Lítilsvirðing við frumbyggja Kópavogs

Nýjasti kosningapési Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi var borinn út um miðja vikuna. Mig langar svo sem ekki að fjalla mikið um þetta blað en get ekki látið hjá líða að minnast á eina litla grein sem Bragi Michaelsson skrifar undir fyrirsögninni „Áður var það skömm en nú er gott að búa í Kópavogi“.Með fyrirsögninni er Bragi sjálfsagt að reyna að slá um sig með slagorði sem fyrrverandi bæjarstjóri sló sjálfan sig til riddara með og það er bara í fínu lagi. Það er innihald greinarinnar sem er bæði særandi og móðgandi fyrir þá fjölmörgu sem telja sig til frumbyggja Kópavogs.

Í greininni segir Bragi frá því þegar hann flutti í Kópavog árið 1969. Hann lýsir því að bærinn hafi ekki verið til fyrirmyndar, þar voru götur ekki malbikaðar, hitaveita ekki komin og fleira.

Í grein Braga liggur það milli orðanna að það hafi ekki þótt merkilegt að flytja í Kópavog á 6. og 7. áratug síðasta aldar. Fyrirsögnin segir það beinum orðum, það var skömm! Þessi grein er Braga Michaelssyni til skammar. Kópavogur er byggður upp, bæði þá og nú, af harðduglegu fólki sem var og er tilbúið að leggja mikið á sig til að koma sér þaki yfir höfuðið. Á þessum tíma var hægt að fá hér lóðir fyrir lítið verð og hingað flutti fólk sem hafði litla peninga en mikinn dug, kraft og vilja. Í dag er þessu öfugt farið, vilji, dugnaður og kraftur duga skammt fyrir ungt fólk sem vill koma sér þaki yfir höfuðið. Það fólk flytur í Hafnarfjörð eða í önnur sveitarfélög þar sem fordómar gagnvart eignastöðu eru fjarverandi og fólk er velkomið.

Það er vonandi að fáir hugsi eins og Bragi Michaelsson, ég er í það minnsta stolt af íbúum Kópavogs, bæði gömlum og nýjum. Sérstaklega er ég stolt af fólki eins og foreldrum mínum sem byggðu sér stórt og mikið hús á Álfhólsvegi árið 1963 og fluttu þangað með allan barnahópinn sinn. Vissulega voru göturnar ekki malbikaðar, hitaveitan ekki komin og stundum mátti maður vaða drulluna uppí klof.

En hér var gott að búa – já jafnvel betra en það er í dag.

Höfundur er tækni- og upplýsingafulltrúi og íbúi í Kópavogi til 46 ára.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2010

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu