Hollustusúpa Ingibjargar

Það er nauðsynlegt að elda hollt öðru hvoru og í kvöld var skellt í úrvals holla og hreint fáránlega góða súpu. Eins og venjulega var ekkert mælt, bara slumpað í og svo skafið dálítið úr ísskápnum.

Upprunalega hugmyndin var að búa til grænmetissúpu með kjúklingabaunum en þegar á hólminn var kominn fengu baunirnar frí en kókosmjólk tekin fram í staðinn.

Innihald:

  • 1 laukur, saxaður
  • 2 hvítlauksgeirar, smátt skornir
  • 1 fennel haus, saxaður
  • 1 brokkolí – frekar lítill haus – skorinn í bita
  • 3 gulrætur, sneiddar
  • 1 sellerístöngull, sneiddur
  • 3 cm engifer, ferskt smátt saxað
  • 1/4 rauð paprika, söxuð
  • 2 þurrkaðir chillí pipar, rauðir (litlir), mulinn
  • vorlaukur, klipptur niður
  • 1 ds kókosmjólk
  • 1 kjúklingateningur
  • 1/2 ltr vatn
  • 2 tsk túrmerik (algjörlega nauðsynlegt fyrir skapsveiflurnar)
  • 1 tsk paprikuduft – EKKI reykt paprika
  • pipar
  • salt
  • ólífuolía

Jæja, ég byrjað á því að saxa niður grænmetið, hitaði 1-2 msk af ólífuolíu í þykkbotna potti. Grænmetið, allt nema brokkolíið, sett útí, svitað þar í 5-7 mínútur, túrmerikið og paprikuduftið sett útí og leyft að taka sig með grænmetinu. Þá hellti ég kókosmjólkinni útí, setti teninginn og vatnið og leyfði suðunni að koma upp. Smakkaði til með salti og pipar og á endanum setti ég brokkolíið útí, það þarf ekki langa suðu.

Ég bar þetta fram með sýrðum rjóma og kornflögum og drakk vatn með þessu.

Svona líka ljómandi gott.

Hollustusúpa Ingibjargar
Hollustusúpa Ingibjargar
Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu