Vel sterk austurlensk kjúklinganúðlusúpa

Einn af mínum uppáhalds veitingastöðum er Noodle Station sem var á Skólavörðustíg en er núna kominn á Laugaveg auk þess að vera í Hafnarfirði. Þar fæ ég mér jafnan kjúklingasúpuna þeirra og er alltaf pínulítið sorgmædd þegar ég er búin úr skálinni, þetta er svo gott!

Í margar vikur hef ég hugsað um að útbúa mína eigin kjúklinganúðlusúpu og í kvöld lét ég loksins verða af þessu. Útkoman var í einu orði sagt frábær og ég er ákaflega hamingjusöm eftir kvöldverðinn jafnvel þó að ég hafi ekki komist með tærnar þar sem Noodle Station hefur hælana.

Hér er það sem ég gerði:

  • kjúklingalæri
  • gulrót
  • engifer
  • rautt chilli
  • hvítlaukur
  • sítrónublöð (jurt sem vex í glugganum hjá mér)
  • vorlaukur
  • sykur (gott að nota hrásykur, kókospálmasykur eða púðursykur)
  • kjúklingateningur
  • vatn
  • smá soyjasósa eða tamarinsósa
  • hrísgrjónanúðlur

Ég byrjaði á því að setja tvo kjúklingateninga frá Knorr í pott og einn líter af vatni og lét sjóða. Á meðan reif ég niður eina stóra gulrót og ca. 4 cm. af dálítið þykkri engiferrót. Því bætt ég út í pottinn. Þá saxaði ég niður einn meðalstóran rauðan chilli með fræjum, tvö hvítlauksrif og bætti í pottinn. Suðan hamaðist í pottinum og ég bætti 4 úrbeinuðum kjúklingalærum í pottinn. Þetta lét ég malla í ca. 20 mínútur en bætti þá smá sykri útí pottinn (það má auðvitað sleppa þessu), setti vorlauk, sítrónugrasið og dass af tamarinsósu.

Þegar þarna var komið var lyktin úr pottinum orðin svo dásamleg að ég átti beinlínis erfitt með mig en ég leyfði þessu engu að síður að sjóða meðan ég skellti líter af vatni í annan pott, lét suðuna koma upp og setti hrísgrjónanúðlur í. Þær sauð ég í 7 mínútur, hellti vatninu af og skolaði núðlurnar vel í köldu vatni og lét renna af þeim.

Þegar þarna var komið mátti ég loks setja smávegis af núðlum í skál og svo hellti ég súpu yfir með kjúkling og ég skal segja ykkur það … þetta er dásamlegt 🙂

kjúklinganúðlusúpa

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu