Vallarþulir eða bullarar

Ingibjörg Hinriksdóttir

Það er sérstök upplifun að mæta á völlinn. Mörgum finnst þetta vera ein besta skemmtun sem þeir geta hugsað sér á meðan aðrir vilja sitja heima í sófa og horfa á fótbolta í sjónvarpinu. Svo er víst líka til fólk sem ekki horfir á fótbolta, en það les heldur ekki þessa síðu þannig að við látum eins og það sé ekki til.

Á vellinum er margt sem skapar stemminguna. Leikmennirnir bera að sjálfsögðu uppi leikinn og geð áhorfenda getur verið mjög misjafnt eftir gengi þeirra manna. Stuðningsmenn liðanna mæta jafnan bjartsýnir og baráttuglaðir til leiks og fyrstu fimmtán til tuttugu mínútur leiksins er baráttan í stúkunni síst minni en inni á vellinum. Framgangur leiksins ræður því síðan hvernig stemmingin fer.

En vallarþulir geta líka kynt undir stemmingunni í gegnum hátalarakerfi vallanna og góður vallarþulur er ekki of oft lofaður. Þessir sömu aðilar geta líka farið langt með að skemma stemminguna í stúkunni með sífelldu gjammi og frammíköllum.

Það gerist nefnilega stundum að til starfans er ráðinn einstaklingur sem ekki ræður við verkefnið, hversu hress og kátur sem hann annars kann að vera. Stundum er það nefnilega þannig að vallarþulirnir telja það algjört aukaatriði að það heyrist hvað þeir segja heldur telja þeir aðalatriðið að hrópa (lesist: öskra) nógu hátt í míkrafóninn þannig að þeir yfirgnæfi örugglega alla áhorfendurna í stúkunni. Skiptir þá engu hvort áhorfendur eru nokkrir tugir eða nokkur þúsund. Einnig kemur það fyrir að vallarþulir eru hreinlega ekki almennilega mælandi, það er sýnu verst því þá þagna stuðningsmennirnir alveg – bara til að greina hvað viðkomandi er að segja.

Einn er sá vallarþulur á Íslandi sem ber höfuð og herðar yfir aðra kollega sína og hefur gert um langt árabil. Það er KR-ingurinn Páll Sævar Guðjónsson. Hann er fagmaður fram í fingurgóma, er skýrmæltur, flytur vallargestum upplýsingar á viðeigandi tíma, mætir vel undirbúinn til allra leikja og síðast en ekki síst talar af virðingu um mótherja KR hverju sinni.

Páll Sævar hefur enda á síðustu árum verið vallarþulur á öllum mikilvægustu leikjum sem fram hafa farið á þjóðarleikvanginum og er það vel valið af KSÍ að fá hann til verksins. En maður spyr sig hvort ekki sé ástæða til þess að KSÍ fái afnot af Palla til að kenna öðrum vallarþulum til verka, það veitir víða ekki af.

Greinin birtist á www.fotbolti.net 10. maí 2011.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu