Dýrindis grænmetis-/fiskisúpa

Ég var staðráðin í að gera fiskisúpu í kvöld. En eins og svo oft áður þá datt mér ekki í hug að fylgja uppskrift heldur byggði ég á fyrri reynslu minni í fiskisúpugerð og ber þar hæst að nefna uppskrift Rúnars Marvinssonar. Þá súpu fékk ég fyrst í vinnunni og ég verð bara að segja að það var besta fiskisúpa sem ég hef smakkað.

Í þessa súpu notaði ég í grunninn það sem alltaf er notað, lauk, hvítlauk, gulrætur og sellerí. Þar fyrir utan er í súpunni túrmerik (sem bætir geð og léttir lund), salt og pipar. Að auki setti ég í súpuna kartöflur, engifer, hvítlauksost, niðursoðna plómutómata, karrý, hálfan grænmetistening og paprikuduft. Þar með er það upptalið. Engin mælistika sett á þetta, bara smakkað til eftir smekk og geði. Auðvitað fór í þetta líka eitthvað af vatni.

Þegar ég var að sjóða þetta grænmeti allt saman þá fór ég að hugsa um súpurnar sem fást á súpubarnum. Þær eru oft mjög matarmiklar og dálítið þykkar undir tönn. Það sem gerir þær þannig er að þær eru maukaðar í matvinnsluvél og þar sem ég hef nýlega eignast eina slíka þá veiddi ég megnið af grænmetinu uppúr pottinum og maukaði það.

Þegar allt var soðið saman setti ég fisk í botn á skál, ég átti þorsk og örlítið af lúðu og hellti svo súpunni yfir. Þetta borðaði ég af einstaklega góðri lyst, enda var þetta sérlega lystug og góð súpa. Ef einhver vill ekki fisk í súpuna þá stendur hún alveg undir nafni sem grænmetissúpa.

Já svona líka ljómandi gott.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu