Kjúklingur í rauðu karrý

Ja hérna hér – er hægt að toppa sjálfa sig aftur og aftur?

– Já, ef þú ert óhrædd við að prufa þig áfram og láta reyna á innsæið í eldamennskunni 🙂

Já ég toppaði sjálfa mig í kvöld þegar ég skellti í tilraunaeldhús og gerði mér rétt sem ég kalla Kjúkling í rauðu karrý.

Innihald:
  • kjúklingalæri
  • laukur
  • paprika
  • tómatar
  • grænar baunir (frosnar)
  • rautt karrý mauk
  • kókosmjólk
  • garam masasla
  • túrmerik
  • pipar
  • smjör
  • ólífuolía

Ég byrjaði á því að hita smjör og ólífuolíu á pönnu, sneiddi laukinn smátt og setti á pönnuna, þá skar ég niður papriku og tómata og þetta fór á pönnuna með lauknum. Pannan var aðeins yfir miðlungshita. Ég setti kryddið saman við, byrjaði á túrmeriki svo garam masala og náði aðeins út bragðinu á þeim á pönnunni. Þá fór piparinn á pönnuna og loks karrýmaukið þar sem það blandaðist vel við grænmetið.

Ég skar niður kjúklingalæri, í munnstóra bita, og bætti á pönnuna, hækkaði hitann þá tímabundið til að kjúklingurinn tæki aðeins lit. Lækkaði svo hitann aftur áður en ég setti kókosmjólkina og grænu baunirnar útí og leyfði þessu að malla í góða stund, ca. 10 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er steiktur í gegn og allt hefur blandast vel á pönnunni.

Hrísgrjónin

Í hrísgrjónin notaði ég:

  • hrísgrjón (ég notaði hýðishrísgrjón, sem eru aðeins hollari en hin)
  • vatn (helmingi meira en af hrísgrjónum)
  • ólífuolía
  • saffran þræði, nokkra
  • piparkorn
  • fennelfræ
  • lárviðarlauf
  • grænar baunir (frosnar)

Ég sýð hrísgrjón þannig að ég set tæplega helmingi meira af vatni en hrísgrjónum, smávegis af ólífuolíu, kryddið fer í pottinn með hrísgrjónunum og lok á pottinn.

Þegar suðan er komin upp, lækka ég hitann í lægsta og leyfi þessu að standa þar til hrísgrjónin hafa tekið í sig allt vatnið. Þá bætti ég baununum saman við, hrærði aðeins í, setti lokið á pottinn og leyfði baununum að þiðna í rólegheitum.

Þetta bar ég fram með grískri jógúrt – og er líklega einn besti karrýkjúklingur sem ég hef smakkað!

Karrýkjúklingur

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu