ég vissi hvernig ég ætti að bregðast við eða að tilkynna þetta og satt best að segja trúði ég varla þegar ég vaknaði daginn eftir að þetta hefði í alvörunni gerst, svo fráleit fannst mér þessi hegðun. Ég marg fór yfir hvað ég hefði gert rangt, hvernig ég hefði gefið honum þannig skilaboð að þau leiddu til þessa atviks. Og ræddi þetta ekki við nokkurn mann. Ég hugsa eftir á á að hyggja að ekki hefði verið brugðist við með neinum öðrum hætti en þeim að allir „pössuðu sig á manninum“ og þess beðið að hann útskrifaðist, hefði ég látið einhvern vita af þessu. Nú þegar ég rifja þetta upp velti ég fyrir mér hve miklum skaða þessi maður gæti hafa verið búinn að valda í sínu nærumhverfi, fyrst honum datt í hug að þetta væri í lagi þegar hann leitaði sér hjálpar í heilbrigðiskerfinu? Það er magnað að nú skuli loksins búið að taka lokið af kynferðisáreitnipottinum svo viðbjóðurinn geti soðið upp úr og blasað við okkur öllum. Það er forsenda þess að við getum breytt viðhorfum, viðmiðum og viðbrögðum. Því fleiri reynslusögur sem verða sagðar hér í þessum hópi okkar, þeim mun fleiri bita fáum við í púsluspilið og sjáum hve innbyggt í geirann okkar þetta er, eins og annars staðar í samfélaginu. Hjálpumst að við að skapa betra starfsumhverfi án áreitni, ofbeldis og misnotkunar af hvaða tagi sem hún er.

46. Ætlar engin ykkar að tala um hvernig læknar sem missa leyfið eru ”endurhæfðir“? Þeim er gjarnan komið fyrir sem deildarlæknum á stofnunum innan spítalans og fæstir vita um bakgrunn þeirra. Við erum ekki bara að tala um lyfjamisferli heldur líka kynferðislega misnotkun af öllu tagi. Þöggunin er alger og þeir fá annað ”tækifæri“ til að brjóta af sér innan um grunlausar kvennastéttirnar.(Er að tala um árin fyrir hrun, veit ekki hvernig þetta er n’una) Aðeins stjórnendur og þeirra nánasti hringur veit um fortíð þessara einstaklinga. Ég lenti persónulega í einum þeirra og ég tek skýrt fram að ég axla fullkomlega ábyrgð á heimsku minni en það firrir ekki aðra ábyrgð. Kynntist þarna manni sen sagðist vera í frjálsu og opnu hjónabandi eins og hann orðaði það svo skemmtilega sem var á þeim tíma í góðu lagi fyrir mig, var ekki í makaleit. Ég hitti manninn nokkrum sinnum en þá var orðið alveg ljóst að að maðurinn var mjög brenglaður kynferðislega og áfengis og lyfjafíkill að auki.Meðal annars mun hann hafa dreift sögum og hugsanlega einhverju fleiru til kolleganna sem svo deifðu skítnum samviskusamlega um alla stofnun. Ótrúlegasta fólk taldi sig hafa leyfi til að láta mig heyra hvað ég væri slæm kona og mikil drusla, sem dæmi þá hvæsti eiginkona eins stjórnandans á mig á förnum vegi hvort ég skammaðist mín ekki?Og að minnstakosti tveir deildarstjórar sáu ásæðu til að nefana það við mig í óspurðum fréttum hversu ” slæm “ kona ég væri.Í þessa sögu vantar ýmislegt sem ekki á erindi hér sérstaklega í ljósi þess að sumar af konum þeim sem stóðu að druslusstimpluninni eru hér í þessum hóp Finnst það bara svo sláandi þegar ég hugsa til baka hvernig þessi maður var hvítþveginn af eigin gjörðum en ég/við, því ég var svo sannarlega ekki sú eina sem sem lenti í honum áttum að skammast okkar og vorum úthrópaðar af samstarfsfólki.

47. Eftir að hafa starfað á LSH hálfa æfina kemur sannarlega margt upp í hugann þegar talað er um kynferðislega áreitni. Fannst eiginlega erfiðast þegar starfsfólkið mitt (var deildarstjóri) varð fyrir barðinu á þessu. Konan sem fékk penna milli brjóstanna í matsalnum, komment á hve sexí þú ert þegar þú ert að koma með áríðandi upplýsingar inn á fund á deild- bara ekkert hægt að hlusta á hvað þú ert að segja. Stanslaus óviðeigandi skilaboð frá ákveðnum körlum, og allskonar sem ég get ekki sagt frá þar sem ég er bundin trúnaði. Bara hluti af mínu starfsfólki á sjúkrahúsinu var fagmenntað og ég held að ”í skugga valds“ séum við enn að koma mun verr fram við konur með ”lægri stöðu“ innan spítalans. Ég marglenti í allskonar svoleiðis sjálf þegar ég var ung og vann með námi í allskonar hlutverkum. Óttast að það sé ekki svo mikið breytt.

48. Var á vaktinni fyrir stuttu. Teymið var búið að vinna allan daginn og þreyta komin í fólk. Í hita leiksins berst umræðan launum og launakjörum hjá hjúkrunarfræðingum og læknum, eins og svo oft áður. Þá segir vakthafandi sèrfræðilæknirinn, karl, að hjúkrun hafi fyrst og fremst verid hugsjónarstarf og að Florence Nightingale hafi sagt að konur sem ynnu við hjúkrun ættu ekki að þiggja laun, því ættum við hjúkrunarfræðingar bara vera þakklátar með að fá amk eitthvad borgað fyrir vinnuna okkar.

49. Ég er búin að vera ótrúlega lengi að velta því fyrir mér hvernig ég get komið því sem ég hef að segja niður á blað, eins stuttmiðað og hægt er. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur bara núna í vor, og það er ekki langur starfsferill að baki. En here it goes:
Niðrandi viðhorf í garð hjúkrunarfræðinema upplifði ég strax á fyrsta ári mínu í hjúkrunarfræði. Hjúkrunarfræðinemar og læknisfræðinemar voru samankomnir í skíðaferð á Akureyri, og ég ákvað að fara í kojufyllerí með læknanemum þar sem ég á marga vini þar. Ekki leið á löngu þar til umræðan beindist að því að gera grín af ”hjúkkuskvísunum“. Hjúkkuskvísunum. Einmitt. Góðlátlegt grín sem tókst samt að láta mér líða eins og ég ætti ekki að vera þarna, ég er ekki hluti af þeim.
Margir sérfræðingar kenndu mér og okkur í gegnum námið. Margir þeirra höfðu sömuleiðis niðrandi viðhorf í garð okkar. Fengum að heyra meðal annars að ”já það sem við vorum að fara yfir er of flókið fyrir ykkur, þið þurfið ekkert að læra þetta“ og ”þetta er svona fyrir lengra komna“, ”þið þurfið bara að vita þetta ef ske kynni að þið þurfið að aðstoða lækninn“. Af hverju ertu mættur til að kenna hjúkrunarfræðinemum ef þú ætlar bara að segja þeim að þeir séu ekki jafn góðir og klárir? Til að tryggja að við vitum hver hefur völdin frá upphafi? Nei bara spyr.
Klíníska námið. Hvar á ég að byrja. Samskipti við sérfræðilækna, deildarlækna, sjúklinga og skjólstæðinga. Mér hefur verið strokið svo ótrúlega oft um brjóstin, lærin, rassinn. Ég hef verið að beðin um að fróa einstaklingi sem ég var að aðstoða í bað. Sérfræðilæknir spyr mig um nærfatnaðinn minn. Ábendingar sem ég hef komið með varðandi meðferð skjólstæðinga eru hunsuð en svo fæ ég skipun um að gera nákvæmlega það sem ég stakk upp á, eftir að karlkyns læknir stakk upp á því. Umræður um launakjör mín. Ég á ekki skilið hærri laun, hjúkrun er lífsstíll, ég hef ekki nægilega menntun að baki til að sinna hinu og þessu.
Í kringum útskrift mína fór ég og árgangur minn í ”uppreisn“ og létum í okkur heyra varðandi kjaramál nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga. Meðal hluta sem ég fékk að heyra, meðal annars frá stjórnendum, var ”þú ert bara ung kona að stíga þín fyrstu skref á atvinnumarkaði, þú veist ekki betur“, ”ekki biðja um eitthvað sem þú veist ekkert um“, ”hugsaðu um öryggi sjúklinganna“, ”þú veist ekki hvernig þetta virkar“. Ég er svo ung og heimsk kona, hvað held ég eiginlega að ég sé?
Nú er ég útskrifuð og vil fara í framhaldsnám. Mig langar að verða ”nurse practitioner“, eða hjúkrunarfræðingur með útvíkkað starfssvið. En um leið og umræða um það sprettir upp í samfélaginu fer af stað undirskriftalisti frá sérfræðilæknum sem mótmælir þessu, og tilkynnir okkur að við höfum ekki nægilega þekkingu né menntun til að sinna þessu. Þrátt fyrir framhaldsnám sem veiti mér þessa þekkingu. Þrátt fyrir að þetta viðgengst út um allan heim. Þrátt fyrir stuðning frá rannsóknum. Okkur er ekki treystandi hér á Íslandi.
Þó ég sé orðin þreytt á þessu, mun ég samt svo aldeilis ekki hætta að láta í mér heyra, né berjast gegn þessu misrétti. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar hafa í svo ótrúlega langan tíma þurft að þola rugl og valdamisrétti innan heilbrigðiskerfisins. Nú eru mun fleiri konur að koma inn í læknastéttina og margt sem þær þurfa eflaust að takast líka á við.
Því tel ég núna vera tími fyrir okkur allar, allar konur í heilbrigðiskerfinu, að standa saman og láta í okkur heyra. Standa með hvor annarri, óháð stétt.

50. Eftir að hafa starfað á spítala hálfa æfina kemur sannarlega margt upp í hugann þegar talað er um kynferðislega áreitni. Fannst eiginlega erfiðast þegar starfsfólkið mitt (var yfirmaður) varð fyrir barðinu á þessu. Konan sem fékk penna milli brjóstanna í matsalnum, komment á hve sexí þú ert þegar þú ert að koma með áríðandi upplýsingar inn á fund á deild- bara ekkert hægt að hlusta á hvað þú ert að segja. Stanslaus óviðeigandi skilaboð frá ákveðnum körlum, og allskonar sem ég get ekki sagt frá þar sem ég er bundin trúnaði við starfsfólkið mitt. Bara hluti af mínu starfsfólki á sjúkrahúsinu var fagmenntað og ég held að ”í skugga valds“ séum við enn að koma mun verr fram við konur með ”lægri stöðu“ innan spítalans. Ég marglenti í allskonar svoleiðis sjálf þegar ég var ung og vann með námi í allskonar hlutverkum. Óttast að það sé ekki svo mikið breytt.

51. Þetta atvik gerðist erlendis, á bráðamóttöku geðdeildar. Ég var ein inni á skoðunarherbergi þar sem lögreglan hafði komið með karlmann undir áhrifum. Ég hafði áður haft afskipti af þessum manni og vissi að hann var óútreiknanlegur. Á deildinni sem ég var að vinna höfðum við þann vana að vera alltaf á milli sjúklings og útgönguleiðar. Þessi maður átti að fá forðalyf í vöðva, var undir áhrifum af fíkniefnum, hann var s.s. með meðferðardóm. Ég byrja á því að heilsa honum með nafni og spyr hvort hann viti af hverju hann sé komin þangað, hann hafði komið 1x mánuði í ca 2ár. Hann verður reiður og segir að nú þurfi hann að taka niður á sér buxurnar og geri það ekki nema ég geri það líka og byrjar að draga niður á sér buxurnar og gengur ákveðið á móti mér, tekur um kynfærin á sér og segir mér að fara úr buxunum. Mín viðbrögð voru að ég reiddist, talaði hátt og ákveðið að hann ætti ekki að láta svona og að hann vissi af hverju hann væri þarna. Það kemur fát á hann og hann hörfar, snýr sér við og segir að hann sé tilbúin. Ég skjálfhent og með hjartaslátt uppí háls, sprauta þennan mann í rassvöðva. Þegar ég kem út úr skoðunarherberginu ennþá titrandi af reiði gerði ég mér grein fyrir í hvaða stöðu ég var í hvað hefði geta gerst. 
Það var læknir í næsta herbergi sem hafði greinilega heyrt hvað okkar fór á milli og spurði hvort það væri í lagi með mig en lengi á eftir fékk ég ónotartilfinningu þegar þessi maður kom á vaktina og bað eftir þetta um að samstarfsfélagar væru með eyru við skoðunarherbergið ef ég fór þar inn.

52. En – hæhó – finnst okkur kannske þægilegra að tala um sjúklingana en samstarfsmennina? Sjálf man ég ekki eftir að hafa lent í neinu af hálfu samstarfsmanna, en veit dæmi um karlkyns yfirmann sem notar stöðu sína gagnvart konum, einkum ungum og óreyndum, æ ofan í æ. Ef konurnar þýðast hann ekki bíður þeirra ýmiss konar óþægileg reynsla, t.d. var ein þeirra fyrst lögð í einelti á deildinni, svo sagt upp, þ.e. ráðningarsamningur ekki endurnýjaður og loks spillt fyrir því að hún fengi sambærilega vinnu. Við erum að tala um vel menntaðan og reyndan hjúkrunarfræðing hér sem sætti þessarri meðferð. Það var eiginlega ómögulegt að finna aðra skýringu á eineltinu eða starfslokunum. Þessi maður er í starfi og mikils metinn af sínum yfirboðurum, þ.á.m. konum….. Konan kvartaði ekki, mjög skiljanlega þar sem fyrir lá fyrri reynsla af ýmiss konar kvörtunum um þennan yfirmann. Svo geta menn skrifað fögur orð um starfsmannastefnu og mannauð. Reyndin er bara önnur.

53. Vann á mjög andlega krefjandi deild fyrir mörgum árum með góðu samstarfsfólki. Það var fyrir tíma áfallahjálpar og enginn skipulagður, andlegur stuðningur við starfsfólk, var fyrir hendi. Við þessar aðstæður var oft gripið til gálgahúmors til að lifa daginn af. Óviðeigandi orðræða í hita leiksins sem særði stundum en skildi vonandi ekki eftir ör. Starfsfólkið studdi hvert annað eftir bestu getu. Makar studdu okkur á erfiðum stundum. Kulnun í starfi varð til þess að ég og margir aðrir skiptum um starfsvettvang og fórum að vinna við aðra sérgrein.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu