Hani í víni – Coq au Vin

Í kvöld bauð ég nokkrum vinnufélögum í tilraunaeldhús Ingibjargar. Það er skemmst frá því að segja að það heppnaðist svona líka glimrandi vel. Maturinn bragðaðist ljómandi vel og héðan fóru gestirnir þokkalega saddir og sælir.

Í forrétt bauð ég Blaðlauks-þjöppu með serranóskinku og valhnetu sósu og í aðalrrétt var hani í víni, Coq au Vin. Hér kemur sú uppskrift.

Það sem þarf í mína útgáfu af réttinum er:

  • Kjúklingabitar
  • Beikon
  • Perlulaukur
  • Sveppir
  • Rauðvín
  • Ólífuolía
  • Smjör
  • Hveiti
  • Salt
  • Pipar

Ég byrjaði á því að taka utan af 30 perlulaukum, sneiða niður beikonið og þvo sveppina. Þá hitaði ég ólífuolíu og smjör í þykkbotna potti og steikti beikonið og perlulaukinn í um 5-6 mínútur en setti svo sveppina útí þar á eftir og leyfði þeim að malla með í um 3-5 mínútur. Því næst tók ég þetta úr pottinum og setti til hliðar.

Því næst setti ég hveiti í poka, saltaði og pipraði og velti svo kjúklingabitunum uppúr hveitinu. Þá steikti ég bitana í pottinum og tók þá uppúr þegar þeir voru brúnaðir á öllum hliðum. Því næst hellti ég einni flösku af þokkalega góðu rauðvíni út í pottinn og lét það sjóða niður í um 10-12 mínútur. Þá setti ég kjúklingabitana útí aftur og lét þá malla í pottinum í tæpa klukkustund. Eftir það skellti ég sveppum, lauk og beikoni út í pottinn og leyfði því að malla í um 20 mínútur til viðbótar.

Þetta er síðan borið fram eins og það er, en skv. uppskriftinni átti að skreyta með kóríander og brauðteningum en ég gleymdi því í ísskápnum.

Ljómandi gott – já einfalt og gott.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu